Skýrsla stjórnar 2023/2024
Ekki á að koma á óvart að kjaramál voru reglulega til umræðu á vettvangi stjórnar á starfsárinu. Strax í kjölfar þess að skammtíma kjarasamningar voru undirritaðir og samþykktir í desember 2022, hófst undirbúningur næstu samningalotu. Samningarnir sem undirritaðir voru í desember 2022 giltu sem kunnugt er aðeins til janúarloka 2024.
Til að heyra áherslur aðildarfyrirtækja SVÞ vegna undirbúnings nýs kjarasamnings voru fulltrúar samtakanna í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins kallaðir saman á vormánuðum 2023. Sá fundur var mjög gagnlegur en þar komu fram mörg áhersluatriði sem mikilvæga voru fyrir þær kjaraviðræður sem í hönd fóru.
Meðal þeirra atriða sem komu fram á fundinum og lögð var áhersla á var gerð langtímasamnings, að horft yrði til prósentuhækkana frekar en krónutöluhækkana, ekki yrði samið um frekari styttingu vinnuvikunnar og jöfn laun þeirra sem hefðu störf í verslun sem aðalstarf og þeirra sem vinna hlutastörf. Sá tiltölulega litli munur sem er á launum þessara aðila hefur verið gagnrýndur mjög.
Samstarfssamningur VR og SVÞ sem undirritaður var á aðalfundi SVÞ í mars 2023 felur í sér að samtökin munu á næstu árum vinna markvist að hæfniaukningu í verslun og þjónustu. Í samningnum er m.a. sett það markmið að fram til ársins 2030 hafi 80% starfsfólks fyrirtækja í verslun og þjónustu árlega sótt nám sem auka hæfni og þekkingu þess. Sí- og endurmenntun starfsfólksins er rauði þráðurinn í samningnum. Þá er einnig áhersluatriði í samningnum að auka þekkingu og hæfni þess stóra hóps starfsfólks innan verslunar- og þjónustufyrirtækja sem hefur íslensku sem annað tungumál.
Fyrirmynd af þessum samningi er sótt til Evrópu en þar hafa hagsmunasamtök atvinnurekenda í verslun og þjónustu og samtök launþega í sömu greinum undirritað sambærilegt samkomulag. Kveikjan að því samkomulagi var tvímælalaust þær gerbreyttu þarfir sem nú eru uppi fyrir menntun og hæfni starfsfólks í verslun og þjónustu, en fyrirtækin finna í sífellt auknum mæli fyrr aukinni samkeppni um hæfasta fólkið.
Fyrsta skrefið var að kanna stöðu sí- og endurmenntunar gera þarfagreiningu bæði meðal félagsmanna VR og aðildarfyrirtækja SVÞ. Niðurstöður könnunarinnar voru um margt fróðlegar, en þær voru þessar helstar:
Tæpur helmingur fyrirtækja innan SVÞ hefur skilgreinda stefnu varðandi sí- og endurmenntun starfsfólks;
Nær 70% fyrirtækja sem er með skilgreinda stefnu í menntamálum endurskoðar stefnu sína með reglubundnum hætti;
Nær 90% stjórnenda fyrirtækja innan SVÞ höfðu á sl. tólf mánuðum boðið starfsfólki sínu upp á endurmenntun af einhverju tagi;
Á síðustu tólf mánuðum hafði 42% starfsfólks sótt endurmenntun af einhverju tagi;
Hjá um 40% fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni starfar fólk með litla sem enga íslenskuþekkingu, en vel yfir helmingur fyrirtækja hefur boðið þessu starfsfólki sínu upp á nám íslensku.
Heilt yfir má segja að þessi könnun, sem er sú fyrsta af mörgum sem verður gerð á gildistíma samstarfssamnings VR og SVÞ, leiði í ljós að stór hluti fyrirtækja innan SVÞ geri sér vel grein fyrir mikilvægi sí- og endurmenntunar. Könnunin leiðir hins vegar einnig í ljós að betur má ef duga skal, en mikilvægi þess að fyrirtæki vinni markvisst að sí- og endurmenntun starfsfólksins verður sífellt meira í heimi þar sem samkeppni mun aðeins aukast bæði um hylli viðskiptavinanna og ekki síður um hæfasta starfsfólkið.
