Drifkraftur innra starfs SVÞ!
Öflugt faghópastarf er drifkraftur innra starfs SVÞ
Smelltu á nafn hópsins til að fræðast meira um starfsemi hans
Bílgreinasambandið
Faggildingarhópur
Flutningasvið SVÞ
Hagsmunahópur bókhaldsstofa
Hagsmunahópur blómaverslana
Hagsmunahópur fasteignafélaga
Hagsmunahópur hreingerningafyrirtækja
Hópur um lausasölulyf
Hópur um opinber innkaup
Hópur vátryggingamiðlara
Lyfsöluhópur
Samtök heilbrigðisfyrirtækja
Samtök sjálfstæðra skóla
Samtök ökuskóla
Stafræn viðskipti á Íslandi
Öryggishópur
Þann 1. apríl síðastliðinn varð sameining Bílgreinasambandsins og SVÞ að veruleika í kjölfar góðrar reynslu af samvinnu beggja samtakanna árið á undan. Reynslan af samstarfinu reyndist það góð að stjórnir beggja samtaka ákváðu í upphafi árs 2022 að stefnt skyldi að sameiningu. Voru tillögur samþykktar af stjórnum beggja samtaka, jafnframt því sem tillögur að nauðsynlegum breytingum á samþykktum voru samþykktar. Á aukaaðalfundi Bílgreinasambandsins, sem haldinn var í febrúar 2022, samþykktu félagsmenn samrunan samhljóða. Í kjölfarið var tillagan borin upp á aðalfundi SVÞ í mars þar sem hún var samþykkt.
Með sameiningunni varð Bílgreinasambandið sérgreinafélag innan SVÞ og skrifstofa SVÞ tók við málefnastarfi fyrir aðildafélög sambandsins. Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins varð starfsmaður skrifstofu SVÞ en mun hann einungis beina kröftum sínum áfram að málefnum bílgreinarinnar rétt eins og hefur verið frá stofnum Bílgreinasambandsins árið 1970. Við þennan samruna urðu aðildarfyrirtæki Bílgreinasambandsins aðildafyrirtæki SVÞ og Samtaka atvinnulífsins (SA). Nú ári eftir sameiningu er það einróma álit stjórnar Bílgreinasambandsins að þetta skref var gæfu skref fyrir aðildafyrirtæki Bílgreinasambandsins.
Fjöldi skráðra fyrirtækja í bílgreinum heldur áfram að fjölga ár frá ári. Í lok árs 2022 voru skráð á landinu 1125 fyrirtæki samkvæmt Hagstofu Íslands og er það aukning um 3,8% milli ára. Á 10 árum hefur aukning á fyrirtækjum starfandi í þessari iðngrein fjölgað um 36,4%.
Fjöldi fyrirtækja innan Bílgreinasambandsins eru 104 talsins. Á vegum Bílgreinasambandsins eru verkefni unnin sem stuðla að bættum gæðum og rekstrarumhverfi félagsmanna. Bílgreinasambandið hefur beitt sér fyrir aukinni þekkingu innan bílgreinarinnar, eflingu faglegra vinnubragða og að tryggja að viðhafðir séu réttmætir viðskiptahættir. Þróun innan bílgreinarinnar eru áfram á gríðarhraða þar sem orkuskipti og fullkomnari samskiptatækni milli bifreiðar og umhverfis hafa rutt sér til rúms. Á sama tíma aukast kröfur viðskiptavina til skjótra úrlausna, þekkingar og faglegrar framkomu okkar sem störfum í bílgreininni. Því er mikilvægt fyrir grein sem er að þróast þetta hratt að fylgjast vel með þáttum eins og stafrænni umbreytingu og þróun í færniþörf á vinnumarkaði. Hefur Bílgreinasambandið lagt metnað sinn í að efla menntun og styðja við skóla og forsvarsmenn þeirra en skyldur fyrirtækjanna í bilgreininni eru ekki minni. Fyrirtæki verða að sinna endurmenntun starfsmanna sinna vel, en endurmenntun er mikilvægur þáttur í því ört breytilega umhverfi sem bílgreinin er. En ekki er einungis breyting hröð á ökutækjunum heldur er einnig kynjahlutfall þeirra sem mennta sig í bílgreinum. Er því mikilvægt að markaðurinn undirbúi sig einnig fyrir þá fjölbreyttu flóru sem mun starfa í bílgreininni í framtíðinni.
Bílgreinasambandið lætur taka til sín á fjölbreyttum vettvangi greinarinnar. Starfsfólk og félagsmenn taka virkan þátt í starfsemi ýmissa samtaka og atvinnulífinu almennt með margvíslegum hætti. Svo sem með stjórnarsetu, nefndarsetu og setu í vinnuhópum, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Bílgreinasambandið eru hluti af CECRA, „European Council for Motor Trades and Repairs“ sem eru regnhlífasamtök fyrir landsamtök bílgreina í Evrópu. Bílgreinasambandið hefur í mörg ár átt í góðum samskiptum við ACEA og sér Bílgreinasambandið m.a. um að útvega gögn frá Íslandi inn í skýrslur og tölfræði ACEA með reglubundnum hætti.
Framkvæmdastóri Bílgreinasambandsins er formaður stjórnar Grænnar Orku sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti, stofnaður árið 2010 af iðnaðarráðherra. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að hefja markvissa stefnumótun um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Þá er framkvæmdastjórinn einnig formaður stjórnar Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV).
