Drifkraftur innra starfs SVÞ!
Öflugt faghópastarf er drifkraftur innra starfs SVÞ
Smelltu á nafn hópsins til að fræðast meira um starfsemi hans
Faggildingarhópur
Flutningasvið SVÞ
Hagsmunahópur fasteignafélaga
Hagsmunahópur hreingerningafyrirtækja
Hópur um lausasölulyf
Hópur um opinber innkaup
Hópur vátryggingamiðlara
Lyfsöluhópur
Samtök heilbrigðisfyrirtækja
Samtök sjálfstæðra skóla
Samtök ökuskóla
Stafræn viðskipti á Íslandi
Öryggishópur
SVÞ eiga tvö sæti í ráðgefandi faggildingarráði á vettvangi stjórnarráðsins en verkefni þess er að gera tillögur að stefnumótun um starfsemi faggildingar, veita faggildingarsviði Hugverkastofu faglega ráðgjöf um málefni faggildingar og vera atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og faggildingarsviði Hugverkastofu til ráðgjafar og aðstoðar við undirbúning að jafningjamati á grundvelli reglugerðar (ESB) nr. 765/2008.
Á árinu 2019 lagði faggildingarráð höfuðáherslu á aðstoð vegna undirbúnings jafningjamatsins og tóku fulltrúar SVÞ virkan þátt í því starfi.
Faggildingarhópurinn hefur unnið að því að auka vitund um málefni faggildingar og að auka vægi hennar á vettvangi hins opinbera. Þá vann faggildingarhópurinn að einstaka hagsmunamálum skoðunarstöðva einkum hvað varðar skoðunartíðni ökutækja og þóknun vegna innheimtu gjalda af bifreiðaeigendum.
Á vettvangi stjórnvalda, bæði ríkisins og sveitarfélaga, hefur staðið yfir vinna við stefnumótun á sviði samgangna.
Flutningasviðið hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri og lagt mikla áherslu á þjóðhagslegan ábata sem grundvöll forgangsröðunar samgönguframkvæmda. Þá vakti sviðið athygli stjórnvalda á nauðsyn fyrirsjáanleika og fyrirhyggju við breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis og því að taka þyrfti tillit til hlutverks og áhrifa vöruflutninga milli landsvæða og umferðar atvinnutækja við sköpun tekna. Á sviði flugmála hélt flutningasviðið mikilvægi fraktflutninga á lofti.
Stjórnvöld hafa birt áform og frumvarpsdrög sem snúa að veg- og notkunargjöldum. Flutningasviðið hefur vakið athygli á hve þung skattbyrði atvinnurekenda er nú þegar og hvatt til þess að slík áform verði undirbúin vandlega og heildarmynd skattbyrðinnar liggi fyrir áður en ákvarðanir um nýja gjaldtöku verða teknar.
Fasteignaskattur og baráttan fyrir verulegri lækkun þeirra var áfram megin viðfangsefni hagsmunahóps fasteignafélaga innan SVÞ.
Fasteignaskattur er mjög íþyngjandi fyrir rekstur fyrirtækja í þessum geira og hefur verið allt frá því að Þjóðskrá breytti aðferð við útreikning skattsins árið 2016. Framundan er áframhaldandi barátta fyrir breyttri löggjöf í þessu efni en í þessum efnum sem mörgum öðrum berum við okkur saman við hin Norðurlöndin. Þar er hámarksálagning fasteignaskatts sem hlutfall af fasteignamati mun lægra en hér á landi.
Að mati SVÞ er það eitt stærsta baráttumálið fyrir jöfnun samkeppnisskilyrða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum samkeppnisaðilum, að þessi skattur lækki verulega og munu samtökin í nánu samstarfi við Samtök atvinnulífsins beita sér með auknum þunga í þessum efnum á næstunni.
Á vettvangi hagsmunahópsins hefur starfað vinnuhópur lögfræðinga SVÞ og fasteignafélaganna. Á árinu 2019 hefur starf vinnuhópsins einkum snúið að undirbúningi hagsmunagæslu vegna knýjandi þarfar á breytingum á lögum um fjöleignarhús í ljósi breyttra skipulagsáherslna og þarfa atvinnurekenda í húsnæði sem er bæði með íbúðum og húsnæði til annarra nota.
Bætt vinnubrögð við framkvæmd opinberra útboða er aðalbaráttumál þessa hóps. Að mati hópsins vantar mikið á að svo sé.
Hópurinn hefur lagt á það áherslu í samskiptum sínum við þá sem bera ábyrgð á opinberum útboðum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, að það séu sameiginlegir hagsmunir verkkaupa og verksala að framkvæmd opinberra útboða sé vönduð.
Hópur um lausasölulyf leggur áherslu á aukið markaðsaðgengi fyrir lausasölulyf hér á landi. Starf hópsins beinist einkum að því að beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum í því efni og hafa umsagnir hópsins, m.a. um frumvarp til nýrra lyfjalaga, beinst að því.
