Drifkraftur innra starfs SVÞ!
Öflugt faghópastarf er drifkraftur innra starfs SVÞ
Smelltu á nafn hópsins til að fræðast meira um starfsemi hans
Bílgreinasambandið
Faggildingarhópur
Flutningasvið SVÞ
Hópur vátryggingamiðlara
Lyfsöluhópur
Samtök heilbrigðisfyrirtækja
Samtök sjálfstæðra skóla
Stafrænn hópur
Leiðtogaráð SVÞ
Öryggishópur
Þróun innan bílgreinarinnar er áfram á gríðarhraða þar sem orkuskipti og fullkomnari samskiptatækni milli bifreiðar og umhverfis eru að ryðja sér til rúms. Á síðasta ári var mikil vinna lögð í Loftslagsvegvísi atvinnulífsins í vegasamgöngum þar sem stjórnvöldum voru afhentar 83 tillögur sem geta stutt við orkuskipti og er mikilvægt að stjórnvöld taki á því verkefni og áskorunum tengdum orkuskiptum á djarfan, afgerandi og skipulagðan hátt til að styðja við fyrirtækin í landinu sem eru á þeirri vegferð. Innflytjendur ökutækja hafa stutt stjórnvöld í þessari vegferð með því að bjóða upp á vöruframboð sem styður við hröðun orkuskipta, þjálfað starfsfólk í nýrri tækni og aðlagað allt markaðsefni. Því er fyrirsjáanleiki stjórnvalda mikilvægur til að tryggja að bæði fjárfestingar fyrirtækja í þessari vegferð og markmið skili árangri. Hægt er að nálgast ítarefni verkefnisins hér.
Á sama tíma og greinin er að þróast eru auknar kröfur til menntunar þeirra sem starfa innan bílgreina. Hefur Bílgreinasambandið lagt metnað sinn í að efla menntun og styðja við skóla og forsvarsmenn þeirra en skyldur fyrirtækjanna í bilgreininni eru ekki minni. Í grein sem er að þróast jafn hratt er mikilvægt að staldra við og horfa til hvernig menntun í greininni er háttað. Þeir sem starfa í iðngreinum nema bæði í skóla og svo starfsnám innan veggja fyrirtækja og því er mikilvægt að samspil þessara tveggja aðila sé mjög gott og framtíðarsýn þeirra sú sama til að hægt sé að skila færasta fólkinu út í atvinnulífið. Á síðasta aðalfundi Bílgreinasambandsins var ákveðið að horfa á ferli menntunar frá öllum hliðum og funda með öllum hagaðilum í þeim tilgangi að skoða hvort hægt sé að gera betur. Verkefninu er ekki lokið en miðar vel áfram.
Fjöldi skráðra fyrirtækja í bílgreinum heldur áfram að fjölga ár frá ári. Í lok árs 2023 voru skráð á landinu 1142 fyrirtæki samkvæmt Hagstofu Íslands og er það aukning um 1,5% milli ára. Á 10 árum hefur aukning á fyrirtækjum starfandi í þessari iðngrein fjölgað um 36,9%. Má þar nefna að bílasölum hefur fjölgað um 39,6% á tímabilinu og voru skráðar 254 í lok árs 2023. Almennum bílaverkstæðum hefur einnig verið að fjölga og voru skráð 474 í fyrra og er það aukning um 37,4% og fjöldi verkstæða sem starfa sem réttingar- og málningarverkstæði hefur fjölgað um 8,4% á þessum síðastliðnum 10 árum og voru skráð 103 verkstæði í lok árs 2023.
Fjöldi fyrirtækja innan Bílgreinasambandsins eru 108 talsins eða um 9,5% af starfandi fyrirtækjum í bílgreinum. Á árinu 2022 var hlutfallið 9,2%. Á vegum Bílgreinasambandsins eru verkefni unnin sem stuðla að bættum gæðum og rekstrarumhverfi félagsmanna. Bílgreinasambandið hefur beitt sér fyrir aukinni þekkingu innan bílgreinarinnar, eflingu faglegra vinnubragða og að tryggja að viðhafðir séu réttmætir viðskiptahættir með Gæðastaðli BGS. Í dag eru 36 fyrirtæki vottuð af Bílgreinasambandinu og 5 í ferli.
