Það er lögbundið verkefni SVÞ að tilnefna fulltrúa í stjórn Úrvinnslusjóðs. Að fenginni tilnefningu samtakanna skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra aðalmann í stjórninni í upphafi árs 2019. Á starfsárinu tók Berglind Rós Guðmundsdóttir, ELKO/Festi hf., sæti varamanns í stjórn sjóðsins í stað Kristínar Elfu Axelsdóttur, ELKO/Festi hf.
Síðasta starfsár var annasamur tími hjá starfsfólki og stjórn Úrvinnslusjóðs. Síðasta vor samþykkti Alþingi lagabreytingar til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu o.fl. sem að mestu munu taka gildi um áramótin 2022/2023. Í meginatriðum er um innleiðingu Evróputilskipana að ræða. Samfara gildistökunni rýmkar ábyrgð innflytjenda og framleiðenda vara á úrgangi vegna þeirra umtalsvert og t.a.m. munu þeir þurfa að standa undir kostnaði við sérstaka söfnun úrgangs við heimili, í grenndargáma o.fl. Hin aukna ábyrgð mun koma fram í víðtækara vörusviði úrvinnslugjalds og gjaldhækkunum.
Fulltrúar SVÞ í stjórn Úrvinnslusjóðs koma að ákvarðanatöku um þær vörur sem gjaldið leggst á og gjaldfjárhæð. Undirbúningur breytinganna hefur staðið yfir á vettvangi sjóðsins og er verkefnið ærið. Þar að auki hefur mætt mikið á Úrvinnslusjóði og stjórn hans vegna fréttaflutnings sem m.a. hefur snúið að staðfestingu stjórnar á ársreikningum og íslensks plastúrgangs sem fannst í vöruskemmu í Påryd í Svíþjóð.
Síðasta haust staðfesti stjórn sjóðsins útistandandi ársreikninga eftir að samkomulag náðist milli stjórnarinnar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um fjármál sjóðsins sem komust í töluvert uppnám í kjölfar gildistöku laga um opinber fjármál. Plastmálið í Svíþjóð skýrðist töluvert eftir síðustu áramót í kjölfar þess að íslensk sendinefnd skoðaði aðstæður og fundaði með sænskum aðilum.
Samkvæmt ákvörðun Alþingis sætir Úrvinnslusjóður stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og hafa fulltrúar SVÞ í stjórn sjóðsins veitt atbeina vegna hennar. Er þess vænst að draga megi lærdóm af niðurstöðum úttektarinnar sem ætti að liggja fyrir á vormánuðum.
Hinn 14. janúar 2021 undirrituðu stjórnir Bílgreinasambandsins og SVÞ samstarfsyfirlýsingu með það markmið að leiðarljósi að efla þjónustu við félagsmenn í samskiptum við stjórnvöld, í lögfræðilegum álitamálum og í fræðslu- og menntunarmálum ásamt því að styrkja rekstur samtakanna. Frá þeim tíma hafa starfsmenn skrifstofu SVÞ veitt Bílgreinasambandinu ráðgjöf auk þess sem samtökin hafa unnið sameiginlega að hagsmunamálum bílgreinarinnar, m.a. á vettvangi Alþingis. Hefur reynslan af samstarfinu í senn verið jákvæð og leitt fram víðtæk samlegðaráhrif. Sýnt þykir að unnt sé að ná fram verulegum samlegðaráhrifum með nánara samstarfi og því ákváðu stjórnir samtakanna að leggja fram tillögu þess efnis á aðalfundum samtakanna að þau yrðu sameinuð undir hatti SVÞ en að á þeim vettvangi yrði þó jafnframt gætt að sérstöðu BGS innan SVÞ.
Sameiningartillagan hefur þegar verið samþykkt á vettvangi Bílgreinasambandsins og býður hún nú meðferðar aðalfundar SVÞ. Fari svo mun Bílgreinasambandið verða að starfsgreinafélag innan SVÞ og skrifstofa SVÞ taka við málefnastarfi fyrir aðildarfyrirtæki sambandsins. Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins verður starfsmaður skrifstofu SVÞ og mun hann einkum beina kröftum sínum að málefnum bílgreinarinnar.
Aðildarfyrirtæki Bílgreinasambandsins munu við sameininguna verða aðildarfyrirtæki SVÞ og Samtaka atvinnulífsins.