Drifkraftur innra starfs SVÞ!
Öflugt faghópastarf er drifkraftur innra starfs SVÞ
Smelltu á nafn hópsins til að fræðast meira um starfsemi hans
Faggildingarhópur
Flutningasvið SVÞ
Hagsmunahópur bókhaldsstofa
Hagsmunahópur blómaverslana
Hagsmunahópur fasteignafélaga
Hagsmunahópur hreingerningafyrirtækja
Hópur um lausasölulyf
Hópur um opinber innkaup
Hópur vátryggingamiðlara
Lyfsöluhópur
Samtök heilbrigðisfyrirtækja
Samtök sjálfstæðra skóla
Samtök ökuskóla
Stafræn viðskipti á Íslandi
Öryggishópur
Hagsmunahópur faggiltra fyrirtækja innan SVÞ er einn virkasti faghópurinn innan samtakanna. Hópurinn fundar með reglulegum hætti, að jafnaði einu sinni í mánuði, og vinnur samkvæmt reglulega uppfærðri verkefnaáætlun. Eins og áður er meginviðfangsefni hópsins að vinna að útvistun opinberra eftirlitsverkefna en á síðasta ári beindi hópurinn einkum sjónum sínum að verkefnum Vinnueftirlitsins.
Greining hópsins hefur leitt í ljós að hlutverk stofnunarinnar er verulega frábrugðið hlutverki sambærilegra stofnana á hinum Norðurlöndunum. Á vettvangi hópsins hafa breytingar á reglum um skoðun ökutækja verið rýndar og settar fram verulegar athugasemdir. Þá átti hópurinn rík samskipti við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samgöngustofu vegna gerðar nýrrar skoðunarhandbókar ökutækja. Breytingar á innheimtu skatta af eigendum ökutækja hafa jafnframt útheimt vinnu á vettvangi hópsins.
Flutningasvið SVÞ beindi að mestu sjónum að orkuskiptum í landflutningum á síðasta ári. Lítur sviðið svo á að með aðgerð A.8 á bls. 96 í Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum hafi stjórnvöld sent á loft bolta sem íslensk flutningafyrirtæki verða að móttaka. Til þess að líta að framgangur, framkvæmd og tilhögun orkuskipta í landflutningum er enn sem komið er óljós. Borið saman við orkuskipti í flota fólksbifreiða verða orkuskipti í landflutningum mun flóknara úrlausnarefni m.a. vegna álitamála sem tengjast orkugjöfum, orkudreifingu, íslenskum aðstæðum og óvissu um tæknilausnir sem geta hentað hér á landi.
Áætlanagerð um fjárfestingar í rekstrarfjármunum taka m.a. mið af áætluðum rekstrarkostnaði. Því hefur flutningasviðið átt fundi með aðilum sem hafa staðið í undirbúningi rannsókna sem geta gagnast við undirbúning orkuskipta. Stjórnarráðið vann að undirbúningi lagafrumvarpa á síðasta ári sem snerta skipafélög með ýmsum hætti. Komu meðlimir flutningasviðsins o.fl. með virkum hætti að mótun afstöðu samtakanna þegar að þeim málum kom.
Hagsmunahópur bókhaldsstofa var stofnaður í júní 2020 og hefur frá þeim tíma unnið að skoðun á því hvernig megi marka bókhaldsstofum sérstöðu t.d. fyrir tilstilli viðurkenningu óháðs aðila. Átti stjórn hópsins fund með félagi bókhaldsstofa þar sem málefni var rætt.
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, hélt erindi á ráðstefnu félagsins þar sem hann gerði grein fyrir rannsókn sinni á faglegri viðurkenningu bókara víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Eyjaálfu. Að áeggjan hópsins stóðu SVÞ í samstarfi við KPMG ráðgjöf fyrir námskeiði fyrir meðlimi hagsmunahópsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þar sem þátttakendur fengu m.a. aðgang að fyrirmyndum skjala og verkferla.
Á síðasta ári fylgdi hópurinn eftir kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna viðskiptahindrana sem beinast að innflutningi pottaplantna og afskorinna blóma. Markaðsaðstæður minni blómaverslana eru afar erfiðar vegna afar hárra tolla af innflutningi og ríkar samþjöppunar á innlendum framleiðslumarkaði. Þá hefur markaðshegðun birgja reynst blómaverslunum erfið viðureignar en nær ógerningur reynist að vekja áhuga stjórnmálamanna á ástandinu.
