Menntamál hafa verið áberandi á vettvangi stjórnar SVÞ á starfsárinu enda er sá málaflokkur að verða sífellt mikilvægari í öllu starfi hagsmunaaðila fyrir atvinnulífið.
Námsbraut á fagháskólastigi í verslun og þjónustu hefur fest sig í sessi en námsbrautin er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst.
Námið er diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er starfstengt fagháskólanám fyrir verslunarstjóra og einstaklinga með víðtæka reynslu af verslunarstörfum. Styrkur námsins liggur bæði í virku samstarfi við atvinnulífið og í samstarfi tveggja háskóla um þróun þess og kennslu. Námið er metið til eininga í áframhaldandi námi í viðskiptafræði til BS gráðu, bæði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Nemendur sem útskrifast með diplómagráðu í verslunarstjórnun munu því geta haldið áfram námi til BS gráðu í viðskiptafræði kjósi þeir það.
Námið, sem er 60 ECTS einingar, tekur mið af ofangreindum starfsþáttum. Það er kennt með vinnu og tekur tvö ár í dreifnámi. Námið byggir að hluta á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræðum við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga og með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni.
Um 20 nemendur hafa útskrifast og um 20 % þeirra hafa haldið áfram í BS nám.
Stafræn viðskiptalína er ný námslína á framhaldsskólastigi við Verslunarskóla Íslands sem hóf göngu sína haustið 2019. Unnið hefur verið að skipulagi námsins undanfarin tvö ár að frumkvæði SVÞ í samstarfi við Verslunarskólann, VR og Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks. Sérstaða námslínunnar er mikil þar sem í fyrsta skipti er boðið upp á vinnustaðanám sem hluta af námi til stúdentsprófs. Vinnustaðanámið er afmarkað við fyrirtæki sem sérhæfa sig í stafrænum lausnum eins og t.d. vefverslanir. Tækninni fleygir fram og krafan um aukna menntun í verslun og þjónustu fer vaxandi samhliða þeirri stafrænu þróun sem er að verða í atvinnugreininni.
4 fyrirtæki eru samstarfsaðilar í dag. Það er einn bekkur á hverju aldursári á stafrænu viðskiptalínunni, alls 3 bekkir með ca. 25 nemendum í hverjum bekk. Fyrsti hópurinn útskrifaðist í fyrra. þ.e. 25 manns. Mikil áhugi er á náminu á meðal nemenda. Stafræna viðskiptalínan er frábær viðbót við viðskiptabraut Verslunarskólans. Einstakt að nemendum gefist kostur á starfsnámi á lokaári sínu.
Fagnámi verslunarinnar er nám á framhaldsskólastigi ætlað starfsfólki í verslun sem einnig er hýst í Verslunarskóla Íslands. Námið er 90 einingar og er blanda af fjarnámi og vinnustaðanámi í fyrirtækjunum. Umsækjendum stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum. Þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga og styttingar á námi sínu. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlun
Frá upphafi hafa 87 nemendur innritast í námið, 60 af þeim eru virkir í náminu í lok árs 2022 og 17 hafa útskrifast með fagbréf í fórum sínum og þar af 15 frá Samkaupum. Sumir nemendanna halda svo áfram og ljúka stúdentsprófi samhliða fagnáminu og það eru 5 nemendur sem hafa lokið studentsprófi.
Þau fyrirtæki sem eru sem eru aðilar að þessu verkefni í dag eru Samkaup, Brimborg, Byko, Festi, Húsasmiðjan, Lyfja, Rönning, Nova og Dominos. Ný fyrirtæki eru velkomin og geta þá bæst við næsta haust.
Fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins geta nú sótt um í marga fræðslu- og starfsmenntasjóði með einni umsókn. Umsóknarferlið er einfalt í notkun og býður upp á þann valmöguleika að tengja eina umsókn við marga sjóði fyrir þau fyrirtæki þar sem starfsmannahópurinn er fjölbreyttur og greitt er af í mismunandi stéttarfélög.
Sjóðirnir sem standa að Áttinni eru IÐAN fræðslusetur, Landsmennt, Menntasjóður STF, Rafmennt, Starfsafl, Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks og Starfsmenntasjóður verslunarinnar og Sjómennt.
Ætla má að sjóðirnir nái til um 110-120 þúsund starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum eða um 75-80% starfsmanna á þeim vinnumarkaði.
Aðkoma samtakanna að fræðslu- og menntamálum hefur verið með margs konar hætti, m.a. með þátttöku fulltrúa í ráðum sem hafa með fræðslu- og menntamál að gera og með stuðningi við verkefni á sviði mennta- og fræðslumála. Verkefnin eru fjölbreytt og má þar nefna eftirfarandi:
Stýrihópur um tvær námsbrautir á framhaldsskólastigi sem er unnin í samstarfi við Verslunarskóla Íslands.
Þróunarhópur um nýja námsbraut við Verslunarskóla Íslands, Stafræn viðskiptabraut sem fór af stað haustið 2019.
Kennaraþing 1. nóvember.
Óskað var eftir tilnefningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um þáttöku í undirbúningshóp um leikskólastigið.
Starfsgreinaráð verslunar- og skrifstofufólks en það sinnir fjölmörgum verkefnum er snúa að menntun og fræðslu fyrir skrifstofu- og verslunargreinar.
Starfsgreinaráð fyrir samgöngu-, farartækja- og flutningagreinar. Þar er unnið víðtækt starf er snýr að menntun og fræðslumálum.
Menntanefndin sameinast um ýmis verkefni á sviði mennta-, fræðslu- og mannauðsmála og má þar nefna röð morgunverðarfunda um menntun og mannauð.
Menntadagur atvinnulífsins er haldinn árlega og ber menntanefndin ábyrgð á honum, heldur utan um skipulag og framkvæmd.
Menntadagur atvinnulífsins 2023 var haldinn í tíunda skipti í Hörpu 14. febrúar.
Fundurinn í ár bar yfirskriftina Færniþörf á vinnumarkaði. Á fundinum var kynnt greining á eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar í því augnamiði að skilgreina hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar svo vinnuaflsskortur, hvort sem um er að ræða hæfni og færni eða einfaldlega í fjölda vinnandi handa, verði ekki til þess að vöxtur í atvinnu- og og efnahagslífi verði minni en ella hefði orðið.
Aðgerðir í mennta- og fræðslumálum er varða námsframboð, breytingar varðandi dvalar- og atvinnuleyfi erlends starfsfólks og öðru sem aukið gæti sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði gagnast best ef ákvörðunin er byggð á áreiðanlegum gögnum. Marktæk spá um færniþörf er þar lykilatriði.