Kjaramál voru reglulega á dagskrá á vettvangi samtakanna á starfsárinu. Lífkjarasamningurinn sem gerður var 2019 gilti til októberloka 2022 og voru kjarasamningar því lausir frá og með þeim tíma. Almennt var gert ráð fyrir kjarasamningum til skemmri tíma á meðan náð væri tökum á verðbólgu sem ekki hvað síst orsakast af stríðsátökum í Evrópu og eftirmálum heimsfaraldurs. Þegar slík óvissa væri í heimshagkerfinu væri óraunhæft að stefna að langtíma kjarasamningum. Eftir langar og strangar samningavíðræður vor svo undirritaðir kjarasamningar við stærstu verkalýðsfélögin, fyrir utan Eflingu, og voru þeir samþykktir af báðum samningsaðilum skömmu fyrir jól. Á meðan samningaviðræður stóðu yfir var stjórn SVÞ reglulega upplýst um framgang mála og gegndi formaður samtakanna lykilhlutverki við að miðla upplýsingum frá framkvæmdastjórn SA til stjórnar SVÞ.
Efling, stóð utan samflotsins með öðrum SGS félögum, og var þetta annað stærsta verkalýðsfélag landsins því ekki aðili að kjarasamningnum sem undirritaður var í desember. Eftir árangurslausar samningaviðræður boðaði félagið síðan til verfalls, fyrst hjá þröngum hópi félagsmanna. Verkfall hjá olíubílstjórum og hótelþernum hófst fyrst og sáu menn fram á erfiða stöðu sem vart yrði leyst nema með aðkomu stjórnvalda. Eftir að stjórn SA ákvað síðan að boða verkbann á alla Eflingarfélaga komust hlutirnir á hreyfingu sem endaði með því að settur ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu, sem samþykkt var með miklum meirihluta beggja samningsaðila. Þar með er búið að undirrita kjarasamninga við nær allan almenna markaðinn sem gilda til janúarloka 2023.
Forgangsröðun verkefna í kjölfar stefnumótunarvinnu SVÞ sem fram fór vorið 2022 var sú að mikilvægustu þættirnir teldust: Fræðslu- og kynningarstarf, efling tengslanets meðal félagsfólks og efling faghópa.
Ákveðið var að innra starf SVÞ muni beinast að framangreindum þáttum. Stjórn ræddi um skipulag fræðslu- og kynningarstarfs. Fram kom að eðlilegt væri að það ætti sér stað bæði í formi fjarfunda og staðfunda, enda fólk almennt orðið vant því að mikill hluti funda fari fram um fjarfundarbúnað.
Rætt var um eftirfylgni með fræðsluatburðum og mikilvægi mælingar árangurs þeirra. Haustið 2022 yrði sérstök áhersla lögð á sjálfbærnimál og fræðslu þeim viðkomandi. Var jafnframt ákveðið að heimsækja aðildarfyrirtæki í ríkari mæli. Hefur þessari stefnumótun verið fylgt eftir og verður ekki annað séð en að það hafi mæst vel fyrir meðal aðildarfyrirtækja samtakanna.
Tímamótaskýrsla sem alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið McKinsey vann fyrir EuroCommerce var kynnt fyrir stjórn SVÞ síðsumars. Skýrslan ber heitið „Triple Transformation of the EU Retail & Wholesale Sector“
Efni skýrslunnar fjallar um þrjár helstu áskoranir smásölu- og heildverslunar til framtíðar, þ.e. stafræn umbreyting, sjálfbærni og hæfni og menntun starfsfólks.
Við umræðu um málið var m.a. var vakin athygli á að gögn skorti um íslenska verslun og hve erfitt getur reynst að ráðast í umbreytingar í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Rætt var hvernig styrkja mætti Rannsóknarsetur verslunarinnar og Stafræna hæfniklasann í samstarfi við VR og stjórnvöld. Niðurstaðan var sú að þessi þrjú málefni hafa verið þungamiðjan í innra starfi samtakanna þetta starfsár og nær sú umfjöllun hámarki á ráðstefnu samtakanna 16. mars 2023.
Eitt af megin viðfangsefnum SVÞ þessi misserin hjá SVÞ er að aðstoða fyrirtæki innan samtakanna við stafræna umbreytingu í rekstri sínum. Í því skyni stóðu samtökin, ásamt með VR og Háskólanum í Reykjavík að stofnun Stafræna hæfniklasans seinni hluta árs 2021.