Hópurinn leitar leiða til að stuðla að því að dregið verði úr markaðshindrunum og hefur skrifstofa SVÞ gætt þess að halda hagsmunum hópsins á lofti í samskiptum við opinbera aðila.
Undanfarið starfsár hefur hagsmunahópur fasteignafélaga einkum beint sjónum sínum að þremur málum.
Hinn 7. júlí 2021 tóku gildi breytingar á lögum um fjöleignarhús sem voru að hluta til byggðar á tillögum hagsmunahópsins. Á vettvangi hópsins hafði frá árinu 2020 starfað vinnuhópur lögfræðinga fasteignafélaga og lögfræðings SVÞ sem lagði upp lagabreytingartillögur í því skyni að auka sveigjanleika við ákvarðanatöku í blönduðum fjöleignarhúsum, þ.e. húsum sem bæði hýsa íbúðir og atvinnuhúsnæði.
Á grundvelli tillagnanna, og með aðkomu Húseigendafélagsins, var lögunum breytt í þá veru að nú geta eigendur blandaðra fjöleignarhúsa vikið ákvæðum laganna til hliðar með sérstökum samþykktum sem þinglýsa skal. Ættu breytingarnar að gera eigendum slíks húsnæðis mögulegt að takast betur á við aðstæður í blandaðri byggð.
Þá átti hópurinn samskipti við ríkisstofnanir og stjórnarráðið vegna fasteignaskatts og veitti umsagnir um þingmál er varða breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, m.a. vegna aðgerða í ljósi heimsfaraldurs. Að lokum átti hópurinn samskipti við Þjóðskrá og HMS vegna aðferða við fasteignamat.
Faglegri vinnubrögð við framkvæmd opinberra útboða er áfram aðal viðfangsefni þessa hagsmunahóps. Hér er um viðvarandi verkefni að ræða en svo virðist sem að ekki sé hægt að koma þessum málum endanlega í viðundandi horf, þar sem mannabreytingar í viðkomandi störfum hjá ríki og sveitarfélögum geta auðveldlega leitt til versnandi vinnubragða á þessu sviði. Sífellt er þörf á að benda á þá einföldu staðreynd að í þessu efni fara saman hagsmunir verkkaupa og verksala, þ.e. það er beggja hagur að vinnubrögð við framkvæmd opinberra útboða séu vönduð og fagleg.
Hópur um lausasölulyf átti ekki formlega fundi á síðasta starfsári en þrátt fyrir það unnu aðildarfyrirtæki innan hópsins að hagsmunamálum sínum með skrifstofu SVÞ.
Einkum var unnið að tveimur málum á árinu, annars vegar að eftirfylgni og ráðgjöf í tilefni af því að sala tiltekinna lausasölulyfja var heimiluð í almennum verslunum við setningu lyfjalaga, nr. 100/2020 og hins vegar hagsmunagæslu vegna áforma um lagabreytingar sem stefna að regluvæðingu svokallaðra nikótínvara, einkum nikótínpúða. Í kjölfar samskipta við skrifstofu SVÞ skilgreindi Lyfjastofnun þau lyf sem heimilt að selja í almennum verslunum og ákvarðaði jafnframt viðmið sem stofnunin nýtir við mat á hvort staðsetning almennrar verslunar uppfyllir skilyrði undanþágu frá þeirri meginreglu að lausasölulyf megi aðeins selja í lyfjaverslunum. Áform um lagabreytingar vegna nikótínvara hafa vakið töluverða athygli.
Innkaupahópurinn var lítt virkur á síðasta ári en þó má segja að starf sem unnið hefur verið á vettvangi hans undanfarin ár hafi komið SVÞ að góðu gagni.
Fyrir liggja reynslusögur aðildarfyrirtækja og hafa fulltrúar hópsins og skrifstafa SVÞ átt samskipti við Ríkiskaup í ljósi þeirra. Skrifstofa SVÞ átti fund með nýjum forstjóra Ríkiskaupa á síðasta ári og virðist starfsemi stofnunarinnar þegar bera merki nýrra áherslna.
Skrifstofa SVÞ veitti fjölmörgum aðildarfyrirtækjum ráðgjöf vegna opinberra innkaupa, bæði í aðdraganda innkaupa og eftir að samningur var gerður.