Bílgreinasambandið er með setu í Starfsgreinaráði faratækja- og flutningsgreina ásamt því að það stóð á sínum tíma fyrir stofnun faghóps Borgarholtsskóla með það að markmiði að tengja skólann betur við atvinnulífið. Þá er Bílgreinasambandið einnig einn af stofnaðilum Verkiðnar en markmið samtakanna er að auka sýnileika og bæta ímynd iðn- og starfsmenntunar. Bílgreinasambandið ásamt Félagi iðn- og tæknigreina (FIT) stofnaði Bílmennt árið 2000 sem tók yfir endurmenntun í bílgreinum sem síðar rann inn í Iðuna fræðslusetur.
Bílgreinasambandið gerir miklar kröfur til sinna félagsmanna enda á það að vera leiðarljós okkar sem störfum í bílgreininni að gera enn betur í þjónustu við okkar viðskiptavini og hafa það að metnaði að þróa vinnustaði okkar til hins betra. Það er okkur samt ljóst að í viðskiptum milli tveggja aðila getur komið upp ágreiningur. Með oft eins tæknilega flókna vöru og þjónustu sem fyrirtæki innan Bílgreinasambandsins eru að þjónusta er mikilvægt að sérfræðingar á sviði bílgreina geti skorið úr málum og því stofnuðu Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda saman Úrskurðanefnd bílgreina. Tekur sú nefnd til meðferðar og úrskurðar hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru/þjónustu af fyrirtækjum innan Bílgreinasambandsins.
Framundan eru spennandi tímar þar sem sjálfbærni mun vera eitt af stóru verkefnum fyrirtækja í bílgreinum eins og öðrum fyrirtækjum í landinu. Nýting einkabílsins mun aukast með tilkomu gervigreindar og deilikerfis. Nýir orkugjafar og betri og umhverfisvænni nýting þeirra sem fyrir eru hefur dregið stórlega úr eldsneytisnotkun og mengun. Aðbúnaður og allt efni sem unnið er með í kringum ökutæki í dag er sífellt að verða umhverfisvænna. Allt þetta gerir bílinn að áhugaverðum kosti í samgöngum bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki ásamt því að lykilgreinar þjóðfélagsins reiða sig á bílinn, svo sem ferðamennskan, framleiðsla, verslun og þjónusta.
Stjórn Bílgreinasambandsins er skipuð skipa Áskell Þór Gíslason frá Höldur, Berglind Bergþjórsdóttir frá Öskju, Bjarni Benediktsson frá Víkurvögnum, Egill Jóhannsson frá Brimborg, Einar Sigurðarson frá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur og Heiðar Sveinsson frá BL.
Hagsmunahópur faggiltra fyrirtækja innan SVÞ fundaði að venju reglulega á starfsárinu. Faggildingarhópurinn og SVÞ eiga sinn fulltrúann hvor í faggildingarráði sem hefur það hlutverk að gera tillögur að stefnumótun um starfsemi faggildingar, veita faggildingarsviði Hugverkastofu faglega ráðgjöf um málefni faggildingar og vera menningar- og viðskiptaráðuneytinu og faggildingarsviði Einkaleyfastofu til ráðgjafar og aðstoðar við undirbúning að jafningjamati á grundvelli reglugerðar (ESB) nr. 765/2008. Málefni á dagskrá faggildingaráðs voru tekin fyrir á vettvangi hópsins með reglulegum hætti.
Á starfsárinu beitti faggildingarhópurinn sér fyrir því að gerð nýrrar skoðunarhandbókar vegna skoðunar ökutækja væri í sem bestum farvegi á vettvangi Samgöngustofu. Tóku tæknistjórnar bifreiðaskoðunarstöðva þátt í þeirri vinnu. Fyrirkomulag menntunar skoðunarmanna var tekið til skoðunar m.t.t. samræmingar auk þess sem kröfur til hæfi og hæfni skoðunarmanna voru ræddar. Þá var skipaskoðun rædd en áhyggjum hefur verið lýst af því að faggiltum fyrirtækjum sem annast skipaskoðun hefur fækkað. Í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneytið, Samtök iðnaðarins og faggildingarsvið Hugverkastofu var staðið fyrir opnum fundi um faggildingu á Íslandi hinn 25. ágúst 2022 en samhliða ritaði ráðherra undir samstarfssamning við Swedac, sænsku faggildingarstofuna. Hópurinn átti góðan fund með nýjum deildarstjóra tæknimála hjá Samgöngustofu á haustmánuðum. Þá ákvað hópurinn að beita sér sérstaklega fyrir kerfisbreytingum á skoðunum rúllustiga, lyfta og vinnuvéla í samræmi við tillögur Ríkisendurskoðunar frá árinu 2007 sem ríkisendurskoðandi hefur margsinnis komið á framfæri við Alþingi. Lögfræðingur SVÞ átti á árinu fund með félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir hönd hópsins og kom sjónarmiðum hans þar á framfæri. Þá skoraði hópurinn á stjórn SVÞ að beita sér fyrir kerfisbreytingum á vettvangi Vinnueftirlitsríkisins. Á tímum heimsfaraldurs voru veitt bráðabirgðaleyfi til löggildingar sem enn eru í gildi og hefur hópurinn komið ábendingum um það á framfæri við stjórnvöld.