Það er nokkuð í land að markmiðið um að 80% starfsfólks sæki sé endurmenntun árlega. Hér er því um sameiginlegt verkefni SVÞ og VR að ræða um að hækka þetta hlutfall hratt og vel á næstunni.
Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV), sem er samstarfsverkefni SVÞ, VR, Háskólans á Bifröst og menningar og Menningar- og viðskiptaráðuneytisins, annast rannsóknir og tölfræðiúrvinnslu fyrir verslun á Íslandi. Tilgangurinn er að auka samkeppnishæfni fyrirtækja í verslun og þjónustu. Samtímaupplýsingum er safnað saman til að gera fyrirtækjum í verslun auðveldara með að meta stöðu þeirra á samkeppnismarkaði.
Helsta verkefni setursins á líðandi ári var að markaðssetja og betrumbæta Veltuna, gagnasafn RSV, sem fór í loftið í lok árs 2022. Þar er að finna mælaborð fyrir stjórnendur í íslensku atvinnulífi til að fylgjast með þróun í verslun og þjónustu. Þar er aðgengi að upplýsingum eins og umfang innlendrar verslunar, vöruinnflutningur, innlend greiðslumiðlun og erlend kortavelta eftir þjóðernum og útgjaldaliðum. Innlendri og erlendri netverslun ásamt vísitölu smávöruverslunar hefur einnig verið gerð skil hjá RSV. Í dag eru 69 fyrirtæki og einstaklingar sem kaupa sér aðgang að gagnasafninu og nýta til ákvarðanatöku. Þar af eru 14 ársáskriftir og 55 með mánaðaráskrift. Frekari upplýsingar má nálgast undir kaflanum Rannsóknir og greining hér í þessari skýrslu.
Undirritað var samkomulag milli RSV og Samtök ferðaþjónustunnar í lok árs 2023 til að vekja athygli á annars vegar erlendri kortaveltu og hins vegar að kynna Veltuna fyrir fólki og fyrirtækjum starfræktum í ferðaþjónustu. 16 tölfræðilegar staðreyndir úr gögnunum voru settar fram sem eru nú keyrðar sameiginlega á Instagram og Facebook síðum beggja aðila.
Á síðasta ári voru starfsmannabreytingar og í dag er Magnús Sigurbjörnsson forstöðumaður setursins.
Hvernig sem á er litið voru umhverfis- og loftslagsmál áberandi í starfsemi samtakanna á starfsárinu. Aðildarfyrirtæki samtakanna verða í mörgum tilvikum fyrir beinum og óbeinum áhrifum vegna breytinga á regluverki á því sviði. Yfir standa verulegar regluverksbreytingar sem eiga rót sína að rekja til ákvarðana ESB, einkum Fit-For-55 pakkans á sviði loftslagsmála og aðgerðaráætlunar um hringrásarhagkerfi. Stjórnvöld hafa sett afar metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Nægir í því samhengi að nefna lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 og íslenskt markmið um 55% samdrátt losunar fyrir árið 2030, í samfloti með Noregi og ESB, sem var kynnt á leiðtogafundi á vettvangi SÞ í desember 2020. Með lögum nr. 103/2021 var innleiðing hringrásarhagkerfis lögfest en í því fólst einkum kostnaðarábyrgð vöruinnflytjenda og -framleiðenda á úrgangi, þ.m.t. vegna sérstakrar söfnunar heimilisúrgangs. Við innleiðinguna er að ýmsu leyti gengið mun lengra en gert er í aðildarríkjum ESB.
Á starfsárinu kom á daginn að undirbúningur bæði íslenskra stjórnvalda og atvinnulífs hefur í ýmsu tilliti verið slakur. Ísland er ekki aðili að ESB og hefur því allajafna takmarkaða aðkomu að breytingum á regluverki sambandsins. Þó hafa EFTA ríkin í ýmsu tilliti tækifæri til að hafa áhrif á undirbúningsstigi en verða þá auðvitað bæði að vera meðvituð um undirbúninginn og möguleg áhrif fyrirhugaðra breytinga. Jafnframt hafa allir tækifæri til að láta í ljós mat sitt á undirbúningsgögnum mála og gildandi Evrópugerðum (Public Consultation) og eru dæmi um að á þeim vettvangi hafi íslensk fyrirtæki beitt sér.