Úrskurðarnefnd bílgreina sem stofnuð er af Bílgreinasambandinu og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) og tekur til meðferðar og úrskurðar hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru/þjónustu af fyrirtækjum innan Bílgreinasambandsins barst á árinu 2023 10 mál sem er aukning um 4 mál frá fyrra ári. Þrátt fyrir aukningu er ánægjulegt að sjá hvað fá mál berast miðað við þann fjölda viðskipta innan greinarinnar.
Bílgreinasambandið lætur taka til sín á fjölbreyttum vettvangi greinarinnar. Starfsfólk og félagsmenn taka virkan þátt í starfsemi ýmissa samtaka og atvinnulífinu almennt með margvíslegum hætti. Svo sem með stjórnarsetu, nefndarsetu og setu í vinnuhópum, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Bílgreinasambandið eru hluti af CECRA, „European Council for Motor Trades and Repairs“ sem eru regnhlífasamtök fyrir landsamtök bílgreina í Evrópu. Bílgreinasambandið hefur í mörg ár átt í góðum samskiptum við ACEA og sér Bílgreinasambandið m.a. um að útvega gögn frá Íslandi inn í skýrslur og tölfræði ACEA með reglubundnum hætti. Bílgreinasambandið er með fulltrúa í stjórn Grænnar Orku sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti, stofnaður árið 2010 af iðnaðarráðherra. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að hefja markvissa stefnumótun um orkuskipti í samgöngum á Íslandi.
Bílgreinasambandið er með setu í Starfsgreinaráði faratækja- og flutningsgreina ásamt því að það stóð á sínum tíma fyrir stofnun faghóps Borgarholtsskóla með það að markmiði að tengja skólann betur við atvinnulífið. Bílgreinasambandið er einnig einn af stofnaðilum Verkiðnar en markmið samtakanna er að auka sýnileika og bæta ímynd iðn- og starfsmenntunar. Bílgreinasambandið á einnig fulltrúa í stjórn Iðunnar fræðslusetri og fagráði um umferðarmál sem starfræktur er á vegun Innviðaráðuneytisins.
Stjórn Bílgreinasambandsins er skipa Berglind Bergþórsdóttir frá Öskju, Egill Jóhannsson frá Brimborg, Heiðar J. Sveinsson frá BL, Loftur G. Matthíasson frá AB varahlutum, Rúnar Már Jónsson frá Bifreiðaverkstæði KS og Sverrir Gunnarsson frá Nýsprautun.
Hagsmunahópur faggiltra fyrirtækja innan SVÞ fundaði nokkuð reglulega á starfsárinu.
Faggildingarhópurinn og SVÞ hafa átt sinn fulltrúann hvor í faggildingarráði sem hefur það hlutverk að gera tillögur að stefnumótun um starfsemi faggildingar, veita faggildingarsviði Hugverkastofu faglega ráðgjöf um málefni faggildingar og vera menningar- og viðskiptaráðuneytinu og faggildingarsviði Einkaleyfastofu til ráðgjafar og aðstoðar við undirbúning að jafningjamati á grundvelli reglugerðar (ESB) nr. 765/2008. Skipunartími ráðsins rann út skömmu eftir mitt ár 2023 og hefur ráðið nýverið skipað að nýju.
Í samræmi við ákvarðanatöku á síðasta starfsári hefur faggildingarhópurinn undirbúið hagsmunagæslu sem stefnir að kerfisbreytingum á skoðunum rúllustiga, lyfta og vinnuvéla í samræmi við tillögur Ríkisendurskoðunar frá árinu 2007 sem ríkisendurskoðandi hefur margsinnis komið á framfæri við Alþingi. Skrifstofa SVÞ hefur á árinu notað hvert tækifæri sem gefist hefur til að vekja athygli stjórnvalda á síauknu mikilvægi faggildingar við innleiðingu Evrópugerða.