Reglulega koma upp álitamál sem snúa að túlkun samningsskilmála auk þess sem ríkt tilefni virðist oft og tíðum vakna til framlagningar fyrirspurna sem snerta grundvallaratriði laga um opinber innkaup í innkaupaferlum. Segja má að viðleitni gæti meðal sumra opinberra aðila til að líta fram hjá og jafnvel sniðganga meginreglur laganna í innkaupaferlum og reglur samninga- og kröfuréttar og eftir að samningur er kominn á. Tvímælalaust virðist tilefni til að veita aðhald þegar kemur að opinberum innkaupum.
Áherslumál hóps vátryggingamiðlara á starfsárinu hefur verið að bæta samskipti vátryggingamiðlara við erlend samstarfsfyrirtæki sín. Íslensk fyrirtæki í vátryggingamiðlun sinna einkum miðlun fyrir erlend fyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi hér á landi frá fjármálaeftirliti Seðlabankans. Einnig hafa eftirlitsgjöld vátryggingamiðlara verið til umræðu en í því efni hallar mjög á hin minni fyrirtæki í greininni. Þá hefur reynst erfitt fyrir fyrirtæki í þessari atvinnugrein að afla sér starfsábyrgðartryggingar hér á landi og því hefur verið brugðið á það ráð að leita eftir líkum tryggingum erlendis. Áfram hefur verið unnið að því á starfsárinu.
Formaður hópsins er Gísli Böðvarsson.
Lyfsöluhópur SVÞ hefur það meginhlutverk að gæta hagsmuna fyrir fyrirtæki á smásölumarkaði. Innan hópsins eru nær öll apótek sem hafa lyfsöluleyfi hér á landi. Með gildistöku lyfjalaga í ársbyrjun 2021 varð sú breyting á að verðlagning lyfja, bæði á smásölumarkaði og heildsölumarkaði, færðist frá Lyfjagreiðslunefnd til Lyfjastofnunar. Hámarksverð lyfja er sem kunnugt er háð opinberri ákvörðun. Á starfsárinu hefur mikil vinna verið lögð í að koma á framfæri við Lyfjastofnun og heilbrigðisráðuneyti þeim sjónarmiðum sem máli skipta apótekin máli við ákvörðun um nýja smásöluálagningu. Ekki er hægt að segja að sú vinna hafi skilað tilætluðum árangri. Umsóknum lyfsala um leiðréttingu á smásöluálagningu hefur hingað til ekki verið svarað efnislega og nú er svo komið að nær engin breyting hefur orðið í þeim efnum frá ársbyrjun 2019. Það skilningsleysi sem þessi afstaða endurspelgar á mikilvægi lyfjageirans fyrir heilbrigðiskerfið í landinu hefur valdið miklum vonbrigðum. Standa vonir til þess að það verði viðhorfsbreyting með nýrri ríkisstjórn og nýrri æðstu stjórn heilbrigðismála. Formaður hópsins er Skúli Skúlason.
Samtök heilbrigðisfyrirtækja (SH) eru eitt af undirfélögum SVÞ, en samtökin voru stofnuð árið 2009. Eins og mörg undanfarin ár hefur meginverkefni samtakanna á starfsárinu verið að fylgja eftir viðræðum sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands um gerð nýs þjónustusamnings, en sérfræðilæknar hafa nú verið samnigslausir við stofnunina frá ársbyrjun 2019. Engin breyting hefur orðið á afstöðu Sjúkratygginga á stafsárinu og ekki að merkja að neinn samningsvilji sé enn til staðar hjá stofnuninni. Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja var haldinn í maí og var gestur fundarins Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Í ávarpi ráðherra kom fram greinilegur vilji hans til að ljúka samningum við sérfræðilækna. Lýsti hann mikilvægi þess að meira samstarf væri við milli fjármálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um fjármögnun á einstökum þáttum heilbrigðiskerfisins. Eftir kynningu formanns á stöðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja spunnust miklar umræður og var greinilegt að ráðherra varð margs vísari um skipan mála innan heilbrigðiskerfisins á fundinum. Í aðdraganda alþingskosninga s.l. haust héldu SA, SVÞ og Samtök heilbrigðisfyrirtækja opinn fund þar sem kynnt var skýrsla sem samtökin höfðu unnið um heilbrigðiskerfið. Yfirskrift þeirrar skýrslu var „Heilbrigðiskerfið á krossgötum“ en útgangspunktur skýrslunnar var að sjúklingurinn ætti alltaf að vera í fyrsta sæti í skipulagi heibrigðiskerfisins. Fundurinn var mjög fjölsóttur m.a. af fjömörgum frambjóðendum til Alþingis. Formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja er Dagný Jónsdóttir
SVÞ sinnir skrifstofuhaldi og annast hagsmunagæslu fyrir Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) sem stofnuð voru árið 2005 en skólar innan SSSK gengu í SVÞ árið 2008. Nær allir sjálfstæðir leik- og grunnskólar landsins hafa gerst aðilar að samtökunum. Stjórn SSSK var þannig skipuð á starfsárinu: Alma Guðmundsóttir formaður og Sigríður Stephensen varaformaður, Jón Örn Valsson gjaldkeri. Meðstjórnendur voru: Atli Magnússon og Berglind Grétarsdóttir. Varamenn voru: Bóas Hallgrímsson og Íris Dögg Jóhannesdóttir. Tæpt verður á því helsta í starfsemi samtakanna hér á eftir.