Svo dæmi sé tekið innleiddi Alþingi verulegar breytingar á loftslagsheimildakerfinu (ETS) með lögum um síðustu áramót sem m.a. hafði veruleg áhrif á kostnaðarforsendur flugrekstrar og millilandasiglinga. Í undirbúningi er framlagning lagafrumvarps um viðbót við kerfið (ETS2) sem getur hæglega haft enn víðtækari áhrif á rekstrarkostnað fyrirtækja sem nýta jarðefnaeldsneyti með einum eða öðrum hætti í rekstrinum. Ekki verður betur séð en að vinna við gæslu íslenskra hagsmuna hafi hafist of seint, þ.e. eftir að náðst hafði samkomulag um afgreiðslu málanna á vettvangi ESB. Því reyndist hagsmunagæsla torsótt auk þess sem endanleg áhrif hér á landi eru jafnvel enn óljós. Þó ber umfjöllun við undirbúning málanna með sér að tilefni hafi þótt til að taka tillit til sérstakra hagsmuna smárra eyríkja. Þá lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu á síðasta ári um framlengda framleiðendaábyrgð vegna textíls og fatnaðar sem hæglega getur haft töluverðan kostnað í för með sér fyrir smáríki sem er staðsett fjarri endurvinnslumörkuðum. Samráði við hagsmunaaðila innan ESB var hins vegar lokið áður en tillagan var formlega lögð fram og verður ekki betur séð en að atvinnugreinasamtök innan ESB hafi þá nýtt tækifærið til að benda á það sem betur mætti fara.
Eins og áður segir er útvíkkun ETS losunarheimildakerfisins yfirstandandi og fyrirséð að ETS2 kerfið verði innleitt í íslenskan rétt á þessu ári. Innkoma millilandasiglinga í ETS kerfið mun kosta íslenskt samfélag milljarða á ári hverju og þátttaka í ETS 2 kerfinu mun sömuleiðis hafa sambærileg áhrif. Eftir því sem liður á áratuginn munu kostnaðaráhrifin safnast upp og að óbreyttu er unnt að halda því fram að þegar á árinu 2028 muni kostnaðurinn a.m.k. nema 10 milljörðum kr. á ári hverju. Þá hefur ekki verið tekið til afleiddra kostnaðaráhrifa vegna aukinnar stjórnsýslubyrði, þjónustukaupa af opinberum stofnunum og vottunaraðilum og ekki heldur kostnaðaráhrifa vegna annarra Evrópugerða sem í farvatninu eru. Í þessu samhengi er áhugavert að horfa til þess að hvorki ráðuneyti né Alþingis virðast hafa tök á að leggja mat á samfélagslegan kostnað vegna innleiðingar. Fyrir vikið er stjórnmálamönnum gert ófært að framkvæma eðlilegt hagsmunamat við lagasetningu og setningu stjórnvaldsfyrirmæla. Í samhengi stjórnar efnahagsmála er rétt að minnast orða Isabel Schnabel, sem á sæti í framkvæmdanefnd Evrópska seðlabankans, á ráðstefnu hinn 17. mars 2022 þar sem varað var við áhrifum sk. grænnar verðbólgu:
Nú þegar við byggjum upp sjálfbært efnahagslíf stöndum við frammi nýju tímabili orkuverðbólgu. Fyrsta áskorunin mun tengjast loftslagsbreytingum sem slíkum, þ.e. loftslagsverðbóla, vegna þess að náttúruhamfarir og öfgakennt veðurfar hafa kostnaðaráhrif í för með sér. Önnur áskorunin verður jarðefnaverðbólga. Hún hefur þegar haft áhrif á Evrusvæðinu og átti sök á um helmingi hækkunar kjarnaverðbólgu á svæðinu, aðallega vegna skarprar hækkunar á verði olíu og gass. Áhrif þriðju áskorunarinnar, grænnar verðbólgu, eru minna áberandi. Mörg fyrirtæki eru þegar farin að huga að því að breyta framleiðslu sinni í átt til minni losunar. Framleiðsla grænnar tækni kallar hins vegar m.a. á notkun mála og steinefna, sérstaklega í upphafi. Það er kostnaðarsamt og tekur jafnan langa tíma að byggja upp starfsemi til afla slíkra hrávara. Ójafnvægi aukinnar eftirspurnar og framboðs er ástæða verðhækkana sem þegar hafa komið fram. Sú mynd er því að teiknast upp að á sama tíma og hert er á baráttunni gegn loftslagsbreytingum því kostnaðarsamari verður baráttan, a.m.k. til skemmri tíma litið. Því fleiri fyrirtæki sem ráðast í umbreytingar sem stefna að minni losun því breiðari verðþrýsting mun græn verðbólga framkalla, a.m.k. á meðan breytingar eiga sér stað.