Á fundum faggildingarhópsins á starfsárinu hafa ýmis álitamál komið til skoðunar á borð við tvöfalt eftirlit og gjaldtöku hins opinbera auk þess sem hluti hópsins eyddi töluverðri vinnu í hagsmunagæslu í aðdraganda setningar laga nr. 101/2023, um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, enda gegna faggiltar skoðunarstofur lögbundnu hlutverki samkvæmt ákvæðum laganna.
Á árinu fjölgaði meðlimum faggildingarhópsins um einn þegar umsókn Versna vottunar að hópnum var samþykkt.
Formaður faggildingarhópsins er Árni H. Kristinsson, BSÍ Íslandi efh.
Á starfsárinu var lokið við greiningu á orkunotkun í landflutningum á Íslandi en vinna við hana hófst á síðasta starfsári. SVÞ og Samorka áttu samstarf við verkfræðistofuna EFLU og Íslenska NýOrku ehf. við greiningarvinnuna. Safnað var upplýsingum frá ýmsum landflutningafyrirtækjum sem nýtanlegar voru til kortlagningar á orkunotkun í landflutningum. Var vonast til þess að slíkar upplýsingar gerðu framleiðslu- og dreifingarfyrirtækjum raforku mögulegt að áætla framtíðaruppbyggingu framleiðslu- og dreifingarinnviða nýorku til að knýja flutningabifreiðar, hvort sem verður í formi hreinnar raforku eða rafeldsneytis.
Niðurstöður verkefnefnisins voru nýttar við gerð skýrslu með heitið ELECTIN – summary report Electric heavy-duty transport: Energy needs, locations, grid and charging stations for heavy duty (larger) vehicles en samantekt hennar má finna á vefsíðu Íslenskrar nýorku á vefslóðinni https://newenergy.is/wp-content/uploads/2024/01/Summary-report-Electin-final-122023.pdf. Í stuttu máli leiddi greiningin í ljós tölulegar upplýsingar um mögulega afhendingarþörf á rafmagni til hleðslu vöruflutningabifreiða í Reykjavík og í Staðarskála auk þarfar fyrir a.m.k. 26 hleðslustaði um landið. Það er hins vegar í höndum raforkufyrirtækja að fást við það verkefni að skilgreina hvernig unnt væri að breyta kerfum raforkuframleiðslu og dreifingar til að mæta orkuþörf vörubifreiða sem ganga fyrir nýorku og afmarka þann kostnað sem slíkar breytingar hafa í för með sér. Enn er vonast til þess að upplýsingarnar geti gert landflutningfyrirtækjum unnt að leiða fram áætlaðan rekstrarkostnað landflutningabifreiða sem ganga fyrir nýorku.
Fyrirtæki sem aðild eiga að flutningasviði SVÞ hafa að undanförnu í ýmsu tilliti fjárfest í rafmagsbifreiðum, bæði sendibifreiðum og stærri bifreiðum, til nota við vörudreifingu. Mikilvægt reynsla af notkun slíkra tækja er því þegar tekin að myndast. Þróun slíkra bifreiða, einkum rafhlaðna, heldur áfram og því verða teljast líkur á frekari útbreiðslu notkunar þeirra á næstu árum.
Fulltrúi flutningasviðsins var leiðtogi hvað varðar vegasamgöngur á landi í verkefninu Loftslagsvegvísir atvinnulífsins, samstarfsverkefnis umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og atvinnurekendasamtaka í Húsi atvinnulífsins. Hafði flutningasviðið því aðkomu að framsetningu þeirra 332 tillagna í loftslagsmálum sem afhentar voru umhverfis- orku- og loftslagsráðherra um mitt síðasta starfsár.