Segja má að starfsárið hafi að miklu leyti borið þess merki að framundan er gerð nýrra samninga Reykjavíkurborgar, annars vegar við sjálfstæða leikskóla og hins vegar sjálfstæða grunnskóla.
Undirbúningur gerðar nýs samnings við sjálfstæða leikskóla hófst í byrjun árs 2021 og stóð fyrsti hluti viðræðna yfir fram að sumarleyfum. Borgin afhenti SSSK drög að nýjum samningi og var því svarað með eigin samningsdrögum SSSK sem að nokkru leyti grundvölluðust á dýpri skoðun á lagagrundvelli samningssambands sveitarfélaga og sjálfstæðra leikskóla. Upphaflega hafði verið stefnt að því að nýir samningar yrðu frágengnir haustið 2021 en það tókst þó ekki og því bauð skóla- og frístundasvið borgarinnar sjálfstæðum leikskólum upp á framlengingu gildandi samnings til júlí 2022. Frá þeim tíma hafa framlög til sjálfstæðra leikskóla og atriði þeim tengd einkum verið rædd í samskiptum SSSK og borgarinnar. Nokkurrar óvissu gætir um þessi atriði þar sem borgin vinnur á sama tíma að endurskoðun reiknilíkans vegna framlaganna. Markmið SSSK i viðræðunum er skýrt; að framlög borgarinnar til sjálfstæðra leikskóla tryggi sjálfbæran rekstur þeirra m.t.t. sérstöðu þeirra. Hefur húsnæðisframlag borgarinnar verið tekið til sérstakrar umræðu enda er það upplifun margra sjálfstæðra skóla að húsnæðiskostnaður vegi óeðlilega þungt í rekstrinum.
Fjárhagsleg samskipti sveitarfélaga og sjálfstæða grunnskóla hafa sætt mikilli umræðu innan SSSK að undanförnu. Hverfist umræðan um svokallaða Hagstofutölu en framlög sveitarfélaga til skólanna eru lögbundin og grundvallast á opinberu viðmiði, þ.e. stofni til útreiknings framlaga sem ætlað er að endurspegla rekstrarkostnað grunnskóla sveitarfélaganna. Illa hefur gengið að endurspegla þann rekstrarkostnað í starfsemi sjálfstæðra grunnskóla og hafa SSSK eytt miklu púðri í að átta sig á þeim upplýsingum sem Hagstofan byggir útreikninga sína á. Að undanförnu hafa tveir þættir einkum þótt geta skýrt misræmið, þ.e. tímatöf sem er innbyggð í útreikningsaðferðir og mögulega vsk-endurgreiðslur sem sveitafélög njóta. Slíkar endurgreiðslur ættu reyndar einnig að hafa áhrif á forsendur framlaga sjálfstæðra leikskóla og hefur skrifstofa SVÞ átt samskipti við stjórnvöld í því ljósi.
Hagsmunagæsla fyrir SSSK snýr mikið að samskiptum og samvinnu við ríki og sveitarfélög. Komu mörg álitamál til umfjöllunar á starfsárinu.