Hópurinn leggur því áherslu á að heimilað verði að selja lausasölulyf víðar en í lyfjaverslunum, m.a. í stórmörkuðum og eldsneytisstöðvum. Í umsögnum hópsins hefur verið bent á það víðast hvar í nágrannalöndum okkar er heimild til sölu lausasölulyfja mun rýmri en hér á landi.
Undirbúningsfundur vegna stofnunar faghóps um opinber innkaup var haldinn á árinu 2019. Helstu áherslur hópsins liggja fyrir og hefur skrifstofa SVÞ fylgt þeim eftir með erindum og fundum með opinberum aðilum, þ. á m. Ríkiskaupum.
Nær öll fyrirtæki sem stunda vátryggingamiðlun á Íslandi eiga aðild að SVÞ og var starfsemi hópsins með hefðbundnum hætti á starfsárinu. Fylgst var áfram með þróun Evrópulöggjafar á sviði vátryggingamiðlunar og áfram kannaðir möguleikar á samstarfi við erlend vátryggingafélög sem kynnu að hafa áhuga á að bjóða fram þjónustu sína á Íslandi.
Lyfsöluhópur SVÞ hefur það meginhlutverk að gæta hagsmuna smásölumarkaðar með lyf hér á landi.
Þar sem verðlagning lyfja er háð opinberri ákvörðun fer stór hluti af vinnu hópsins í að koma á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld þeim atriðum sem þar skipta máli, en að jafnaði er tekin ákvörðun um nýja smásöluálagningu lyfja sem gilda skal fyrir næsta almanaksár. Sú skipan mála hefur verið nokkur undanfarin ár og hefur verið gerð í góðu samstarfi við Lyfjagreiðslunefnd.
Að undanförnu hefur hins vegar gætt nýs tóns í samskiptum við þá opinberu aðila sem koma að verðlagningu lyfja, sem hefur leitt til þess að ekki er enn búið að taka ákvörðun í þeim efnum fyrir yfirstandandi ár. Það hefur valdið miklum vonbrigðum sá viðsnúningur sem hér hefur orðið og það skilningsleysi sem nú virðist ríkja á mikilvægi lyfjageirans fyrir heilbrigðiskerfið í landinu.
Samtök heilbrigðisfyrirtækja (SH) voru stofnuð árið 2009 og hafa verið starfandi undir hatti SVÞ æ síðan. Fyrirtæki sérfræðilækna sem starfa sjálfstætt eru stór hluti af aðildarfyrirtækjum samtakanna og hefur staða sérfræðilækna gagnvart Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) verið megin viðfangsefni SH á starfsárinu, en samningur sérfræðilækna við SÍ rann út um áramótin 2018-2019. Lítið sem ekkert hefur þokast í viðræðum við stofnunina síðan.
SH ásamt nokkrum öðrum samtökum innan heilbrigðis- og umönnunargeirans stóðu fyrir fjölmennum fundi haustið 2019 þar sem samskipti þessara samtaka við SÍ voru raktar. Allir þeir sem tóku til máls á fundinum höfðu sömu sögu að segja, en svo virðist sem algerlega skorti vilja, og jafnvel getu, hjá stofnuninni að klára samningsgerð við lykilaðila innan heilbrigðiskerfisins með sómasamlegum hætti.
SVÞ sinnir skrifstofuhaldi og sér um hagsmunagæslu fyrir Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) sem stofnuð voru árið 2005 en skólar innan SSSK gengu í SVÞ árið 2008. Innan samtakanna eru 51 sjálfstætt starfandi skólar á leik- og grunnskólastigi.
Hagsmunagæsla fyrir SSSK snýr einna helst að samskiptum og samvinnu við ríki og sveitarfélög.
Unnið hefur verið að því allt starfsárið að ná fram skýringum á forsendum hagstofutölu, forsendu útreikninga á framlagi til grunn-skólanna. Fundur í menntamálaráðuneytinu ásamt erindi til ráðherra um rýni á forsendu hefur ekki enn skilað árangri.
Ítarlegra yfirlit yfir starfsemi síðasta starfsárs má sjá hér á vef SVÞ.
Samtök ökuskóla
Á vettvangi stjórnvalda hefur verið unnið að breytingum á fyrirkomulagi ökuréttinda og endurmenntunar bifreiðastjóra og hafa SVÞ veitt samtökunum aðstoð hvað það varðar.
Öryggishópur SVÞ
Öryggishópur SVÞ vinnur einkum að því að bæta viðbrögð lögreglunnar við þjófnuðum og öðrum afbrotun í verslunum. Það beina og óbeina tjón sem verslunin verður fyrir vegna slíkra afbrota nemur milljörðum króna á hverju ári. Ber stór hluti þessara afbrota einkenni skipulagðrar glæpastarfsemi.
Að mati þeirra sem sinna öryggismálum innan verslunarinnar hefur vantað töluvert á að afbrotum þessum sé sinnt með nægjanlega afgerandi hætti hjá lögreglu. Á undanförnum mánuðum hafa SVÞ átt uppbyggilegar viðræður við löggæsluyfirvöld um stöðu þessara mála og hafa nú ástæðu til að ætla að með nýjum og bættum vinnubrögðum verði þessi mál tekin fastari tökum af hálfu lögreglunnar á næstunni.