Meðlimir flutningasviðsins tóku á starfsárinu virkan þátt í undirbúningi umsagna um frumvörp um breytingar á ýmsum lögum.
Formaður flutningasviðs SVÞ er Gísli Arnarson, Samskip hf.
Starfsemi vátryggingamiðlunar á Íslandi hefur undanfarin ár verið í nokkuð föstum skorðum. Uppistaðan í starfi vátryggingamiðara er miðlun trygginga til einstaklinga og fyrirtækja fyrir erlend vátryggingafyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi hér á landi frá fjármálaeftirliti Seðlabankans.
Innlend vátryggingafélög hafa í sífellt minna mæli nýtt sér þjónustu innlendra vátryggingamiðlara, en segja má að starfsemi vátryggingamiðlara veiti hinum innlenda vátryggingamarkaði nauðsynlegt samkeppnisaðhald.
Eftirlitsgjöld vátryggingamiðlara hafa áfram verið til skoðunar á vettvangi hópsins, þar sem eftirlitsgjöldin ráðast ekki nema að litlu leyti af veltu einstakra vátryggingamiðlara.
Formaður hópsins er Gísli Böðvarsson
Sem fyrr hefur lyfsöluhópur SVÞ það hlutverk að gæta hagsmuna fyrir apótekin á Íslandi, en starfandi innan hópsins eru nær öll apótek sem hafa lyfsöluleyfi hér á landi.
Starfsemi hópsins snýst að mestu leyti um að vinna að því að breyting á smásöluverði lyfja gangi fram með eðlilegum hætti, en samkvæmt lyfjalögum nr. 100/2020 hefur Lyfjastofnun það hlutverk að taka ákvörðun um hámarksverð lyfja í smásölu. Lyfjalög kveða á um að samráð skuli haft við hagsmunaaðila þegar ákvarðanir eru teknar um breytingar á hámarksverði lyfja í smásölu. Tilnefndir eru tveir fulltrúar lyfsöluleyfishafa til að annast þessa vinnu fyrir hönd hópsins.
Síðustu ákvarðir um breytingar á hámarksverði lyfja í smásölu tóku til áranna 2022 og 2023 og tóku mið að hækkunum á verðlagsforsendum fjárlaga milli ára. Síðasta breyting sem byggð var á slíkum grunni kom til framkvæmda 1. október 2023. Þegar er búið að senda umsókn til Lyfjastofnunar um breytingar á hámarksverði lyfja sem taki til ársins 2024 og þar er gert ráð fyrir að breytingar verði grundvallaðar á breytingum á verðlagsforsendum fjárlaga eins og búið er að skapa fordæmi um.
Aðrir þættir í starfsemi hópsins snúast að miklu leyti um samskipti við eftirlitssvið Lyfjastofnunar en ítrekað koma fram ábendingar um óeðlilega framgöngu eftirlitssviðs stofnunarinnar við eftirlitsheimsóknir í apótekin.
Formaður hópsins er Skúli Skúlason
Samtök heilbrigðisfyrirtækja (SH) hafa það hlutverk einkum samkvæmt samþykktum að gæta hagsmuna sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja hér á landi. Einnig er það tilgangur samtakanna að stuðla að góðri samvinnu milli sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja og hins opinbera, að bæta rekstrarskilyrði slíkra fyrirtækja og styðja framþróun heilbrigðismála á Íslandi. Samtökin voru stofnuð 2009 og hafa æ síðan starfað innan vébanda SVÞ
Verkefni samtakanna undanfarin ár hafa einkum og sér í lagi falist í að stuðla að því að á ný tækjust samningar milli sérfræðilækna og Sjúkratrygginga Íslands. Eftir langar og erfiðar samningaviðræður tókust samningar á árinu, sem má tvímælalaust þakka nýjum áherslum yfirvalda heilbrigðismála og nýrri forystu hjá Sjúkratryggingum Íslands.