Eins og verið hefur er faggildingarhópurinn afar virkur og gerir hann ráð fyrir að beita sér fyrir samstarfi á vettvangi atvinnurekendasamtaka til að knýja á um breytingar á hlutverki og fyrirkomulagi Vinnueftirlits ríkisins. Að því loknu væntir hópurinn þess að knýja á um breytingar á öðrum eftirlitsstofnunum. Er þá ekki síst haft í huga að Ísland hefur ekki nýtt starf faggiltra fyrirtækja í sama mæli og tíðkast víðast hvar erlendis á sama tíma og regluverk ESB þróast í ríkum mæli í átt til slíks.
Á starfsárinu var unnið að greiningu á orkunotkun í landflutningum á Íslandi. SVÞ og Samorka hafa í samstarfi við verkfræðistofuna EFLU og Íslenska NýOrku ehf. safnað upplýsingum frá landflutningafyrirtækjum sem nýtanlegar eru til kortlagningar á orkunotkun í landflutningum. Er hugmyndin sú að annars vegar verði unnt að setja fram Íslandskort þar sem helstu flutningaleiðir eru dregnar fram, unnt verði að lesa af því hve mikil orka má ætla að sé nýtt í akstri á leiðunum, hvar sé algengast að bílstjórar geri aksturshlé og hve langan tíma flutningabifreiðar standi hreyfingarlausar á brottfarar- og endastað. Er gert ráð fyrir að slíkar upplýsingar geri framleiðslu- og dreifingarfyrirtækjum raforku mögulegt að áætla framtíðaruppbyggingu framleiðslu- og dreifingarinnviða nýorku til að knýja flutningabifreiðar, hvort sem verður í formi hreinnar raforku eða rafeldsneytis. Er því hins vegar vonast til þess að upplýsingarnar frá landflutningafyrirtækjunum geti gert unnt að leiða fram áætlaðan rekstrarkostnað landflutningabifreiða sem ganga fyrir nýorku.
Þegar liggur í mjög grófum dráttum fyrir hverjar helstu landflutningaleiðirnar eru á Íslandi. Hins vegar eru enn göt í gagnasafninu sem koma í veg fyrir að unnt sé að draga haldbærar ályktanir af fyrirliggjandi gögnum. Að undanförnu hefur því verið unnið að söfnun viðbótargagna, einkum frá einstaka landsvæðum og minni flutningsaðilum sem oft eiga í samstarfi við stærri flutningaaðila.
Óhætt er að segja að nýlegar fréttir af innflutningi og markaðssetningu vöruflutningabifreiða sem ganga einvörðungu fyrir rafmagni á árinu 2023 hafi hreyft við landflytjendum. Fulltrúi flutningasviðsins er einn leiðtoga hvað varðar vegasamgöngur á landi í verkefninu Loftslagsvegvísir atvinnulífsins, sem er samstarfsverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og atvinnurekendasamtaka í Húsi atvinnulífsins.
Meðlimir flutningasviðsins tóku á starfsárinu virkan þátt í undirbúningi umsagna um frumvörp um breytingar á ýmsum lögum, s.s. umferðarlögum, lögum um farþega- og farmflutninga og hafnalögum.
Á starfsárinu hefur hópurinn verið lítt virkur en á sama tíma hefur eigandi Accountant ehf. átt sæti í stjórn SVÞ.
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar voru m.a. lagafrumvörp um breytingar á lögum um ársreikninga og bókhald en hið síðarnefnda var fellt af skránni við endurskoðun um áramót.
Í farvatninu er m.a. innleiðing Evrópugerða sem munu hafa í för með sér auknar skyldur til framsetningar sjálfbærniupplýsinga í tengslum við European Green Deal sem ætlað er að tryggja fjárfestum og hluthöfum aðgengi að upplýsingum loftslagsáhættur í rekstri fyrirtækja (CSRD). Meðal annars af þeim sökum má gera ráð fyrir að verkefni hópsins verði umtalsverð á komandi starfsári.
Þá hefur skrifstofa SVÞ annast ýmis verkefni fyrir meðlimi hópsins á starfsárinu og fleiri eru fyrirliggjandi.
Breytingar á viðskiptaumhverfi er helsta baráttumál hagsmunahóps blómaverslana. Slíkum verslunum hefur fækkað annars vegar vegna breyttrar hegðunar neytenda og hins vegar vegna stöðu á innlendum heildsölu- og framleiðslumarkaði.
Fáar vörur búa við ríkari tollvernd á Íslandi en afskorin blóm og pottaplöntur en það hefur vart gerst að samið hafi verið um tollaívilnanir vegna innflutnings á þeim í nokkrum fríverslunarsamningi sem Ísland er aðili að. Þá virðist þess hafa verið gætt að engar ívilnanir væru veittar við útfærslu ákvörðunar um niðurfellingu tolla af vörum frá svokölluðum GSP-ríkjum, þ.e. þeim ríkjum sem eru hve skemmst á veg komin í þróun.
Tvær blómaheildsölur eru starfandi á Íslandi en önnur þeirra einblínir á íslenska framleiðslu. Saman stjórna þær aðgangi blómaverslana o.fl. að blómum og pottaplöntum á innlendum markaði. Reglulega er úthlutað tollkvótum á grundvelli samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina en í ljósi umstangs hefur blómaverslunum reynst verulega örðugt að hljóta úthlutun.
