Kjaramál voru reglulega til umræðu á vettvangi stjórnar á starfsárinu ekki síst í ljósi komandi kjaraviðræðna. Liður í undirbúningi kjaraviðræðna var vinnufundur fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var á haustdögum og var góð þátttaka í fundinum af hálfu fulltrúa SVÞ. Að undanförnu hefur verið lögð aukin áhersla á að virkja fulltrúaráð SA í því skyni að marka stefnu fyrir kjaraviðræður. Einnig fóru fram viðræður við stjórnvöld um um það vinnumarkaðsmódel sem SA stefnir að koma á að norrænni fyrirmynd. Framundan er þungar kjaraviðræður sem fara munu fram í kjöfar heimsfaraldurs, sem hefur haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækja, en í mismunandi mæli þó eftir atvinnugreinum. Enn sem fyrr mun samstaða meðal atvinnurekenda við undirbúning og gerð nýrra kjarasamninga skipta meginmáli.
Heimsfaraldurinn og áhrif hans á atvinnulíf og samfélag var til umræðu með reglubundnum hætti á starfsárinu. Það voru ekki aðeins þær takmarkanir sem ítrekað voru innleiddar á atferli almennings og starfsemi fyrirtækja og stofnanna sem til umræðu voru. Einnig og ekki síður voru það hin efnahagslegu áhrif faraldursins sem voru til umfjöllunar. Fljótlega eftir að faraldurinn hófst tók að bera á verulegum hækkunum á heimsmarkaðsverði á hvers kyns hrávöru, bæði til matvælaframleiðslu og almennrar iðnframleiðslu. Einnig tók að bera á fordæmalausum hækkunum á flutningskostnaði, einkum á siglingaleiðum á milli heimsálfa. Þessar verðhækkanir eru bein afleiðing af heimsfaraldrinum og voru þær meiri en áður hafa sést á friðartímum.
Mikil opinber umræða var um þessi mál í þjóðfélaginu og tóku forsvarsmenn samtakanna þátt í þeirri umræðu. Fjölmörg viðtöl voru veitt í fjölmiðlum og greinar skrifaðar og þar var m.a. lýst þeim áhrifum sem þessar verðhækkanir myndu óhjákvæmilega hafa á verð vöru og þjónustu hér á landi. Þar kom berlega í ljós hversu vandmeðfarin opinber umræða um þessi mál er.
Hvar sú lína liggur sem Samkeppniseftirlitið sem markar um heimildir hagsmunaaðila til að tjá sig opinberlega um málefni af þessum toga, er engan veginn vel ljóst. Það verður að teljast mjög bagalegt.
Í kjölfarið á opinberri umræðu um verðhækkanir í kjölfar heimsfaraldurs gaf Samkeppniseftirlitið út leiðbeiningar fyrir hagsmunasamtök sem fjölluðu um hvað hagsmunaaðilum væri heimilt að tjá sig um í opinberri umræðu um verðlagsmál.
Nokkur umræða var um hinar nýju leiðbeiningar á vettvangi samtakanna. Á það var bent í þeirri umræðu að SVÞ hefðu nær aldrei átt frumkvæði að því að því að um málið væri fjallað á opinberum vettvangi. Frumkvæðið hefði nær alltaf verið frá fjölmiðlafólki.
Fyrir liggur að hagsmunasamtök í atvinnulífinu, þ.m.t. SVÞ, eru ekki að öllu leyti sammála mati Samkeppniseftirlitsins í þessu efni en áherslur samtakanna liggja í að koma sjónarmiðum þeirra um þessi viðkvæmu mál á framfæri á ábyrgan hátt.
Að mati SVÞ hlýtur það að teljast eitt af hlutverkum hagsmunasamtaka að fjalla um svo mikilvæg mál.
Í aðdraganda alþingskosninga s.l. haust komu frambjóðendur nær allra þeirra flokka sem buðu fram í öllum kjördæmum í viðtöl í stúdíói atvinnulífsins, sem sett hefur verið upp í Borgartúni 35.
Þar voru frambjóðendur spurðir um viðhorf þeirra til einstakra áherslumála SVÞ. Meðal þess sem frambjóendur voru spurðir um voru viðhorf þeirra til stafrænnar umbreytingar í atvinnulífinu, útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkaaðila, einkareksturs í heilbrigðiskerfinu, tolla og landbúnaðar og viðhorfa þeirra til fasteignaskatta. Upptökur af viðtölunum voru svo birtar á Facebook síðu samtakanna.
