Rannsóknasetur verslunarinnar annast gerð mánaðarlegrar greiningar á þróun verðlags fyrir Samtök verslunar og þjónustu. Í greiningunni er að finna sundurliðun Vísitölu neysluverðs niður á helstu undirþætti, þróun Byggingavísitölu og breytingar á heimsmarkaðsverði hrávara. Greiningin birtist mánaðarlega, á útgáfudegi Vísitölu neysluverðs, á vef SVÞ undir útgáfa.
Rannsóknasetur verslunarinnar vinnur að gerð netverslunarvísis í samstarfi við Samtök verslunar og þjónustu. Netverslunarvísirinn á að koma út tvisvar á ári og innihalda helstu staðreyndir og tölur er varða þróun netverslunar hérlendis. Verkefnið er að sænskri fyrirmynd en Svensk Digital Handel, Postnord og HUI gefa reglulega út svokallaðan e-Barometer sem fanga á þróun netverslunar þar í landi.
Hérlendis, líkt og víðast hvar annarsstaðar er tölfræði um fermetrafjölda verslunarhúsnæðis áfátt. Af þessum sökum hefur vafasamur samanburður á verslunarhúsnæði á mann jafnan átt greiða leið í samfélagsumræðuna. Nú vinna Rannsóknasetur verslunarinnar og Samtök verslunar og þjónustu að því að kortleggja magn verslunarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður þróun fjölda fermetra verslunarhúsnæðis á mann.
Fasteignagjöld verslunarhúsnæðis eru ólík eftir sveitarfélögum og svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignagjöld ráðast af fasteignamati og álagningarprósentu sveitarfélaga. Rannsóknasetur verslunarinnar hefur reiknað dæmigerða byrði fasteignagjalda fyrir verslanir eftir svæðum á höfuðborgarsvæðinu sem mun nýtast SVÞ í hagsmunagæslu sinni gagnvart sveitarfélögum.