Á starfsárinu beittu SVÞ sér fyrir breytingum á umhverfi blómaverslana, annars vegar á vettvangi Alþingis og stjórnarráðsins og hins vegar í samskiptum við Samkeppniseftirlitið.
Undanfarið starfsár hafa lög um tekjustofna sveitarfélaga verið til skoðunar á vettvangi hagsmunahóps fasteignafélaga. Ástæðan er sú að fasteignaskattur hefur árlega tekið umfangsmiklum hækkunum í kjölfar útgáfu fasteignamats. Ef litið er til þróunar síðustu ára má segja að skattbyrði fasteignaskatts aukist jafnvel óháð þróun efnahagslífsins að öðru leyti öfugt við t.d. tekjuskatt og útsvar. Fyrir vikið gætir verulegri tregðu af hálfu sveitarfélaga þegar kemur að því að fullnýta ekki heimildir til ákvörðunar álagningarhlutfalls fasteignaskatts.
Eflaust hefur fasteignaskattur á sínum tíma þótt skynsamleg leið til skattlagningar atvinnureksturs enda var rekstur jafnan húsnæðisfrekur. Allt önnur staða blasir nú við og ekki síst í ljósi aukins svigrúms sem mörg fyrirtæki veita starfsmönnum við heimavinnu. Þá hefur uppgangur í ferðaþjónustu breytt húsnæðisnýtingu í atvinnurekstri verulega.
Óhætt er að segja að aðkoma SVÞ að hagsmunum hreingerningarfyrirtækja hafi fyrst og fremst varðað samskipti við innkaup opinberra aðila á hreingerningarþjónustu á starfsárinu.
Hefur skrifstofa SVÞ veitt fyrirtækjunum aðstoð við undirbúning tilboða í verk, vegna krafna opinberra aðila um viðbótarupplýsingar fyrir samningsgerð við túlkun samningsákvæða og vegna undirbúnings funda hreingerningarfyrirtækja með verkkaupum á samningstíma.
Eins og áður hefur aðkoma SVÞ að miklu leyti snúið að framkvæmd laga um opinber innkaup. SVÞ hafa verið þeirrar afstöðu að verulega jákvæð skref hafi verið tekin með setningu gildandi laga um opinber innkaup en hins vegar eigi opinberir aðilar í mörgum tilvikum nokkuð í land þegar kemur að því að tileinka sér innkaupaferli laganna.
Samkvæmt venju hefur starf lausasöluhópsins verið óformfast og hópurinn einkum beitt sér þegar tilefni hefur til skapast. Um mitt ár 2022 samþykkti Alþingi breytingalög sem fólu í sér að reistar voru hömlur á sölu og markaðssetningu nikótínvara á borð við nikótínpúða. Í aðdragandanum hélt lausasöluhópurinn mjög á lofti því misræmi sem skapast hefur á heildarmarkaði vara sem innihalda nikótín, þ.e. tóbaks, nikótínlyfja, nikótínpúða og rafrettna. Í ljósi þeirrar tilhneigingar að takmarka aðgengi að lyfjum er t.d. aðgengi að nikótíntyggjói í raun mjög takmarkað í samanburðinum og ekki síst í samanburði við stöðuna á hinum Norðurlöndunum.
Lagt var fram þingmannafrumvarp á Alþingi haustið 2022 þar sem lögð var til útvíkkun á heimild til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennum verslunum. Af því tilefni lagði hópurinn töluverða vinnu í tryggja að sjónarmið hópsins næðu eyrum þingmanna. Þó frumvarpið hafi fengið athygli fjölmiðla hefur velferðarnefnd Alþingis ekki enn hafið efnisumfjöllun um það.
Innkaupahópurinn var lítt virkur á síðasta ári en þó má segja að starf sem unnið hefur verið á vettvangi hans undanfarin ár hafi komið SVÞ að góðu gagni.
Fyrir liggja reynslusögur aðildarfyrirtækja og hafa fulltrúar hópsins og skrifstafa SVÞ átt samskipti við Ríkiskaup í ljósi þeirra. Skrifstofa SVÞ átti fund með nýjum forstjóra Ríkiskaupa á síðasta ári og virðist starfsemi stofnunarinnar þegar bera merki nýrra áherslna.
Skrifstofa SVÞ veitti fjölmörgum aðildarfyrirtækjum ráðgjöf vegna opinberra innkaupa, bæði í aðdraganda innkaupa og eftir að samningur var gerður.
Reglulega koma upp álitamál sem snúa að túlkun samningsskilmála auk þess sem ríkt tilefni virðist oft og tíðum vakna til framlagningar fyrirspurna sem snerta grundvallaratriði laga um opinber innkaup í innkaupaferlum. Segja má að viðleitni gæti meðal sumra opinberra aðila til að líta fram hjá og jafnvel sniðganga meginreglur laganna í innkaupaferlum og reglur samninga- og kröfuréttar og eftir að samningur er kominn á. Tvímælalaust virðist tilefni til að veita aðhald þegar kemur að opinberum innkaupum.
Áherslumál hóps vátryggingamiðlara á starfsárinu hefur verið að bæta samskipti vátryggingamiðlara við erlend samstarfsfyrirtæki sín. Íslensk fyrirtæki í vátryggingamiðlun sinna einkum miðlun fyrir erlend fyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi hér á landi frá fjármálaeftirliti Seðlabankans. Einnig hafa eftirlitsgjöld vátryggingamiðlara verið til umræðu en í því efni hallar mjög á hin minni fyrirtæki í greininni.
