SVÞ eiga lögum samkvæmt einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa í stjórn Úrvinnslusjóðs. Sjóðurinn er ríkisstofnun sem hefur það meginhlutverk að ráðstafa tekjum af úrvinnslugjaldi og skilagjaldi af ökutækjum, sem eru að meginstefnu lögð á við innflutning vara og ökutækja.
Tekjurnar eru nýttar til að standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar og eftir atvikum söfnun úrgangsins. Þá eru tekjurnar einnig nýttar til að stuðla að endurvinnslu úrgangs, annarri endurnýtingu úrgangsins og kostnaði við förgun þess úrgangs sem blandast hefur vöru sem greitt hefur verið úrvinnslugjald. Úrvinnslusjóði ber einnig að nýta tekjur af úrvinnslugjaldi til að ná settum markmiðum um endurnýtingu og endurvinnslu pappa-, pappírs-, gler-, málm-, viðar- og plastumbúða, raf- og rafeindatækja og rafhlaðna og rafgeyma. Að auki ráðstafar Úrvinnslusjóður tekjum af skilagjaldi sem er lagt á ökutæki til úrvinnslu þeirra þegar þau eru orðin að úrgangi og stendur undir kostnaði vegna framlengdrar framleiðendaábyrgðar.
Töluverðar breytingar urðu á starfsemi Úrvinnslusjóðs á starfsárinu. Ólafur Kjartansson, fyrrum framkvæmdastjóri, óskaði eftir viðræðum um lausn úr starfi og lauk að mestu störfum fyrir sjóðinn um mitt síðasta almanaksár. Sandra Brá Jóhannesdóttir var ráðin framkvæmdastjóri að undangengnu mati hæfisnefndar þar sem lögfræðingur SVÞ átti sæti. Magnús Jóhannesson, formaður stjórnar, lét af starfi á seinni hluta síðasta árs og tók Kristófer Mar Maronsson við formennskunni af Magnúsi. Þá tók Jón Viggó Gunnarsson, forstjóri Sorpu, sæti í stjórninni f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga. Unnið hefur verið að endurskoðun stefnumótunar sjóðsins að undanförnu, úrbótaáætlun liggur fyrir auk þess sem hagsmunavettvangi hefur verið komið á fót. Í kjölfar innleiðingar laga nr. 103/2021 (EES-reglur, hringrásarhagkerfið) hefur sjóðurinn staðið frammi fyrir viðamiklum áskorunum.
Upptaka sérstakrar söfnunar heimilisúrgangs og víðtækari ábyrgð sjóðsins á umbúðaúrgangi hafa í senn skapa kostnað og flækjur sem bæði hafa komið fram í hækkandi úrvinnslugjaldi og íþyngjandi kröfum um upplýsingagjöf við tollafgreiðslu vara. Að hluta til helgast áskoranirnar af ákvörðun Alþingis um að Evrópugerðir á sviði úrgangsmála tækju gildi hér á landi a.m.k. tveimur árum áður en þær tóku gildi í aðildarríkjum ESB.
Fyrir vikið hefur sjóðurinn í ýmsu tilliti þurft að leita eigin leiða til að ná tilætluðum árangri enda takmarkað unnt að leita reynslu annarra ríkja. Segja má að rekstur verkefna Úrvinnslusjóðs í formi opinberrar stofnunar sem er fjármögnuð með skatttekjum sé stílbrot á alþjóðavísu. Víðast hvar er slíkur rekstur í höndum þeirra sem bera framlengda framleiðendaábyrgð á úrgangi vara, þ.e. innflytjenda og innlendra framleiðenda. Svigrúm Úrvinnslusjóðs til athafna er fyrir vikið mun takmarkaðra hér en erlendis. Í þessu samhengi má benda á að hinn 30. nóvember 2022 skilaði starfshópur, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, skýrslu um kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar sem inniheldur ýmsar tillögur sem munu hafa áhrif á starfsemi Úrvinnslusjóðs verði þeim hrint í framkvæmd. Þeirra á meðal er tillaga þess efnis að framleiðendur og innflytjendur taki við framkvæmd framlengdrar framleiðendaábyrgðar að erlendri fyrirmynd. Í því fælist gróflega að atvinnurekendum yrði gert skylt að standa sjálfir að rekstri kerfis á borð við það sem Úrvinnslusjóður rekur nú, þ.e. að þeim verði falið að bera í raun ábyrgð á úrgangi vara sem þeir framleiða eða flytja inn, allt frá afhendingu þeirra til neytenda og fyrirtækja hér á landi til úrvinnslu þeirra þegar þær eru orðnar að úrgangi. Eftir því sem verkefnum Úrvinnslusjóðs fjölgar og veltan eykst verður að ætla að fýsilegra verði að fara þá leið hér á landi. Innan SVÞ hafa tilteknir hópar fyrirtækja t.d. lýst áhuga á að taka slík verkefni yfir. Fyrirmynda má bæði leita hér á landi, þ.e. rekstrarfyrirkomulags Endurvinnslunar hf., og á hinum Norðurlöndunum, t.d. Batteriretur í Noregi, þar sem innflytjendur og framleiðendur hafa sameinast um rekstur úrvinnslukerfa utan hefðbundinna hagnarsjónarmiða og eiga í mikilvægu samstarfi við fyrirtæki sem sérhæfa sig í úrvinnslu úrgangs.
Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur SVÞ er aðalmaður samtakanna í stjórn Úrvinnslusjóðs en Berglind Rós Guðmundsdóttir frá Festi hf. varamaður.
Á starfsárinu afhentu fulltrúar samtaka í Húsi atvinnulífsins umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra loftslagsvegvísa atvinnulífsins sem ramma inn tillögur um aðgerðir og úrbætur sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum til að stuðla að því að loftslagsmarkmið Íslands náist.
Aðkoma íslensks atvinnulífs skiptir sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að markmið náist. Loftslagsvegvísarnir voru unnir á forsendum atvinnulífsins með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og var mikil áhersla lögð á víðtækt samráð innan atvinnugreina við gerð þeirra svo að þeir endurspegluðu fjölbreytileika íslensks atvinnulífs. Ellefu loftslagsvegvísar sem innihéldu 332 tillögur samtals voru afhentir stjórnvöldum í Hörpu þann 7. júní 2023.
Loftslagsvegvísar atvinnulífsins eru lifandi skjöl sem stefnt er að verði uppfærð reglulega, en einnig er gert ráð fyrir að fleiri atvinnugreinar bætist við eftir því sem verkefninu vindur fram.
Hægt er að nálgast alla loftslagsvegvísar ásamt ítarefni hér (https://www.loftslagsvegvisar.is/).
SVÞ, Bílgreinasambandið og Samtök ferðaþjónustunnar sameinuðust um gerð vegvísi um vegasamgöngur. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, Jón Gestur Ólafsson, gæða- og umhverfisstjóri Hölds og Magnús Svavarsson, framkvæmdastjóri Vörumiðlunar gengdu leiðtogahlutverki við gerð loftslagsvegvísins en María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins var verkefnastjóri.
Verkefnið var gríðarlega umfangsmikið. Mikil vinna liggur að baki Loftslagsvegvísi atvinnulífsins í vegasamgöngum sem unnin var á mjög skömmum tíma af tiltölulega fámennum hóp, en verkefnið fólst m.a. í að greina og vinna gögn sem oft voru ekki aðgengileg, undirbúa vinnustofur og vinnufundi og vinna úr niðurstöðunum. Einnig var ráðist í það verkefni að smíða svokallað losunarlíkan vegasamgangna til að áætla losun frá vegasamgöngum miðað við tilteknar forsendur eftir ökutækjaflokkum og notendahópum fyrir árin 2022 og 2030.
Horfa verður á fyrrgreinda vinnu sem grundvöll að aðferðafræði og upphaf að áframhaldandi vinnu sem líkur ekki fyrr en fullum orkuskiptum í vegasamgöngum hefur verið náð. Þær tillögur sem eru tilgreindar í loftslagsvegvísi vegasamgangna eru því engan vegin tæmandi, niðurstöðurnar eru áætlanir og byggja oft á bráðabirgðatölum og krefjast því staðfestingar og nánari útreikninga hjá verkefnastjórn stjórnvalda um orkuskipti. Verkefnið snertir beint fjölmörg ráðuneyti en mest áhrif á verkefnið hafa umhverfis-, orku og loftslagsráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og innviðaráðuneyti.
Losun frá vegasamgöngum nam 775 þús. tonnum CO2-ígilda árið 2005 eða um 24,9% af heildarlosun á beinni ábyrgð Íslands. Ef gengið er út frá því að losun í vegasamgöngum þurfi að dragast jafn mikið saman og heildarlosun eða um 55% þá má hún ekki verða meiri árið 2030 en 349 þús. tonn CO2-ígilda. Þróunin hingað til er hins vegar aukning í losun frá vegasamgöngum en skv. tölum frá Umhverfisstofnun var losunin 860 þús. tonn CO2-ígilda árið 2021.
