Menntamál hafa verið áberandi á vettvangi stjórnar SVÞ á starfsárinu enda er sá málaflokkur að verða sífellt mikilvægari í öllu starfi hagsmunaaðila fyrir atvinnulífið.
Námsframboð sem tengist verslun og þjónustu hefur verið af skornum skammti og námsleiðir eru flóknar og óskýrar. Það er sérkennilegt þar sem störf í heild- og smásöluverslun eru um 14% allra starfa í atvinnulífinu og rekja má rúmlega fjórðung af heildarveltu hagkerfisins til verslunarinnar.
SVÞ hefur lagt mikla áherslu á að framboð verði meira og að þær námsleiðir sem í boði eru skapi sér sess innan þess námsframboðs sem fyrir er með áherslu á að lyfta starfsgreininni til vegs og virðingar og gera verslun og þjónustu að eftirsóttum starfsvettvangi. Aðgengi að skýrum valkosti til menntunar á sviði verslunar og þjónustu þarf að vera til staðar.
Mikil vinna síðustu missera er að skila frábærum og spennandi valkosti inn í framhaldsskólakerfið sem er árangur af frumkvæði SVÞ að samstarfi fleiri aðila.
Ný námslína á framhaldsskólastigi við Verslunarskóla Íslands
Haustið 2019 hófst kennsla nýrrar námsbrautar sem ber heitið „Stafræn viðskiptalína“. Unnið hefur verið að skipulagi námsins undanfarin tvö ár að frumkvæði SVÞ í samstarfi við Verslunarskólann, VR og Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks.
Verzlunarskólanemendur í heimsókn hjá SVÞ félögunum í Sahara
Sérstaða námslínunnar er mikil þar sem í fyrsta skipti er boðið upp á vinnustaðanám sem hluta af námi til stúdentsprófs. Vinnustaðanámið er afmarkað við fyrirtæki sem sérhæfa sig í stafrænum lausnum eins og t.d. vefverslanir.
Tækninni fleygir fram og krafan um aukna menntun í verslun og þjónustu fer vaxandi samhliða þeirri stafrænu þróun sem er að verða í atvinnugreininni.
Samhliða nýrri stúdentsbraut er unnið að þróun 90 eininga náms á framhaldsskólastigi ætlað starfsfólki í verslun sem einnig er hýst í Verslunarskóla Íslands. Brautin verður kennd í fjarnámi og á vettvangi starfsmanna í samstarfi við fyrirtæki í verslun og þjónustu.
Kennsla námsbrautarinnar hófst í janúar 2020. Byggir mat nemenda á raunfærnimati og er unnið í nánu samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem og Mími símenntunarstöð. Sara Dögg forstöðumaður menntamála situr fyrir hönd SVÞ í stýrihópi sem fer fyrir þróun beggja þessara brauta.
Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík hefur boðið upp á námslínu fyrir stjórnendur í verslun og þjónustu og var slík lína keyrð síðastliðið haust.
Námsbraut á fagháskólastigi í verslun og þjónustu hefur fest sig í sessi en námsbrautin er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. Þar stundar 21 nemandi nám í dag.
Aðkoma samtakanna að fræðslu- og menntamálum hefur verið með margs konar hætti, m.a. með þátttöku fulltrúa í ráðum sem hafa með fræðslu- og menntamál að gera og með stuðningi við verkefni á sviði mennta- og fræðslumála. Verkefnin eru fjölbreytt og má þar nefna eftirfarandi:
Stýrihópur um tvær námsbrautir á framhaldsskólastigi sem er unnin í samstarfi við Verslunarskóla Íslands.
Þróunarhópur um nýja námsbraut við Verslunarskóla Íslands, Stafræn viðskiptabraut sem fór af stað haustið 2019.
Stýrihópur um námsbraut á fagháskólastigi en skráningu á námsbrautina er lokið og námið hafið.
Samráðshópur um nám fullorðinna en óskað var eftir tilnefningum frá velferðarráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, ASÍ, SA, BSRB, Bandalagi Háskólamanna (BHM), Félagi framhaldsskólakennara, Skólameistarafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun, innflytjendaráði, Kvasi, ÖBÍ, Fjölmennt, Vinnumálastofnun, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, EPALE (Rannís) og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Samráðshópurinn er skipaður til fjögurra ára.
Verkefnahópur um úrbætur í menntun, hæfingu, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla. Óskað var eftir tilnefningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Starfsgreinaráð verslunar- og skrifstofufólks en það sinnir fjölmörgum verkefnum er snúa að menntun og fræðslu fyrir skrifstofu- og verslunargreinar.
Starfsgreinaráð fyrir samgöngu-, farartækja- og flutningagreinar. Þar er unnið víðtækt starf er snýr að menntun og fræðslumálum.
Innan Húss atvinnulífsins er starfrækt menntanefnd sem er skipuð fulltrúum frá SA og öllum aðildarfélögum. Nefndin fundar reglulega og fer yfir helstu mál hverju sinni, áherslur og verkefni.
Menntadagur atvinnulífsins er haldinn árlega og ber menntanefndin ábyrgð á honum, heldur utan um skipulag og framkvæmd.
Menntanefndin sameinast um ýmis verkefni á sviði mennta-, fræðslu- og mannauðsmála og má þar nefna röð morgunverðarfunda um menntun og mannauð.
Unnið er áfram að hæfniramma um íslenska menntun sem mennta- og menningarmálaráðuneyti, ASÍ, SA, BSRB, Kvasir, Leikni, Bandalag háskólamanna (BHM), Samtök íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) undirrituðu fyrir rúmu ári.
Hæfniramma um íslenska menntun er ætlað að endurspegla stigvaxandi hæfnikröfur í formlegu og óformlegu námi á Íslandi. Kortlagning starfsgreinaráðs á störfum innan verslunar nýtist vel fyrir greinina og tengir inn í hæfniþrep íslenska hæfnirammans.