Þá hefur reynst erfitt fyrir fyrirtæki í þessari atvinnugrein að afla sér starfsábyrgðartryggingar hér á landi og því hefur verið brugðið á það ráð að leita eftir líkum tryggingum erlendis. Áfram hefur verið unnið að því á starfsárinu.
Formaður hópsins er Gísli Böðvarsson.
Lyfsöluhópur SVÞ hefur það meginhlutverk að gæta hagsmuna fyrir fyrirtæki á smásölumarkaði. Innan hópsins eru nær öll apótek sem hafa lyfsöluleyfi hér á landi. Með gildistöku lyfjalaga í ársbyrjun 2021 varð sú breyting á að verðlagning lyfja, bæði á smásölumarkaði og heildsölumarkaði, færðist frá Lyfjagreiðslunefnd til Lyfjastofnunar. Hámarksverð lyfja er sem kunnugt er háð opinberri ákvörðun.
Nokkur árangur náðist við að ná fram breytingu á smásöluálagningu lyfja, en hún hún hafði verið nær óbreytt frá 2019. Með stjórnvaldsákvörðun sem Lyfjastofnun tók í maí 2022 var ákveðið að ný smásöluálgning tæki gildi í áföngun, fyrst 1. júli 2022 og síðan 1. ars 2023. Hækkun álagningarinnar sem kæmi til framkvæmda þá tæki yrði byggð á verðlagsforsendum fjárlaga 2023. Þær forsendur lágu fyrir, við samþykkt fjárlaga í desember s.l., og var ekki reiknað með öðru en að fylgt yrði þeirri ákvörðun sem tekin hafði verið. Engu að síður kostaði það lögfræðilegar röksemdir að tryggja að Lyfjastofnun fylgdi þeirri ákvörðun sem stofnunin sjálf hafði tekið.
Formaður hópsins er Skúli Skúlason.
Samtök heilbrigðisfyrirtækja (SH) eru eitt af undirfélögum SVÞ, en samtökin voru stofnuð árið 2009. Eins og mörg undanfarin ár hefur meginverkefni samtakanna á starfsárinu verið að fylgja eftir viðræðum sérfræðilækna við Sjúkratryggingar Íslands um gerð nýs þjónustusamnings, en sérfræðilæknar hafa nú verið samnigslausir við stofnunina frá ársbyrjun 2019. Engin breyting hefur orðið á afstöðu Sjúkratygginga á stafsárinu og ekki að merkja að neinn samningsvilji sé enn til staðar hjá stofnuninni. Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja var haldinn í mars og var gestur fundarins Wilum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Í ávarpi ráðherra kom fram einlægur ásetningur hans til að ljúka samningum við sérfræðilækna. Fjallaði hann um mikilvægi þess að styrkum stoðum yrði skotið undir samvinnu hins opinbera og sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og að fjármögnun til þeirrar starfsemi yrði tryggð til farmtíðar. Eftir kynningu formanns á stöðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja spunnust miklar umræður og var greinilegt að ráðherra varð margs vísari um skipan mála innan heilbrigðiskerfisins á fundinum. Samtök heilbrigðisfyrirtækja hafa á árinu skipað fulltrúa í nokkur ráð og nefndir á vegum hins opinbera. Er það ótvírætt merki um að núverandi stjórnvöld líti meira til sjónarmiða stjálfstætt starfandi fyrirtækja á heilbrigðissviðinu en þau fyrri, þegar kemur að almennri stefnumótun heilbrigðiskerfisins. Formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja er Dagný Jónsdóttir
SVÞ sinnir skrifstofuhaldi og annast hagsmunagæslu fyrir Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) sem stofnuð voru árið 2005 en skólar innan SSSK gengu í SVÞ árið 2008. Nær allir sjálfstæðir leik- og grunnskólar landsins eru aðilar að samtökunum.
Ragna Vala Kjartansdóttir vinnur á skrifstofu SVÞ og sér um skrifstofu- og fræðslumál fyrir SVÞ og er SSSK innan handar.
Stjórn SSSK var þannig skipuð á starfsárinu: Alma Guðmundsóttir formaður og Sigríður Stephensen varaformaður, Jón Örn Valsson gjaldkeri. Meðstjórnendur voru: Atli Magnússon og Berglind Grétarsdóttir. Varamenn voru: Bóas Hallgrímsson og Íris Dögg Jóhannesdóttir. Á árinu urðu þær breytingar á stjórn að Berglind Grétarsdóttir hætti í stjórn og Bóas Hallgrímsson varð meðstjórnandi. Guðmundur Pétursson hefur sótt stjórnarfundi frá áramótum en hefur ekki atkvæðarétt.
Stjórn hélt 11 stjórnarfundi á árinu fyrir utan námskeið og viðburði fyrir félagsmenn.
Tæpt verður á því helsta í starfsemi samtakanna hér á eftir.
Aðalfundur SSSK var haldinn þann 28. apríl 2022 í fundarsalnum Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum, samþykkt ársreiknings og skýrslu stjórnar var verandi stjórn endurkjörin. Ekkert mótframboð barst.