Eins og komið hefur fram í skýrslum stjórnar undanfarin ár, hafa SVÞ lagt áherslu á hina stafrænu umbreytingu í atvinnulífinu í fræðslu- og kynningarstarfi samtakanna. Sem liður í þeirri áherslu var stofnum stafræns hæfniklasa en hann hóf starfsemi sína í byrjun september 2021. Um er að ræða samstarfsverkefni SVÞ, VR og Háskólans í Reykjavík sem hefur það að markmiði að efla stafræna þekkingu í atvinnulífinu og á vinnumarkaði. Stjórnvöld leggja verkefninu til fjármagn, auk framlaga frá SVÞ og VR.
Framkvæmdastjóri stafræna hæfniklasans er Eva Karen Þórðardóttir. Eins og áður sagði hefur stafræn umbreyting atvinnulífsins verið eitt af stóru áherslumálum SVÞ undanfarin ár. Samtökin telja að stafræn þekking og hæfni alls staðar í atvinnulífinu sé ein af frumforsendum þess að Ísland haldi áfram stöðu sinni meðal fremstu þjóða heims hvað lífskjör varðar. Samkeppnishæfni Íslands sé í húfi. Þess vegna leggja samtökin mjög mikið upp úr því að vel takist til með starfsemi hæfniklasans við innleiðingu á nýrri tækni og nýrri hugsun í atvinnulífinu.
Vonast er til að starfsemi klasans verði upphafið að meiri og nánari samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda á þessu sviði og hafa SVÞ lýst sérstakri ánægju með það samstarf sem hér hefur tekist að mynda milli atvinnurekenda og launþega í verslunar- og þjónustugeiranum með öflugri aðkomu háskólasamfélagsins.
Nýr samningur til tveggja ára, um starfsemi Rannsóknarseturs verslunarinnar, var undirritaður í lok árs 2021. Í aðdraganda þess voru málefni setursins rædd innan stjórnar SVÞ og taldi stjórnin mikilvægt að starfsemi setursins héldi áfram og yrði efld frá því sem verið hefur.
Stjórnin samþykkti því að vera áfram fjárhagslegur bakhjarl fyrir setrið, en auk SVÞ koma VR og Menningar- og viðskiptaráðuneytið að fjármögnun setursins. Háskólinn á Bifröst mun hætta beinu fjárframlagi en samstarf við háskólann verður áfram í formi rannsóknarsamstarfs sem felur í sér að unnin verða átta rannsóknarverkefni á ári fyrir RSV eða í samvinnu við setrið. Um er að ræða verkefni sem eru sérsniðin tengd verslun og/eða þjónustu sem unnin verða undir handleiðslu kennara við skólann. Markmiðið er að þessi verkefni geti nýst RSV á margvíslegan hátt og verði jafnvel hægt að nýta til tekjuöflunar fyrir setrið. Með nýjum samningi og auknu fjárframlagi frá SVÞ, VR og Menningar- og viðskiptaráðuneytisins á rekstur setursins að vera tryggður næstu árin.
Framkvæmdastjóri rannsóknarsetursins er Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir.
Ákveðið var að ráðast í viðamiklar endurbætur á húsnæði samtakanna, en húsnæðið hefur verið nær óbreytt allt frá því að það var tekið í notkun fyrir rúmum tuttugu árum síðan.
Meginbreytingin felst í því að miðhluti húsnæðisins er nú í opnu rými og þá voru settir eikarrimlar á langvegg í húsnæðinu þar sem merki (logo) samtakanna mun setja mikinn svip. Þá voru glerveggir og hurðir fyrir skrifstofur endunýjuð. Starfsaðstaðan á skrifstofu samtakanna hefur batnað að miklum mun við þessar breytingar.
Í upphafi árs 2021 undirrituðu SVÞ og BGS viljayfirlýsingu um náið samstarf samtakanna á hagsmunagæslusviðinu. Markmiðið var að láta reyna á samstarf samtakanna og taka svo afstöðu til frekari samvinnu og mögulega sameiningu áður en árið væri liðið.
Reynslan af þessu reyndist það góð að stjórnir SVÞ og BGS ákváðu í upphafi árs 2022 að stefnt skyldi að sameiningu samtakanna. Voru tillögur þar að lútandi samþykktar af stjórnum samtakanna beggja, jafnframt því sem tillögur að nauðsynlegum breytingum á samþykktum samtakanna voru samþykktar.
Aukaaðalfundur BGS sem haldinn var í febrúar 2022 samþykkti fyrirhugaðan samruna samhljóða. Tillagan verður nú borin upp á aðalfundi SVÞ í mars og verði hún einnig samþykkt þar mun sameining samtakanna undir nafni SVÞ koma til framkvæmda 1. apríl n.k. Frá þeim tíma verður Bílgreinasambandið fagfélag innan SVÞ