Þróunin hingað til er hins vegar aukning í losun frá vegasamgöngum en skv. tölum frá Umhverfisstofnun var losunin árið 2021, 860 þús. tCO2-ígilda eða um 31% af losun á beinni ábyrgð Íslands en árið 2022 var losun frá vegasamgöngum komin í 926 þús. tCO2-ígildi eða 33% hluti af losun á beinni ábyrgð Íslands. Losun frá vegasamgöngum er því að aukast umtalsvert og liggur mikið á að snúa þróuninni í vegasamgöngum við.
Losun frá vegasamgöngum er því að aukast umtalsvert og einnig sem hlutfall af heildarlosun. Því liggur mikið á að snúa þróuninni í vegasamgöngum við.
Vinnuhópurinn setti upp tvær sviðsmyndir í losunarlíkaninu til að áætla losun árið 2030 og bera saman við markmið. Samkvæmt sviðsmynd 1 stefnir í að losun frá vegasamgöngum aukist um 11,8% til 15,3% miðað við árið 2005 í stað þess að hafa dregist saman um 55% eins og markmið stjórnvalda segir til um.
Þessi þróun eykur líkur á því að kaupa þurfi losunarheimildir á hverju ári til ársins 2030, setur að auki markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 í uppnám sem og kolefnishlutleysi sama ár. Í mjög krefjandi sviðsmynd 2 næst að draga losun saman um 13,8% frá árinu 2005 en niðurstaðan er samt sem áður langt frá markmiði ársins 2030. Gerði sú sviðsmynd fyrir að einungis hreinorkuökutæki í öllum ökutækjaflokkum yrðu skráð í landið frá 1. janúar 2024. Ef ekki verður gripið tafarlaust og afgerandi í taumanna mun þessi staða seinka gríðarlegum ávinningi af orkuskiptum yfir í íslenska, endurnýjanlega, raforku og meðal annars kalla á mikinn innflutning íblöndunarefna í jarðefnaeldsneyti.
Niðurstaðan vinnuhópsins var að skilgreina verkefnið í fjögur viðfangsefni svo ná megi betur utan um helstu áskoranir og í framhaldi skilgreina skipulegar aðgerðir.
Þrjú fyrstnefndu eru stuðningsviðfangsefni og það síðastnefnda er það sem hefur bein áhrif á losun og getur ekki orðið að veruleika nema stuðningsviðfangsefnin séu virk.
Viðfangsefnin fjögur:
Skipulag á orkuskiptum
Orkuöflun, flutningur og dreifing
Orkuáfyllingarinnviðir fyrir hreinorkuökutæki
Notkun ökutækja
Aðgerðir til samdráttar í losun í viðfangsefninu notkun ökutækja flokkast í fjóra þætti sem eru;
Minni akstur með notkun annarra ferðamála
Minni akstur með breyttum samfélagslegum athöfnum
Akstur verði á hreinorkuökutækjum
Jarðefnaeldsneyti verði blandað með lífeldsneyti
Aðgerðir allra viðfangsefna þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að ná hámarks skilvirkni þ.e. vera;
Í samhengi
Fyrirsjáanlegar
Hagkvæmar
Samvirkandi
Mælanlegar
Loftslagsvegvísir vegasamgangna inniheldur yfirlit yfir losunarsamdrátt sem nást þarf í vegasamgöngum í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og innihélt hann 83 aðgerðir sem skiptust niður á þessi viðfangsefni og ættu að stuðla að losunarsamdrætti. Hér á myndinni er hægt að sjá skiptingu tillagna.
Niðurstöður umfjöllunarinnar voru þær helstar að stjórnvöld þurfi að taka betur á verkefninu en gert hefur verið til þessa og nauðsynlegt væri að grípa til djarfari aðgerða. Gert var ráð fyrir að tillögur sem settar voru fram í loftslagsvegvísunum mundi Stjórnarráðið nýta við mótun eigin aðgerða. Fyrstu merki gefa þó ekki mikla von um að tillögur atvinnulífsins hafi náð til allra ráðherra.
Að lokum viljum við þakka öllum sem komu á einn eða annan hátt að þessu verkefni kærlega fyrir þeirra framlag og berum þá von í brjósti að þetta verkefni verði grunnur að áframhaldandi vinnu við orkuskipti í vegasamgöngum á Íslandi með skilvirkum og árangursríkum hætti.