Undir liðnum önnur mál var rætt um hugmyndir um vinnslu skýrslu um starfsemi sjálfstæðra skóla. Var þeirri afstöðu lýst að slík skýrsla gæti skapað félagsmönnum færi á að tala einu máli gagnvart stjórnvöldum og stjórnmálamönnum. Var efnisdrögum lýst þannig að í skýrslunni yrði fjallað um almennar upplýsingar um skólana, áherslur, árangur o.fl. Fram kom að rætt hefði verið við þrjá sérfræðinga um að taka verkið að sér. Var jafnframt rætt um möguleika á að stuðla að því að á vettvangi háskólanna yrðu unnin verkefni eða ritgerðir um sjálfstæða skóla. Var í þessu samhengi bent á skýrslu sem Hagfræðistofnun HÍ vann fyrir SSSK en tekið fram að uppleggið væri að leggja áherslu á faglega þætti starfseminnar. Félagsmenn ræddu aðila sem mögulega gætu tekið vinnuna að sér og gögn sem gagnast gætu við vinnsluna. Þá ræddu félagsmenn um framlög sveitarfélaga til sjálfstæðra skóla, m.a. áform Hafnarfjarðar um 100% framlag. Að auki var rætt um synjun Reykjavíkurborgar á að greiða með börnum í frístund í öðrum sveitarfélögum á meðan t.d. Kópavogsbær greiðir með Kópavogsbörnum í frístund í Reykjavík. Þá ræddu félagsmenn framlög sveitarfélaga til sjálfstæðra skóla á hinum Norðurlöndunum og heimildir til innheimtu skólagjalda. Fram kom að samningsform sveitarfélag vegna leikskóla væri mótaðra og þeir gengju betur fjárhagslega en grunnskólar.
Í framhaldi af fundinum tóku samtökin á móti frambjóðendum í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þar varð lögð áhersla á að auka skilning gesta á starfi og rekstri sjálfstætt starfandi skóla, sjálfstæði þeirra og sjálfbærni ásamt því að kallað var eftir meiri fyrirsjáanleika og samvinnu.
Segja má að starfsárið hafi að miklu leyti borið þess merki að um nokkra hríð hafa staðið yfir staðið viðræður við Reykjavíkurborg um gerð nýrra þjónustusamninga, annars vegar við sjálfstæða leikskóla og hins vegar sjálfstæða grunnskóla. Upphaflega stóð til að nýir samningar tækju gildi haustið 2021 en gerð þeirra hefur dregist og því hefur samningstími gildandi samninga verið framlengdur, síðast til loka árs 2023.
Í maímánuði óskaði Félag leikskólakennara eftir því að gera kjarasamning við SSSK sem vísa myndi til nýgerðs samnings Kennarasambandi Íslands/FLvið Samband íslenskra sveitarfélaga. Af hálfu SSSK voru gerðar athugasemdir við skuldbindingargildi nokkurra atriða samningsins þar sem SSSK mundu ekki hafa neina aðkomu heldur einvörðungu fulltrúar FL og sveitarfélaga. Lögfræðingur á vinnumarkaðssviði SA var SSSK til aðstoðar. Voru haldnir nokkrir fundir.
Á þeim óskuðu SSSK m.a. eftir að fundargerðir samstarfsnefndar kæmu sérstaklega til samþykktar á vettvangi SSSK og tryggt yrði að SSSK hefði vitneskju um ákvarðanir samstarfnefndar Sambands Íslenskra sveitafélaga og FL. Einnig var framkvæmd á styttingu vinnuvikunnar rædd með velferð barna í huga. Að lokum var skrifað undir samninginn í lok júní eftir að gerðar höfðu verið nokkrar breytingar að ósk SSSK.
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði útekt á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum og var skýrsla hennar birt 24. mars 2022. SSSK fagnaði áherslu endurskoðunar á gagnsæjar og skýrar reglur í samskiptum borgarinnar við sjálfstæða leik- og grunnskóla. Hins vegar reyndist nauðsynlegt að koma á framfæri nokkrum ábendingum ívið efni Þá lýstu SSSK undrun á að ekki hafi verið leitað álits SSSK á undirbúningsstigum vinnu við gerð skýrslunnar.
Á vormánuðum 2022 setti Reykjavík á fót starfshóp sem fengið var það verkefni að mótun stefnu um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik-og grunnskólum. Samkvæmt tillögu borgarstjóra átti hópurinn að hafa samráð við SSSK í vinnu sinni. Þegar upp var staðið reyndist samráðið ekkert en aðeins formanni SSSK og starfsmönnum skrifstofu SVÞ var kynnt efni skýrslu hópsins á stuttum fundi.
Drög að nýjum þjónustusamningi við Reykjavíkurborg
Drög að nýjum þjónustusamningum Reykjavíkurborgar voru kynnt SSSK á stuttum fundi í október og kom í ljós þeir breytingar sem gerðar höfðu verið frá gildandi samningum voru nær alfarið byggðar á skýrslu Innri endurskoðunar. Samningsdrögin mættu mikill andstöðu og gagnrýni félagsmanna SSSK enda litu rekstraraðilar SSSK alvarlegum augum á breytingarnar þar sem þær geta ráðið úrslitum um framtíðarforsendur rekstar sjálfstæða skóla innan Reykjavíkurborgar.
Þrátt fyrir mótmæli SSSK var skýrsla starfshóps lögð fyrir fund borgarráðs sem tillaga borgarstjóra.