Undanfarin ár hefur í auknum mæli verið leitað til Samtaka heilbrigðisfyrirtækja um þátttöku í margs konar nefndum og ráðum á vegum hins opinbera um heilbrigðismál og ber það tvímælalaust vott um það viðhorf stjórnvalda að mikilvægt sé að til sjónarmiða einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja sé litið, þegar stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar um framþróun heilbrigðiskerfisins.
Gestur aðalfundar SH var Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja er Dagný Jónsdóttir
SVÞ sinnir skrifstofuhaldi og annast hagsmunagæslu fyrir Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) sem stofnuð voru árið 2005 en skólar innan SSSK gengu í SVÞ árið 2008.
Nær allir sjálfstæðir leik- og grunnskólar landsins eru aðilar að samtökunum. Tveir nýjir félagsmenn gengu í samtökin á árinu, Skóli í skýjunum og Tónsalir.
Stjórn SSSK var þannig skipuð á starfsárinu: Alma Guðmundsóttir formaður og Guðmundur Pétursson varaformaður, Jón Örn Valsson gjaldkeri
Meðstjórnendur voru: Atli Magnússon og Sigríður Stephensen. Varamenn voru: Bóas Hallgrímsson, Íris Dögg Jóhannesdóttir og Hildur Margrétardóttir. Á árinu urðu þær breytingar á stjórn að Hildur Margrétardóttir varð varamaður í stjórn.
Stjórn hélt 10 stjórnarfundi á árinu og einhverja viðburði fyrir félagsmenn.
Tæpt verður á því helsta í starfsemi samtakanna hér á eftir.
Aðalfundur SSSK var haldinn þann 25. apríl 2023 í fundarsalnum Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum, samþykkt ársreiknings og skýrslu stjórnar var kjörið í stjórn.
Guðmundur Pétursson hafði tekið sæti Berglindar sem gaf ekki kost á sér. Hildur Margrétardóttir bættist við sem varamaður í stjórn. Í samþykktum SSSK kemur fram að stjórn samtakanna skal kjósa á aðalfundi og skipa fimm menn, þ.e. formaður, varaformaður og þrír meðstjórnendur. Þrír menn skulu kjörnir til vara. Formaður og varaformaður skulu kjörnir sérstaklega á hverjum aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórn sjálf með sér verkum. Með komu Hildar Margrétardóttur er réttur fjöldi í stjórn.
Skoðunarmenn reikninga voru kjörnar: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssona
Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, stýrði fundi.
Eftir að hefðbundnum aðalfundastörfum lauk var Kristrún Birgisdóttir framkvæmdarstjóri með kynningu á skólanum - Skóli í skýjunum sem er nýr félagsmaður SSSK.
Síðan flutti Jóel Sæmundsson gamanmál um nýjar áherslur í menntamálum.
Ákveðið var að Samtök sjálfstæðra skóla færu í stefnumótunarvinnu og ákveðið var að Stratagem mundu halda utan um þá vegferð.
Markmiðið með vinnunni er að móta skýrari stefnu og sýn á framtíðina, til hagsbóta fyrir þá skóla sem eru í samtökunum. Einnig að styrkja stefnu samtakanna og skerpa á virkni þeirra fyrir aðildarskóla. Afurð vinnunnar verður skýr sýn á framtíðaráherslur, skynsamlegt skipulag á innra starfi og drög að áætlun um aðgerðir sem leiða til þeirrar framtíðarsýnar sem SSSK stefnir að.
Þórður Sverisson og Ása Karín Hólm hjá Stratagem leiddu vinnuna.
Sú vinna hófst um vorið með því að stofnaður var stýrihópur. Í honum voru Benedikt S. Benediktsson og Ragna Vala Kjartansdóttir starfsmenn SVÞ, Alma Guðmundsdóttir og Atli Magnússon úr stjórn SSSK auk Ásu Karín og Þórði frá Stratagem.