Unnið hefur verið að því allt starfsárið að ná fram skýringum á forsendum hagstofutölu, forsendu útreikninga á framlagi til grunnskólanna. Fundur með menntamálaráðherra sem ekki hefur skilað neinum upplýsingum. Á haustmánuðum var lögð fram fyrirspurn á Alþingi til mennta- og menningarmálaráðherra um forsendur útreikinga á Hagstofutölunni og er beðið formlegs svars.
Alþjóðlegt samstarf SSSK Eru aðili að The European Council of National Associations of Independent Schools, ECNAIS, www.ecnais.org. Vegna heimsfaraldrar hafa engir fundir eða ráðstefnur verið sótt á árinu. Félagsstarf SSSK Lítið fór fyrir félagsstarfi á starfsárinu vegna heimsfaraldrar, ráðstefnu sem og degi skólastjórnanda var frestað. Af sömu ástæðu var hætt við jólafagnað. Um leið og fór að létta á samkomutakmörkunum var farið í að halda námskeið og fá skólastjórnendur saman. Haldið var námskeið fyrir skólastjórnendur um kulnun á vegum Gott og Gilt 24. febrúar í Húsi atvinnulífsins. Vorum einnig með annað námskeið fyrir skólastjórnendur á vegum lögfræðinga SA um vinnurétt 4. Mars. Verið að vinna í skipuleggja annað námskeið um jafnlaunavottun á vormánuðum. Aðalfundur SSSK 2021 Auka-aðalfundur var haldin 1. september 2021 á Teams. Vegna breytinga á högum Ragnhildar Ásgeirsdóttur formanns og Katrínar Dóru Þorsteinsdóttur, þar sem þær hafa báðar látið af störfum fyrir Hjallastefnuna var lögð fram tillaga að nýjum formanni. Alma Guðmundsdóttir var kosin formaður stjórnar SSSK en hún er SSSK að góðu kunn og hefur verið i stjórn undanfarin ár. Í stað Katrínar Dóru mun Bóas Hallgrímsson taka hennar sæti í stjórn SSSK. Aðalfundur SSSK 2022 Aðalfundur SSSK verður haldin 28. apríl 2022 í Húsi atvinnulífsins.
Eftirfarandi féll niður vegna heimsfaraldrar: · Dagur skólastjórans · Félagsfundir · Ráðstefna SSSK
Á síðasta ári fengust samtökin við tvö meginverkefni sem bæði snerta samkeppnisstöðu ökuskóla. Ríkrar tilhneigingar gætir af hálfu stjórnvalda til að tryggja Vinnueftirlitinu verkefni sem ökuskólar annast þegar að menntun til réttinda til að stjórna vinnuvélum kemur. Birt voru drög að nýrri reglugerð um málaflokkinn í sumarbyrjun 2021 sem innihéldu tillögur í þá átt. Virðist sem Vinnueftirlitið sitji fast í tekjuöflunarmódeli sem gerir stjórnvöldum ekki fært að nútímavæða starfsemi stofnunarinnar. Þurftu SVÞ að beita sér verulega vegna reglugerðardraganna og hefur afurðin ekki litið dagsins ljós. Að öðru leyti hafa ökuskólar staðið frammi fyrir óheilbrigðum samkeppnisaðstæðum af öðrum ástæðum. Á vettvangi samtakanna er leitað leiða til að bæta stöðuna.
Öryggishópur SVÞ
Það hefur verið hlutverk öryggishóps SVÞ að vinna að því að bæta viðbrögð lögreglu við þjófnuðum og annarri brotastarfsemi í verslunum.
Á starfsárinu áttu fulltrúar hópsins fund með Ríkislögreglustjóra og fulltrúum frá embættinu í því skyni að bæta samskiptamátann við lögregluna að þessu leyti. Verkefnið snýst að mestu leyti um hvort verslunum sé heimilt að safna saman upplýsingum af meintum brotamönnum, m.a. í formi myndefnis, og senda svo áfram með rafrænum hætti inn á miðlægan grunn sem lögreglan ein hefur aðgang að. Persónuvernd virðist geta samþykkt slíkt fyrir sitt leyti. Vonir standa til að nú fari loks að koma hreyfing á þessi mál sem hafa verið allt of lengi í undrbúningi.