SSSK sendi borgaráði erindi hinn 9.nóvember erindi þar samtökin höfnuðu að ganga til samningaviðræðna á grundvelli tillögu borgarstjóra eins og hún var lögð fram í borgarráði 27. október 2022.
Reykjavíkurborg hefur tilkynnt SSSK nýjar samningaviðræður séu framundan og eins og áður segir var gildistími gildandi samninga því framlengdur til loka árs 2023.
Framlög til sjálfstæðra leikskóla og atriði þeim tengd hafa verið mikið rædd í samskiptum SSSK og borgarinnar. Nokkurrar óvissu gætir þar sem borgin vinnur á sama tíma að endurskoðun reiknilíkans vegna framlaganna. Markmið SSSK i viðræðunum er skýrt; að framlög borgarinnar til sjálfstæðra leikskóla tryggi sjálfbæran rekstur þeirra m.t.t. sérstöðu þeirra.
Fjárhagsleg samskipti sveitarfélaga og sjálfstæða grunnskóla hafa sætt mikilli umræðu innan SSSK að undanförnu. Hverfist umræðan um svokallaða Hagstofutölu en framlög sveitarfélaga til skólanna eru lögbundin og grundvallast á opinberu viðmiði, þ.e. stofni til útreiknings framlaga sem ætlað er að endurspegla rekstrarkostnað grunnskóla sveitarfélaganna. Illa hefur gengið að endurspegla þann rekstrarkostnað í starfsemi sjálfstæðra grunnskóla og hafa SSSK eytt miklu púðri í að átta sig á þeim upplýsingum sem Hagstofan byggir útreikninga sína á. Eins og á síðasta starfsári hafa tveir þættir einkum þótt geta skýrt misræmið, þ.e. tímatöf sem er innbyggð í útreikningsaðferðir og mögulega vsk-endurgreiðslur sem sveitafélög njóta. Slíkar endurgreiðslur ættu reyndar einnig að hafa áhrif á forsendur framlaga sjálfstæðra leikskóla og hefur skrifstofa SVÞ haldið áfram samskiptum við stjórnvöld í því ljósi. Á þessu stigi eru þau samskipti alfarið á lögfræðilegum nótum og því liggur endanleg pólitísk afstaða ekki fyrir.
SSSK eru aðili að The European Council of National Associations of Independent Schools, ECNAIS, www.ecnais.org.
Félagsstarf og viðburðir SSSK
Það er margt sem skólastjórnendur þurfa að huga að í dag. Janflaunavottun, persónuverndarmála, persónuverndarfulltrúa, skjalastýringar, styttingu vinnuvikunar, tengiliði og málstjóra, innritunarkerfi og innritunarreglurreglur og margt fleira.
SSSK stóð fyrir fjölbreyttum kynningum og námskeiðum fyrir félagsmenn SSSK. Boðið var upp á kynningu frá mismunandi fyrirtækjum varðandi persónuverndarfulltrúa og einnig jafnlaunavottun. Það er síðan félagsmanna að ákveða hvort og þá með hverjum þeir vinna.
Advania bauð upp á kynningu á leikskólakerfinu Völu 18.maí.
Einnig var beðið um kynningu frá Reykjavíkurborg á grunnskólalíkaninu Edda. Var kynningarmyndband sent til stjórnar.
Formaður stjórnar SSSK sótti opnun þings KÍ þann 1. nóvember.
Dagur skólastjórans var haldinn 3. nóvember. Það var mæting við Hús verslunarinnar og lagt af stað í óvissuferð. Það var vel mætt en hópurinn fyllti eina stóra rútu. Byrjað var á því að fara í Arnarskóla og þar fengu félagsmenn kynningu á því góða starfi sem þar er unnið. Þaðan var farið upp á Höfða að heimasækja Höfuðstöðina en þar hefur innsetning Hrafnhildar Arnardóttur, Chromo Sapiens, fengið aðsetur til frambúðar. Þar var boðið upp á drykk og eitthvað snarl. Eftir heimsóknina fór hópurinn út að borða. Mikil áægja var með með daginn enda var hann vel heppnaður í alla staði.
Þann 3. mars tóku á móti skólastjórnendum, lögfærðingar SA og sérfræðingar í vinnurétti þær Sólveig B. Gunnarsdóttir og Mai-Britt Hjördís Briem. Námskeiðið mæltist vel fyrir og voru þátttakendur hæstánægðir. Um 50 skólastjórnendur sóttu námskeiðið. Ákveðið var að halda sambærilegt námskeið árlega, enda er um að ræða einn stærsta þátt í rekstri skóla og mikilvægt að þekkja bæði réttindi og skyldur vinnuveitenda og launþega.
Verið er að vinna í að skipuleggja vinnustofu þar sem SSSK fer í stefnumótun. Haft var samband við þrjú fyrirtæki sem taka svona verkefni að sér. Tekin verður ákvörðun um það fljótlega og stefnan tekin á að vinnan hefjist fljótlega á vormánuðum.
