SVÞ eiga lögum samkvæmt einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa í stjórn Úrvinnslusjóðs. Sjóðurinn er ríkisstofnun sem hefur það meginhlutverk að ráðstafa tekjum af úrvinnslugjaldi og skilagjaldi af ökutækjum, sem eru að meginstefnu lögð á við innflutning vara og ökutækja.
Tekjurnar eru nýttar til að standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar og eftir atvikum söfnun úrgangsins. Þá eru tekjurnar einnig nýttar til að stuðla að endurvinnslu úrgangs, annarri endurnýtingu úrgangsins og kostnaði við förgun þess úrgangs sem blandast hefur vöru sem greitt hefur verið úrvinnslugjald.
Úrvinnslusjóði ber einnig að nýta tekju af úrvinnslugjaldi til að ná settum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu pappa-, pappírs-, gler-, málm-, viðar- og plastumbúða, raf- og rafeindatækja og rafhlaðna og rafgeyma. Að auki ráðstafar Úrvinnslusjóður tekjum af skilagjaldi sem er lagt á ökutæki til úrvinnslu þeirra þegar þau eru orðin að úrgangi og stendur undir kostnaði vegna framlengdrar framleiðendaábyrgðar.
Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ er aðalmaður samtakanna í stjórn Úrvinnslusjóðs en Berglind Rós Guðmundsdóttir frá Festi hf. varamaður.
Í ágúst 2022 lauk Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á starfsemi Úrvinnslusjóðs. Við vinnslu úttektarinnar áttu starfsmenn og stjórn sjóðsins gott samstarf við starfsmenn ríkisendurskoðunar. Eins og flestum er kunnugt um hafði starfsemin sætt gagnrýni í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar um úrgangsmál. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á ýmislegt sem betur má fara í starfseminni og hefur sjóðurinn unnið að breytingum í samræmi við ábendingarnar. Gera má ráð fyrir að vinna að breytingunum muni vara fram á árið 2024.
Hinn 1. janúar 2023 tóku gildi lagabreytingar sem fela í sér innleiðingu Evrópugerða sem ætlað er að stuðla að myndun hringrásarhagkerfis. Samfara gildistökunni urðu róttækar breytingar á hlutverki og verkefnum Úrvinnslusjóðs og hefur undirbúningur þeirra vegna staðið yfir allt frá upp úr miðju ári 2021. Í þessu ljósi hefur starfsmönnum sjóðsins fjölgað. Innleiðing breytinganna stendur í ýmsu tilliti enn yfir og hafa ýmis álitamál risið í ferlinu sem í raun sér ekki enn fyrir enda á. Má segja að verulega sé tekið að reyna á það fyrirkomulag að starfsemi Úrvinnslusjóðs sé í höndum opinberrar stofnunar. Vegna breytinganna hefur úrvinnslugjald verið hækkað og í sumum tilvikum allverulega. Sú hækkun á að mestu rót sína að rekja til þess að tekjum af úrvinnslugjaldi er nú ætlað að standa undir sérstakri söfnun heimilissorps. Í litlu og dreifbýlu landi er slíkur kostnaður afar hár.
Hinn 30. nóvember 2022 skilaði starfshópur umhverfis- orku- og loftslagsráðherra um kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar skýrslu sem inniheldur ýmsar tillögur sem munu hafa áhrif á starfsemi Úrvinnslusjóðs verði þeim hrint í framkvæmd. Þeirra á meðal er tillaga þess efnis að framleiðendur og innflytjendur taki við framkvæmd framlengdrar framleiðendaábyrgðar að erlendri fyrirmynd. Í því fælist gróflega að atvinnurekendum yrði gert skylt að standa sjálfir að rekstri kerfis á borð við það sem Úrvinnslusjóður rekur nú, þ.e. að þeim verði falið að bera í raun ábyrgð á úrgangi vara sem þeir framleiða eða flytja inn, allt frá afhendingu þeirra til neytenda og fyrirtækja hér á landi til úrvinnslu þeirra þegar þær eru orðnar að úrgangi.