Trúnaðarviðtöl voru tekin við nokkra rekstraraðila og í framhaldi voru haldnir margir vinnufundir með stýrihópnum og einnig 2 vinnufundir með skólastjórnendum.
Vinnunni er ekki lokið og mun hún halda áfram í vetur og á vormánuðum.
Kjarasamningar voru undirritaðir á milli SSSK og Eflingar í byrjun júní. Samningarnir gilda frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024.
Samningar voru einnig undirritaðir á milli SSSK og Félag leikskólakennara vegna kjara starfsmanna í skólum SSSK. Samningurinn gildi út árið 2023.
Segja má að starfsárið hafi að miklu leyti borið þess merki að um nokkra hríð hafa staðið yfir viðræður við Reykjavíkurborg um gerð nýrra þjónustusamninga, annars vegar við sjálfstæða leikskóla og hins vegar sjálfstæða grunnskóla.
Upphaflega stóð til að nýir samningar tækju gildi haustið 2023 en gerð þeirra drógust á langinn og tilkynnti skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar í janúar að unnið yrði eftir gildandi samningum þar til nýir samningar verða undirritaðir.
Reykjavíkurborg boðaði SSSK á fyrsta samningafundinn 25. október 2023.
Fyrir hönd SSSK sitja í samningarnefnd; Benedikt S. Benediktsson, Alma Guðmundsdóttir, Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Jón Örn Jónsson og Ragna Vala Kjartansdóttir.
Við upphaf viðræðna var sett saman viðræðuáætlun sem gerði ráð fyrir nær vikulegum fundum til jóla. Fór svo að fundirnir urðu mun fleiri og lögðu báðir samningsaðilar ríka áherslu að samningar mundu nást fyrir áramót. Þegar dró nær jólum tóku samningsaðilar ákvörðun um að leggja fyrst áherslu á að ljúka nýjum þjónustusamningum við sjálfstæða leikskóla en ljúka viðræðum um samninga við sjálfstæða grunnskóla að því loknu.
Samninganefnd SSSK hélt tvenna fundi með rekstraraðilum, þann fyrri 13. desember og seinni 4. janúar 2024 til að kynna framgang viðræða og fara sérstaklega yfir kröfur Reykjavíkurborgar um fyrirkomulag innritunar í sjálfstæða leikskóla.
Samningaviðræður standa enn yfir. Meðal þess sem hefur verið rætt er húsnæðisframlag leikskóla, faghlutfallið þ.e. faghlutfall starfsmanna, viðbótargjaldtaka þ.e. heimild leikskóla til gjaldtöku utan skólatíma og fyrir aukaþjónustu, og innritun barna.
SSSK hefur lagt áherslu á hækkun framlaga til sjálfstæðra grunnskóla. Skólarnir eiga í miklum erfiðleikum vegna kostnaðar vegna langtímaveikinda starfsmanna. Þarf ekki að koma mikið til að starfsemin verði í uppnámi.
Farið hefur verið yfir nýtt innritunarkerfi borgarinnar og innritunarreglur, hvernig SSSK skólar geti fallið að því.
Nú er staðan þannig að SSSK hefur skilað samningsdrögum til samningarnefndar Reykjavíkurborgar og liggur boltinn hjá þeim. Það er óljóst með framhaldið en gera má ráð fyrir að síðasti samningur verður í gildi þar til samningar hafa tekist.
SSSK eru aðili að The European Council of National Associations of Independent Schools, ECNAIS, www.ecnais.org.
Hildur Margrétardóttir fór fyrir hönd samtakanna á ráðstefnu í Amsterdam 10-12 október. Þetta er ráðstefna um tækni og tæknimennt á öllum skólastigum. Hún hélt kynningu fyrir skólastjórnendum þegar heim var komið sem var vel sótt.
Í framhaldi af ferð Hildar höfum við verið í samtali við samtökin og gerum ráð fyrir að einhver heimsæki ráðstefnuna næsta haust.