SVÞ hefur síðustu ár lagt mikla áherslu á að styðja íslensk fyrirtæki í þessari stóru vegferð sem stafræn umbreyting er. Stafræn tækni er grunnurinn að lausnum að svo mörgum stórum áskorunum sem við stöndum frammi fyrir svo sem í umhverfismálum, heilbrigðismálum, sókn á alþjóðamarkaði og nýsköpun. Nýting stafrænnar tækni er lykilinn að verðmætasköpun og fjölgun starfa.
Innan SVÞ starfar faghópurinn -Stafræn viðskipti á Íslandi - sem gætir hagsmuna félagsmanna tengt öllu sem varðar stafræn mál og þróun (e. digital transformation). Á aðalfundi faghópsins, sem haldinn var 17. desember, var kjörinn nýr stjórnarformaður - Guðmundur Arnar Þórðarson. Aðrir stjórnarmeðlimir eru:
Hópurinn hefur komið saman reglulega síðasta árið og hefur starfið gengið vel. Það var vinnufundur haldinn 29. janúar þar sem farið var yfir hverjar eiga að vera helstu áherslur stafræna hópsins þetta árið. Mörg verkefni eru framundan.
Á meðal málefna hópsins fyrir síðasta ár voru eftirfarandi: * Komið á fót stafræna hæfnisklasanum í samstarfi við VR og HR -> https://stafraent.is Í dag vinnur SVÞ náið með VR og Háskólanum í Reykjavík að aðgerðum til að efla íslenska stjórnendur og starfsfólks á vinnumarkaði þegar kemur að vitund og skilningi á stafrænni þróun og eflingu stafrænnar hæfni.
Samanburður á stöðu stafrænna mála á Íslandi og norðurlöndum.
Frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum eru undantekningarlaust í topp 10 sætunum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Síðastliðin ár hefur SVÞ unnið ötullega að eflingu fyrirtækja sinna á sviði stafrænnar umbreytingar. Þetta hefur verið gert m.a. með öflugri fræðsludagskrá en ekki síður með því að fylgjast með því sem verið er að gera á þessu sviði í samanburðarlöndunum og að koma á samtali og samvinnu við hagsmunaaðila hérlendis. Með þessu samtali viljum við læra af frændþjóðum okkar, bæði hvað vel hefur verið gert og einnig annað sem þarf að varast. Það sem er sameiginlegt hjá þeim öllum er mikilvægi stuðnings stjórnvalda við atvinnulífið varðandi stafræna umbreytingu.
Stjórnvöld kvött til dáða með hvatningu til stefnumótunar og aðgerða í stafrænum málum. SVÞ og VR sendu hvatningu og tillögur til stjórnvalda um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. Heimsfaraldur COVID-19 hefur hraðað stafrænni þróun gríðarlega og ýtir enn frekar undir það bil sem þegar var farið að myndast meðal þeirra sem hafa og ekki hafa stafræna hæfni, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Einnig hafa fjölmargir aðilar, á borð við OECD, World Economic Forum og Sameinuðu þjóðirnar, lýst því yfir að faraldurinn hafi aukið enn á mikilvægi þess að brúa hið stafræna bil og að stafræn þróun muni leika lykilhlutverk við að koma efnahagskerfum heimsins úr kórónuveirukreppunni.
Netverslunarrannsóknir voru settar af stað og unnið að því að stoppa í göt mælinga á íslenskri verslun. Á síðasta ári ákvað SVÞ í samvinnu við Rannsóknarsetur verslunarinnar að setja á laggirnar markvissar og reglulegar mælingar á kauphegðun Íslendinga þegar kemur að verslun á netinu. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sér um framkvæmd rannsóknar á Netverslunarpúlsinum hér á Íslandi þar sem 200 svörum einstaklinga á aldrinum 18 ára og eldri er safnað í hverjum mánuði. Mælitækið er m.a. byggt á e-barometern (sænsk mæling á netverslun) og FDIH (dönsk mæling á netverslun) sem hefur nú þegar sannað gildið sitt á Norðurlöndunum. Með aðgang að gögnum um „Netverslun Íslendinga“ geta íslenskar verslanir fengið aðgang að ítarlegum gögnum um hegðunarmunstur Íslendinga. - sjá einnig umfjöllun um Netverslunarpúlsinn hér -
Rannsóknin hjálpar m.a. að greina eftirfarandi:
Hið nýja mælaborð kemur til með að gefa verðmæta innsýn inní framtíðar áætlanagerðir íslenskra vefverslana.