Menntamál hafa verið áberandi á vettvangi stjórnar SVÞ á starfsárinu enda er sá málaflokkur að verða sífellt mikilvægari í öllu starfi hagsmunaaðila fyrir atvinnulífið.
Námsbraut á fagháskólastigi í verslun og þjónustu hefur fest sig í sessi en námsbrautin er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. Námið er diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er starfstengt fagháskólanám fyrir verslunarstjóra og einstaklinga með víðtæka reynslu af verslunarstörfum. Styrkur námsins liggur bæði í virku samstarfi við atvinnulífið og í samstarfi tveggja háskóla um þróun þess og kennslu. Námið er metið til eininga í áframhaldandi námi í viðskiptafræði til BS gráðu, bæði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík.
Nemendur sem útskrifast með diplómagráðu í verslunarstjórnun munu því geta haldið áfram námi til BS gráðu í viðskiptafræði kjósi þeir það. Námið, sem er 60 ECTS einingar, tekur mið af ofangreindum starfsþáttum. Það er kennt með vinnu og tekur tvö ár í dreifnámi. Námið byggir að hluta á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræðum við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga og með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni.
Um 20 nemendur hafa útskrifast og sumir þeirra haldið áfram í BS námið.
Stafræn viðskiptalína er ný námslína á framhaldsskólastigi við Verslunarskóla Íslands sem hóf göngu sína haustið 2019. Unnið hefur verið að skipulagi námsins undanfarin tvö ár að frumkvæði SVÞ í samstarfi við Verslunarskólann, VR og Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks. Sérstaða námslínunnar er mikil þar sem í fyrsta skipti er boðið upp á vinnustaðanám sem hluta af námi til stúdentsprófs.
Vinnustaðanámið er afmarkað við fyrirtæki sem sérhæfa sig í stafrænum lausnum eins og t.d. vefverslanir. Tækninni fleygir fram og krafan um aukna menntun í verslun og þjónustu fer vaxandi samhliða þeirri stafrænu þróun sem er að verða í atvinnugreininni.
Fagnámi verslunarinnar er nám á framhaldsskólastigi ætlað starfsfólki í verslun sem einnig er hýst í Verslunarskóla Íslands. Námið er 90 einingar og er blanda af fjarnámi og vinnustaðanámi í fyrirtækjunum. Umsækjendum stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum. Þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga og styttingar á námi sínu. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlan
Frá upphafi hafa 69 nemendur innritast í námið, 52 af þeim eru virkir í náminu í lok árs 2021 og 9 hafa útskrifast með fagbréf í fórum sínum. Sumir nemendanna halda svo áfram og ljúka stúdentsprófi samhliða fagnáminu.
Þau fyrirtæki sem eru sem eru aðilar að þessu verkefni í dag eru Samkaup, Domínos, Húsasmiðjan, Nova, Rönning og Lyfja. Byko og Skeljungur bætast við á árinu 2022.
Fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins geta nú sótt um í marga fræðslu- og starfsmenntasjóði með einni umsókn.
Umsóknarferlið er einfalt í notkun og býður upp á þann valmöguleika að tengja eina umsókn við marga sjóði fyrir þau fyrirtæki þar sem starfsmannahópurinn er fjölbreyttur og greitt er af í mismunandi stéttarfélög.
Sjóðirnir sem standa að Áttinni eru IÐAN fræðslusetur, Landsmennt, Menntasjóður STF, Rafmennt, Starfsafl, Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks og Starfsmenntasjóður verslunarinnar og Sjómennt.
Ætla má að sjóðirnir nái til um 110-120 þúsund starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum eða um 75-80% starfsmanna á þeim vinnumarkaði.
Menntadagur atvinnulífsins er haldinn árlega og ber menntanefndin ábyrgð á honum, heldur utan um skipulag og framkvæmd.
Menntadagur atvinnulífsins 2022 verður í Hörpu 25. apríl.
Menntanefndin sameinast um ýmis verkefni á sviði mennta-, fræðslu- og mannauðsmála og má þar nefna röð morgunverðarfunda um menntun og mannauð.