(Útdregið og þýtt af skrifstofu SVÞ)
Ástæða er til að vekja athygli á að af hálfu Stjórnarráðsins hefur þeirri afstöðu verið lýst að atvinnulífið ætti að leika lykilhlutverk í hagsmunagæslu á vettvangi ESB og hefur í því samhengi verið spurt hvernig íslenskir atvinnurekendur hafi hugsað sér að sinna henni í Brussel. Því má telja ljóst að íslensk stjórnvöld telji sig ekki hafa fulla getu til að takast á við verkefnið.
Íslenskt efnahagslíf er smátt í sniðum og hefur oftlega verið bent á að fábreytni hái því einna mest. Sagan kennir okkur að framleiðsla grænnar orku sé forsenda aukinnar fjölbreytni og farsældar. Án aukinnar framleiðslu mun Íslandi ekki auðnast að takast á við orkuskipti og loftslagsmál án verulegra skakkafalla. Að öllum líkindum munu Evrópukröfur á sviði umhverfis- og loftslagsmála aukast í nálægri framtíð. Ef undirbúningur er ónógur, tækifæri til úrbóta ekki nýtt og áfram verður horft fram hjá áhrifum á samfélagskostnað mun niðurstaðan koma niður á samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja og draga niður lífskjör. Engin má við slíku.
Í því skyni að móta stefnu samtakanna í stafrænum málum var haldin vinnustofa á haustdögum 2023, þar sem mörkuð var stefna SVÞ í stafrænni vegferð samtakanna.
Á vinnustofunni var sammælst um skilgreiningu á stafrænni hæfni og hlutverk SVÞ í hinni stafrænu vegferð mótað. Afurðin var það sem kalla má „stefnuhús SVÞ“ í málaflokknum.
Óhætt er að segja að vinnustofan hafi heppnast mjög vel, eb þátttakendur, sem komu frá fjölbreyttum hópi aðildarfyrirtækja, lögðu allir sem einn mikinn metnað í vinnuna. Þátttakendur settu sér það markmið að sameinast um skilgreiningu á því hvað fælist í stafrænni hæfni. Niðurstaða þeirrar vinnu var þessi: „Geta fyrirtækja, með starfsemi í verslun og þjónustu á Íslandi, til að umbreyta núverandi hæfni í takt við framfarir í stafrænni tækni, sem eru virðisaukandi og bæta þjónustugæði og upplifun viðskiptavina sinna.“
Í framhaldi af vinnunni samþykkti stjórn SVÞ að komið yrði á laggirnar „Leiðtogaráð SVÞ“. Leiðtogaráðið, sem samanstendur af hópi sérfræðinga í stafrænni tækni. Ráðið hóf störf í október og hefur það hlutverk að móta starf samtakanna til næstu mánaða í öllu því sem snýr að stafrænum málum. Fyrsti afrakstur ráðsins mun svo birtast á tuttugu og fimm ára afmælisráðstefnu SVÞ sem haldin verður í apríl nk. Metnaðarfull dagskrá þeirrar ráðstefnu er tilbúin í öllum aðalatriðum og er þess vænst að þeir fjölmörgu atburðir sem verða þar í boði, verði félagsmönnum SVÞ innblástur m.t.t. tækifæri og þær áskoranir sem framundan eru í rekstri fyrirtækja þeirra.
Enn eru uppi áform um að bæta við húsnæði SVÞ á 2. hæð í Húsi atvinnulífsins og standa vonir til þess að unnt verði að ljúka samningum við eiganda húsnæðisins sem fyrst. Eigandi húsnæðisins er vinnudeilusjóður Samtaka atvinnulífsins.
Nú liggur fyrir nýtt verðmat húsnæðisins og ekki lengur langt á milli hugmynda aðila um kaupverð, en um er að ræða 16m2 rými sem nýtast mun fyrir minni fundi á vegum samtakanna. Gangi kaupin eftir eru húsnæðismál samtakanna komin í það horf að duga ætti um fyrirsjáanlega framtíð.