Félagsstarf og viðburðir SSSK
SSSK stóð fyrir fjölbreyttum kynningum og námskeiðum fyrir félagsmenn SSSK.
Dagur skólastjórans var haldinn 2. nóvember. Það var mæting við Hús verslunarinnar og lagt af stað í óvissuferð. Það var vel mætt en hópurinn fyllti eina stóra rútu. Byrjað var á því að fara í Landakotsskóla og þar fengu félagsmenn kynningu á skólanum. Endað var á veitingastað þar sem félagsmenn gerðu sér glaðan dag saman. Mikil áægja var með daginn enda var hann vel heppnaður í alla staði.
Geðheilsa er alltaf mikilvæg og einnig á vinnustað. SSSK bauð upp á fyrirlestur með Helenu Jónsdóttur – Mental-ráðgjöf þar sem sérstaklega var fjallað um skólaumhverfið. Fyrirlesturinn var haldinn 25 október í húsakynnum SVÞ. Eftir fyrirlesturinn var slæðunum sem voru notaðar í kynningunni deilt með skólastjórnendum.
Hefð hefur skapast að lögfræðingar SA og sérfræðingar í vinnurétti þær Sólveig B. Gunnarsdóttir og Mai-Britt Hjördís Briem hafa haldið námskeið og setið fyrir svörum. Hafa miklar umræður skapast og skólastjórnendur hafa verið mjög ánægðir og lært mikið á þessu. Ákveðið hefur verið að halda sambærilegt námskeið árlega, enda er um að ræða einn stærsta þátt í rekstri skóla og mikilvægt að þekkja bæði réttindi og skyldur vinnuveitenda og launþega.
Öryggishópur SVÞ
Allt frá stofnun hópsins hefur það verið megin hlutverk hans að stuðla að bættum viðbrögðum lögreglu við afbrotum sem framin eru i fyrirtæjum félagsmanna, einkum þó í verslunum. Umfang þessa vanda er mikið og hefur aukist á undanförnum árum samhliða auknum ferðamannastraum og breyttri samsetningu þess fólks sem býr á Íslandi.
Eftir undirbúningsvinnu sem er búin að standa í mörg ár rofar nú til í þessum málum, en þróaður hefur verið búnaður sem mun hraða því mjög að tilkynningar um afbrot sem framin eru í fyrirtækjum berist til lögreglu. Búnaðurinn hefur verið þróaður í samstarfi öryggishóps SVÞ, Ríkislögreglustjóra og fyrirtækisins Samsýn ehf, sem þróaði búnaðinn, en Samsýn hefur þróað allan samskiptabúnað fyrir Almannavarnir svo dæmi sé tekið.
Prufukeyrslu búnaðarins er lokið og á ekkert að vera því til fyrirstöðu að hann komist í almenna notkun á allra næstu vikum.
Formaður öryggishópsins er Guðmundur Gunnarsson
Stafrænn hópur hefur verið starfræktur innan SVÞ frá haustmánuðum 2018. Mikið og óeigingjarnt starf hefur verið lagt til verkefnisins af meðlimum hópsins. Á meðal fyrstu verkefna hópsins var að leggja áherslu á eftirfarandi atriði.
Hvernig jafna megi samkeppnisstöðu íslenskra netverslana við erlenda samkeppnisaðila.
Aðgengi íslenskra netverslana að greiðslugáttum sem auðvelda samkeppni við erlenda aðila.
Flutninga- og sendingamál og hvort mögulegt sé að jafna samkeppnisstöðu íslenskra netverslana gagnvart erlendum samkeppnisaðilum í þeim málaflokki.
Afnám niðurgreiðslna á póstsendingum frá Kína.
Tolla- og skattaumhverfið með því tilliti að auðvelda íslenskum netverslunum samkeppni við erlenda samkeppnisaðila og auðvelda íslenskum netverslunum að selja og senda á erlenda markaði.
