Meginverkefni lögfræðisviðs SVÞ á starfsárinu sneru að samskiptum við stjórnvöld. Ásókn eftir aðstoð sviðsins hefur aukist síðustu ár og er á mjög fjölbreyttu sviði. Lögfræðisviðið kom að ritun umsagna til fastanefnda Alþingis, ráðuneyta og stofnana ríkisins.
Eins og gefið var til kynna í síðustu ársskýrslu hefur tilefnum SVÞ til að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna þingmála og undirbúningsgagna fækkað síðustu ár. Á vettvangi SVÞ voru í heildina 35 mál tekin umsagnar þó fleiri mál hafi vissulega sætt skoðun innan samtakanna.
Til samanburðar veittu samtökin 80 umsagnir á starfsárinu 2020/2021 en 10 færi starfsárið þar á undan. Á þessu kunna að vera ýmsar skýringar á borð við áhrif heimsfaraldurs á störf stjórnvalda, alþingiskosningar og samsetning ríkisstjórnarinnar. Frá tilkomu samráðsgáttar stjórnvalda á vefsetrinu Ísland.is hefur hagsmunagæslan einnig tekið breytingum og áhersla aukist á framsetningu ábendinga og athugasemda á undirbúningsstigi lagafrumvarpa. Að vissu marki hefur fyrir vikið gætt meiri viðleitni af hálfu hins opinbera til skrafs og ráðagerða jafnvel áður en drög að þingsskjölum eða stjórnvaldsfyrirmælum verða að veruleika.
Sú breyting er jákvæð annars vegar m.t.t. sjónarmiða um gæði lagasetningar og hins vegar ætti hún að auðvelda starfsmönnum hins opinbera að öðlast þá heildarmynd af verkefnum sem nauðsynleg er. Aukið samtal hefur hins vegar einnig leitt fyrir sjónir hve illa hið opinbera er oft í stakk búið til að leggja mat á samfélagsáhrif breytinga á regluverki.
Að undanförnu hefur verið sérstaklega áberandi hve takmarkaðar upplýsingar hafa legið til grundvallar lagasetningu á sviði loftslagsmála og skattlagningar.
Svo dæmi séu tekin kom sviðið að ritun umsagna um eftirfarandi mál:
Breytingar á vinnureglum Lyfjastofnunar
Breytingar á lögum um endurskoðendur og lögum um ársreikninga
Fyrirkomulag eftirlits á sviði hollustuhátta
Fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028
Breytingar á reglugerð um úrvinnslugjald.
Drög að reglugerð um kynningu og auglýsingar heilbrigðisþjónustu
Lagafrumvarp um upplýsingagjöf um birgðastöðu lyfja og lækningatækja
Drög að reglum Orkusjóðs um styrki vegna orkuskipti í samgöngum
Drög að reglugerð um lyfjaávísanir og afgreiðslu lyfja
Drög að lagafrumvarpi um breytingar á húsaleigulögum
Lagafrumvarp um undanþágu framleiðendafélaga frá tilteknum ákvæðum samkeppnislaga
Lagafrumvarp um breytingar á lögum um landlækni og sjúkraskrár
Frumvarp til laga um sjúklingatryggingu
Drög að reglugerðarbreytingum á sviði umhverfismála
Drög að lagafrumvarpi um breytingar á lyfjalögum m.t.t. aldursskilyrða
Frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða
Frumvarp til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir
Áform um hækkun kolefnisgjalds
Drög að breytingum á reglugerð um ávana- og fíkniefni
Lagafrumvarp þar sem kveðið er á um skyldu til áfestingar tappa á drykkjarvöruumbúðir
Drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum um úrvinnslugjald m.a. hvað varðar plastumbúðir og úr sér gengin ökutæki
Umræður um gullhúðun Evrópugerða hafa aukist á starfsárinu. Bæði á vettvangi atvinnulífs og stjórnvalda hefur aukin vitund vaknað um tilhneigingu sem hefur gætt á vettvangi hins opinbera til að innleiða Evrópugerðir í íslenska rétt án þess að nýtt hafi verið tækifæri til aðlögunar að íslenskum raunveruleika og jafnvel verið gengið lengra en þörf krefur. Að sama skapi hefur í ýmsu tilliti komið í ljós að hagsmunagæsla við undirbúning mála á vettvangi ESB hefur verið ófullnægjandi.
Með nokkurri einföldun má einnig halda því fram að svo virðist sem setning kvaða og hvata sem ná eiga til íslenskra fyrirtækja í þágu losunarsamdráttar og orkuskipta sé í mörgum tilvikum gerð í blindni m.t.t. afleiðinga sem hæglega geti komið fram í skertri samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja, verulega aukinna stjórnsýslubyrða og hækkandi verðlagi. Það á eflaust við á fleiri sviðum og fyrir vikið má ætla að geta stjórnmálamanna og starfsmanna stjórnsýslunnar til að framkvæma hagsmunamat hafi verið verulega skert.