Markmið og áherslur Stafræna hæfniklasanum er að auka vitundarvakningu íslenskra fyrirtækja um mikilvægi þess að huga að stafrænni umbreytingu. Á vettvangi klasans verði fyrirtæki hvött til að gefa stafrænum málum aukið rými í daglegu starfi, auk þess að stuðla að eflingu stafrænnar hæfni og þjálfun starfsmanna svo þau geti með öryggi og vilja verið þátttakendur í þessari vegferð.
Með Stafræna hæfniklasanum verði til samfélag þar sem fyrirtæki og starfsfólk getur leitað til í sinni stafrænu vegferð, hvort sem það er til að fá ráðgjöf, hlusta á raunsögur eða efla sína stafræna hæfni hjá sjálfum sér eða öðrum. Mikilvægt er að til sé óháður vettvangur þar sem hægt er að leita jafningjafræðslu, fá aðstoð og ábendingar í stafrænni vegferð.
Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) sem stofnað var árið 2002, m.a. af SVÞ, VR og með fjárhagslegri aðkomu stjórnvalda. Setrið annast rannsóknir og tölfræðiúrvinnslu fyrir verslun á Íslandi í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni verslunarfyrirtækja. Rannsóknasetrið gegnir lykilhlutverki sem upplýsingaveita um vísitölur og aðra tölfræði sem stjórnendur í verslun og þjónustu þurfa á að halda í ákvarðanatöku í daglegri stjórnun og vegna stefnumótunar til lengri tíma. Markmið RSV er að hafa allar upplýsingar er varða verslun og þjónustu í landinu aðgengilegar á einum stað. Að mati stjórnar SVÞ hefur starfsemi setursins aukist að gæðum undanfarin ár og má það ekki hvað síst rekja til öflugrar stjórnar og forstöðumanns yfir setrinu.
Innrás Rússlands inn í Úkraínu og viðskiptaþvinganir gagnvart þeim og Hvíta- Rússlandi sem fylgdu í kjölfarið voru nokkuð ræddar, en Ísland tók ásamt öðrum ríkjum í Vestur- Evrópu þátt í viðskiptabanni á Rússland og Hvíta- Rússlandi. Einkum voru það áhrif stríðsins á inn- og útflutning á varningi til og frá þessum löndum sem ollu áhyggjum.
Að því er varðar innflutning voru það áhyggjur af mögulegum hráefnisskorti fyrir framleiðslu á byggingarefni og matvælum sem fylgst var náið með. Í nánu samstarfi við stjórnvöld, einkum viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tókst að greiða úr þeim málum sem helst voru aðkallandi.
Áhrif stríðsins á heimsmarkaðsverð á margs konar hráefnismarkað var mikið rædd, en áhrifin birtust ekki hvað síst hér á landi í „innfluttri verðbólgu“ svo vitnað sé í lýsingu Seðlabanka Íslands á áhrifunum.
Sameining Bílgreinasambandsins og SVÞ kom til framkvæmda á öðrum ársfjórðungi 2022 eftir að hafa verið samþykkt af aðalfundum beggja samtakanna. Það er samdóma álit innan stjórnar SVÞ að sameining þessi hafi verið heillaskref og efli samtökin bæði í hagsmunabaráttunni.
Skrifstofur samtakanna hafa nú sameinast á 2. hæð í Borgartúni 25.
Áform eru um að stækka skrifstofurými SVÞ á 2. hæð Borgartúns 35 og nýta það sem fundarherbergi fyrir samtökin.
Verðmat á þeim hluta liggur fyrir en núverandi eigandi húsnæðisins er vinnudeilusjóður SA. Vonir standa til að unnt sé að ganga frá þessum kaupum sem fyrst þannig að endurnýjun húsnæðisins geti hafist. Þegar þetta verður frágengið er skrifstofuhúsnæði samtakanna komið í það horf sem duga á um fyrirsjáanlega framtíð.
Fylgst var náið með þróun á verðmæti verðbréfasafns SVÞ á starfsárinu, og í mun meira mæli en mörg undangengin ár.
Ástæðan var að hækkandi stýrivextir og hækkun verðbólgu umfram spár gerðu ráð frá upphafi árs haft neikvæð áhrif á helstu eignaflokka í eignasafninu. Í því samhengi var m.a. rætt var um innlend hlutabréf og hvort skynsamlegt væri að kaupa hlutabréf í einstökum félögum á markaði, en fram kom að núverandi fjárfestingarstefna SVÞ heimili ekki fjárfestingar í stökum hlutabréfum í einstökum hlutafélögum. Einnig var rætt hvort skynsamlegt hefði verið að minnka eignastöðu í innlendum hlutabréfum og auka í öðrum tegundum verðbréfa.