Aðgengi að nýsköpunarsjóðum fyrir verslunar og þjónustufyrirtæki.
Eflingu menntunar og þekkingar á sviði stafrænnar verslunar.
Síðastliðið starfsár var stafræni hópurinn þannig skipaður.
Stjórnarformaður Stafræna hópsins var Guðmundur Arnar Þórðarson.
Hópurinn kom reglulega saman síðasta árið og gekk starfið vel. Meðlimir eru með mikla þekkingu á stafrænni vegferð og atvinnulífinu bæði hér á landi og erlendis. Þó að vel gangi að mörgu leiti í stafrænni vegferð þá vantar enn mikið upp á og því er þekkingin og reynslan sem hópurinn býr yfir mikilvægur.
Innan Stafræna hópsins voru fræðslumál ofarlega á baugi og umræða um hvernig megi hjálpa stjórnendum að hagnýta betur tækifærin. SVÞ standa að metnaðarfullri fræðslu- og viðburðardagskrá fyrir félagsmenn sína með því markmiði að hjálpa þeim að fylgjast með því sem er að gerast innan verslunar og þjónustu bæði hérlendis og erlendis og auka samkeppnishæfni þeirra. Það voru margir fræðsluviðburðir á árinu. Margir þeirra skipulagðir með það að markmiði að leggja áherslu á mikilvægi þess að aflla sér aukinnar þekkingar á stafrænni innleiðingu.
Í september var haldin vinnustofa sem Edda Blumenstein annaðist. Tilgangur vinnustofunnar var að marka stefnu SVÞ í starfrænni vegferð félagsfólks.
Markmið vinnustofunnar var að;
sammælast um skilgreiningu á stafrænni hæfni
skilgreina hlutverk SVÞ í stafrænni vegferð félagsfólks
marka metnaðarfulla framtíðarsýn
sammælast um lykilmarkmið og aðgerðir
Á vinnustofunni var ákveðið að stofna leiðtogaráð SVÞ í stafrænum málum.
Leiðtogaráðið samanstendur af 5 sérfræðingum sem starfa á fjölbreyttum sviðum stafrænna mála. Ákveðið var að hafa það starfandi einungis í eitt ár til að byrja með og ráðið mundi leiða 25 ára afmælisdagskrá SVÞ. Ráðið kom fyrst saman í október 2023 og ákveðið var að það mundi starfa til 10. apríl þegar ráðstefna SVÞ verður haldin.
Hlutverk leiðtogaráðsins:
Að varða leiðina að framtíðarsýninni (hvað, hvenær, hver)
Að vinna þétt með skrifstofu SVÞ að uppskeruhátíð samfélags fólks og fyrirtækja í verslun og þjónustugreinum innan SVÞ á ráðstefnu degi samtakanna í apríl 2024. Að ráðstefnan verði lokaafurð hópsins.
Leiðtogaráð SVÞ í stafrænum málum veturinn 2023-2024
Þóranna K. Jónsdóttir, senior strategist The Engine Nordic
Einar Þór Garðarsson, framkvæmdastjóri KoiKoi
Sigtryggur Arnþórsson, framkvæmdastjóri Jökulá
Guðmundur Arnar Þórðarsson, sérfræðingur Intellecta
Rannveig Guðmundsdóttir, sérfræðingur IT hjá Innnes
Ráðið hefur hist á tveggja vikna fresti á 2 tíma fundum. Á fyrsta fundinum sem var haldinn 17. október var unnið að stefnumörkun og gerð verkefnaskipan. Á næstu vikum voru haldnar vinnustofur og fleiri fundir til þess að undirbúa ráðstefnuna vel.
Ákveðið var að hafa 25 ára afmælisráðstefnu SVÞ veglega. Hún mun verða haldin á Parliament hotel v/Austurvöll 10. apríl frá kl.13-18:00. Á ráðstefnunni verður boðið upp á 16 viðburði með lotufyrirkomulagi (e. breakout sessions) í fjórum þemum.