Eins og áður segir hefur ásókn aukist í almenna þjónustu lögfræðisviðs SVÞ. Sviðið veitir aðildarfyrirtækjum lögfræðiaðstoð vegna samskipta við hið opinbera.
Eftirfarandi dæmi um þjónustu sem veitt var aðildarfyrirtækjum á árinu bera þess glöggan vott að verkefnin eru á breiðu sviði.
Ráðgjöf vegna endurskoðunar á tollflokkun
Ráðgjöf vegna athugasemda við bótakröfu innan samninga
Ráðgjöf vegna upprunareglna við tollmeðferð vöru
Ráðgjöf vegna innflutnings vara frá ríki utan EES-svæðisins
Álitsgjöf vegna tolla af kartöflum
Hagsmunagæsla vegna óáfengra drykkja
Framsetning kæru vegna álagningar úrvinnslugjalds
Ráðgjöf vegna stöðu húsaleigu í atvinnuskyni
Ráðgjöf vegna túlkunar innkaupasamnings opinberrar stofnunar á sviði heilbrigðismála
Ráðgjöf vegna gerðar beiðnar um frestun réttaráhrifa ákvörðunar um töku vöru af markaði
Ráðgjöf vegna auglýsingasamnings
Álitsgjöf vegna samningsgerðar á sviði ræstinga
Álitsgjöf vegna notkunar vörumerkja
Aðstoð við framsetningu kæru á sviði vátryggingamála
Ráðgjöf vegna fyrirkomulags m.t.t. virðisaukaskatts af varahlutum
Ráðgjöf vegna gallaðrar vöru
Ráðgjöf vegna endurskoðunar viðskiptaskilmála
Ráðgjöf vegna athugasemda Skattsins m.t.t. ákvæða laga um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Hagsmunagæsla vegna tilkynningaskyldu stjórnvalda um starfsemi á sviði faggildingar
Ráðgjöf við túlkun ákvæða reglugerðar um sund- og baðstaði
Ráðgjöf vegna samskipta við stjórnvaldsstofnun í kjölfar úttektar á búnaði
Hagsmunagæsla vegna ólögmætrar álagningar sérhæfðrar gjaldtöku hins opinbera
Hagsmunagæsla vegna breytinga á reglugerð sem varðaði umboð til að annast starfsemi
Ráðgjöf vegna samskipta við Ríkiskaup
Hagsmunagæsla vegna ETS-losunarheimilda
Álitsgjöf vegna upplýsingagjafar um sjálfbærnimál
Ráðgjöf vegna birtingar upplýsinga um viðskiptavin
Ráðgjöf vegna útboðs á EES-svæðinu
Ráðgjöf vegna riftunar þjónustusamnings af hálfu opinberrar stofnunar
Greinarskrif um starfsemi á sviði útleigu
Álitsgjöf vegna forsendna höfnunar skólavistar
Yfirlestur þjónustusamninga við sveitarfélög um rekstur skóla
Ráðgjöf vegna virðsaukaskattsskyldu sjálfstæðra ráðgjafa
Hagsmunagæsla vegna breytinga á reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts til ferðamanna
Aðstoð við samskipti við tollyfirvöld vegna upplýsingagjafar á farmbréfum
Ráðgjöf vegna uppsagnar húsaleigusamnings
Aðstoð við gerð andsvara fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa
Ráðgjöf um umbúðir m.t.t. úrvinnslugjalds
Ráðgjöf vegna lagalegra krafna til rekstraraðila hleðslustöðva
Ráðgjöf og hagsmunagæsla vegna reksturs tollvörugeymslu
Álitsgjöf vegna alþjónustu á sviði póstmála
Samskipti við lögreglu vegna innflutnings á vörum
Aðstoð við gerð andsvara vegna umsóknar um rekstrarleyfi
Aðstoð við gerð upplýsingabeiðna á grundvelli ákvæða upplýsingalaga
Aðstoð við gerð erindis til Samkeppniseftirlitsins
Hagsmunagæsla á sviði rafrænna sjúkraskráa
Ráðgjöf vegna samskipta við erlendan birgja
Yfirlestur trúnaðarsamnings
Hagsmunagæsla vegna samhliða innflutnings lyfja
Til viðbótar framangreindu hafði lögfræðisvið SVÞ aðkomu að fjölda mála sem varða almenna hagsmunagæslu fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna, m.a. á sviði loftslagsmála og skatta.
Fyrir hönd SVÞ vann lögfræðisvið kæru til kærunefndar útboðsmála vegna innkaupa opinberrar stofnunar á rekstrarvörum en samtök á borð við SVÞ njóta sjálfstæðrar heimildar til framlagningar slíkra kæra óháð lögvörðum hagsmunum.
Þá er rétt að geta þess að á starfsárinu var lögfræðingur SVÞ skipaður í úrskurðarnefnd bílgreina, fyrir hönd Bílgreinasambandsins, en nefndin starfar á grundvelli ákvæða laga nr. 81/2019, um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.