Á starfsárinu var starfsemi Samtaka ökuskóla nokkuð takmörkuð. Skrifstofa SVÞ aðstoðaði samtökin við gerð umsagna um lagafrumvörp í tengslum við breytingu á umferðarlögum auk þess sem áfram áttu SVÞ í samskiptum við stjórnvöld vegna fyrirkomulags náms til vinnuvélaréttinda. Fyrir hönd Samtakanna hafa SVÞ unnið að víðtækara samstarfi við önnur atvinnugreinasamtök með það fyrir augum að draga úr aðkomu opinberra stofnana að kennslu til vinnuvélaréttinda enda virðast atvinnurekendur almennt hafa brýna þörf á að njóta sveigjanleika sem einkarekstur býður upp á. Í því skyni var m.a. litið fyrirkomulags slíks náms í helstu samanburðarríkjum Íslands, m.a. hvað varðar réttindakennslu, gerð námskrár og kennsluefnis auk eftirlits með því að starfsmenn hafi viðeigandi réttindi.
Öryggishópur SVÞ
Það hefur verið hlutverk öryggishóps SVÞ að vinna að því að bæta viðbrögð lögreglu við þjófnuðum og annarri brotastarfsemi í verslunum.
Á starfsárinu áttu fulltrúar hópsins fund með Ríkislögreglustjóra og fulltrúum frá embættinu í því skyni að bæta samskiptamátann við lögregluna að þessu leyti. Verkefnið snýst að mestu leyti um hvort verslunum sé heimilt að safna saman upplýsingum af meintum brotamönnum, m.a. í formi myndefnis, og senda svo áfram með rafrænum hætti inn á miðlægan grunn sem lögreglan ein hefur aðgang að. Persónuvernd virðist geta samþykkt slíkt fyrir sitt leyti. Vonir standa til að nú fari loks að koma hreyfing á þessi mál sem hafa verið allt of lengi í undrbúningi.
Þessi málaflokkur fékk nokkra opinbera umfjöllun á árinu, en fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV fjallaði um skipulagða brotastarfsemi í verslunum og það gríðarlega tjón sem af slíku hlýst. Vakti sú umfjöllun mikla athygli.
Formaður hópsins er Guðmundur Gunnarsson
Stjórnarformaður Stafræna hópsins er Guðmundur Arnar Þórðarson.
Aðrir stjórnarmeðlimir eru
Ósk Heiða Sveinsdóttir,
Hannes A. Hannesson,
Hanna Kristín Skaftadóttir,
Elvar Örn Þormar,
Dagný Laxdal,
Hópurinn hefur komið saman reglulega síðasta árið og hefur starfið gengið vel. Stjórnarmeðlimir eru með mikla þekkingu á stafrænni vegferð og atvinnulífinu bæði hér á landi og erlendis. Þó að vel gangi að mörgu leiti í stafrænni vegferð þá vantar enn mikið upp á og því er þekkingin og reynslan sem hópurinn býr yfir mikilvæg. Hópurinn vinnur náið með SVÞ og formaður hópsins hefur verið með erindi á stjórnarfundum SVÞ.
Innan Stafræna hópsins voru fræðslumál ofarlega á baugi og umræða um hvernig megi hjálpa stjórnendum að hagnýta betur tækifærin. SVÞ standa að metnaðarfullri fræðslu- og viðburðardagskrá fyrir félagsmenn sína með því markmiði að hjálpa þeim að fylgjast með því sem er að gerast innan verslunar og þjónustu bæði hérlendis og erlendis og auka samkeppnishæfni þeirra. Það voru margir fræðsluviðburðir á árinu. Margir þeirra skipulagðir með það að markmiði að leggja áherslu á mikilvægi þess að aflla sér aukinnar þekkingar á stafrænni innleiðingu. Margir þessir viðburðir hafa verið skipulagðir með stjórnendur í huga.
Miðvikudaginn 25. janúar var Guðmundur Arnar stjórnarformaður með námskeið fyrir stjórnendur í stafrænni innleiðingu. Farið var yfir fjölbreytt efni sem stjórnendur þurfa að hafa í huga varðandi þær breytingar sem eiga sér stað við stafræna umbreytingu. Markmið námskeiðisins var að stjórnendur sem hafa áhuga, takmarkaða reynslu eða vilja geti gripið tækifærið við hagnýtingu á upplýsingatækni sínu fyrirtæki til framdráttar.
Námskeiðið var vel sótt og var almenn ánægja með það.
Það var viss óvissa með framtíð stafræna hæfnisklasans um tíma en honum hefur verið tryggt fjármagn til ákveðins tíma. En Stafræni hæfnisklasinn vinnur náið með Stafræna hópnum.
https://stafraent.is
Markmið og áherslur Stafræna hæfniklasanum er að auka vitundarvakningu íslenskra fyrirtækja um mikilvægi þess að huga að stafrænni umbreytingu. Á vettvangi klasans verði fyrirtæki hvött til að gefa stafrænum málum aukið rými í daglegu starfi, auk þess að stuðla að eflingu stafrænnar hæfni og þjálfun starfsmanna svo þau geti með öryggi og vilja verið þátttakendur í þessari vegferð. Með Stafræna hæfniklasanum verði til samfélag þar sem fyrirtæki og starfsfólk getur leitað til í sinni stafrænnu vegferð, hvort sem það er til að fá ráðgjöf, hlusta á raunsögur eða efla sína stafræna hæfni hjá sjálfum sér eða öðrum. Mikilvægt er að til sé óháður vettvangur þar sem hægt er að leita jafningjafræðslu, fá aðstoð og ábendingar í stafrænni vegferð. Stafræna bilið verður ekki brúað öðruvísi en með samvinnu.
Sjá nánar um starfsemi Stafræna hæfnisklasans hér!