og almenn samskipti við félaga
Mikið hefur verið gert til að bæta kynningarmál samtakanna og samskipti við félagsmenn í gegnum hina ýmsu miðla og von á enn fleiri spennandi umbótum í þeim málum.
Innri vefur Samtaka atvinnulífisins og aðildafélaga þeirra, Þínar síður, fór í loftið á árinu. Á síðunum eru upplýsingar sem tengjast aðild að samtökunum og farvegir fyrir fyrirspurnir og verkbeiðnir. Unnt er að velja áskriftir að útgefnu efni, uppfæra tengiliði og skoða fjárhagslegar upplýsingar.
Við hvetjum félaga til að fara inn og kynna sér kerfið og sérstaklega til að tryggja að tengiliðaupplýsingar séu réttar, svo að fólk missi ekki af neinu, hvort sem um er að ræða mikilvægar upplýsingar, eða einfaldlega gagnlegt og áhugavert efni sem nýst getur aðildarfyrirtækjum.
Þú finnur hlekk í þínar síður efst hægra megin á vef SVÞ, svth.is, og á slóðinni atvinnulif.is
Ný vefsíða fór í loftið í ágúst. Nýjir eiginleikar hafa bæst við eins og sjálfvirk uppfærsla á félagatali beint úr innri kerfum og viðburðadagatal sem tekið getur á móti skráningum á viðburði á skilvirkari hátt en áður hefur verið.
Á vefnum er hægt að fylgjast með fréttum af starfinu, fræðslustarfi, útgáfu og innra starfi samtakanna. Að auki er að finna viðburða-dagatal, og skráningarform á almennan póstlista samtakanna til að tryggja aðgengi að öllu sem SVÞ hefur að miðla hverju sinni.
Skoðaðu vefinn hér á svth.is
Tölvupóstlistasendingar SVÞ hafa verið í stöðugri þróun. Með nýtilkominni beintengingu úr félagatali í póstlistakerfi samtakanna getum við betur tryggt upplýsingaflæði til félagsmanna, bæði með almenna póstlistanum en ekki síður sérstökum póstlista SVÞ félaga sem notaður er fyrir sértækari upplýsingar og tilkynningar.
Kerfið gefur okkur nú einnig tækifæri til að sníða útsendingar betur að þörfum félaga með því m.a. að senda viðeigandi efni eingöngu á þá sem það varðar, frekar en á allan hópinn. T.d. getum við nú með mun auðveldari hætti hlutað félagsmenn niður eftir tegund starfsemi, þannig að t.d. þeir sem einkum hafa áhuga á verslun geta fengið verslunartengt efni, félagar í Samtökum heilbrigðisfyrirtækja fá það sem við þá á, flutningafyrirtæki það sem sérstaklega á við fyrir þau þegar svo ber undir o.s.frv.
Sem liður í auknum daglegum samskiptum við félagsmenn og auknum sýnileika samtakanna almennt hafa verið settir upp þrír Facebook hópar:
Stafrænn hópur SVÞ er opinn öllum sem áhuga hafa á málum tengdum stafrænni umbreytingu. Þarna póstum við gagnlegu og áhugaverðu efni. Það er von okkar að við getum ræktað hópinn til að verða öflugan umræðugrundvöll um þessi mikilvægu mál og til að auka meðvitund um þau í atvinnulífinu, enda stafræna umbreytingin ein sú stærsta, ef ekki stærsta áskorunin sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir.
Verslunarhópur SVÞ er einnig opinn öllum þeim sem áhuga hafa á íslenskri verslun, hvort sem er á netinu eða í raunheimum. Starfsmenn samtakanna fá og rekast á gríðarlega mikið efni sem á sérstaklega erindi við verslun og þótti þetta góð leið til að miðla því án þess að SVÞ félagar í annarri starfsemi þurfi að fá allt þetta efni líka. Ákvörðunin um að hafa hópinn öllum opinn var tekin til að vekja athygli fleiri aðila í verslun á starfsemi samtakanna og því sem við höfum upp á að bjóða.
Hópurinn SVÞ félagar var settur upp til að geta á auðveldan hátt deilt efni til SVÞ félaga á lokuðu svæði. Meðal efnis sem þarna hefur verið birt eru upptökur frá fræðslu- og upplýsingafundum, og gögn sem samtökin hafa aðgang að m.a. í gegnum systursamtök sín á Norðurlöndum. Tekin verður ákvörðun um frekari nýtingu þessa hóps á næstu misserum, en í vinnslu er nú innri vefur SVÞ þar sem hægt verður að deila efni sem eingöngu er ætlað félagsmönnum og því kann þessi hópur að verða óþarfur.
Síðastliðið vor var settur upp streymisbúnaður í meginfundarsal Húss atvinnulífsins, Hyl. Þetta er frábær viðbót við þjónustu við félagsmenn og hefur marga kosti s.s.:
Eftir þjálfun starfsmanna og nokkrar tilraunir til streymis og upptöku erum við nú orðin nokkuð sjóuð í notkun búnaðarins. Stefnt er að því að vel flestir ef ekki allir viðburðir verði að minnsta kosti teknir upp og gerðir félögum aðgengilegir á tilvonandi innri vef, eða bæði streymt og teknir upp.
Eins og fram hefur komið að ofan er innri vefur SVÞ í vinnslu. Þar er ætlunin að safna saman fræðslu og upplýsingaefni fyrir félagsmenn þannig að auðvelt sé að nýta sér það hvar og hvenær sem er. Aðgangur að innri vefnum mun verða í gegnum Þínar síður SA (sjá að ofan) svo við hvetjum félaga eindregið til að skrá sig þar inn.