Tillaga
Miklar framfarir og ör vöxtur stafrænnar tækni kallar á auknar kröfur um menntun á því sviði. Menntakerfið er öflugasta tækið til að undirbúa samfélagið undir þær öru stafrænu breytingar sem eiga sér stað í heiminum.
Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að „á Íslandi sé framsækið menntakerfi sem taki mið af þörfum framtíðarinnar fyrir þekkingu á tilteknum sviðum."
Með því að tryggja að menntakerfið hafi yfir að ráða kennurum með færni í stafrænni tækni styðjum við við frekari framþróun en um leið tryggjum við að ekki myndist gjá á milli þeirra sem búa yfir sérfræðiþekkingunni og notenda tækninnar í samfélagi sem tekur örum stafrænum breytingum í allri þjónustu.
Stefna stjórnvalda þarf því að leggja áherslu á fjárfestingu í menntun og þjálfun og menntunarstig og gæði menntunar skipta þar gífurlegu máli.
Til að tryggja stafræna hæfni til framtíðar þarf að líta menntakerfið nýjum augum. Allir nemendur þurfa að hafa aðgang að menntun sem veitir færni í upplýsinga- og fjarskiptatækni, auk annarrar færni til að leysa vandamál í tæknivæddu umhverfi. Tryggja þarf námsframboð í upplýsinga- og fjarskipta-tækni og nýtingu gagna, auk þess sem allt nám þarf að byggja upp nauðsynlega samfélagslega færni, samskipta- og stjórnunarhæfni og auka þarf starfsþjálfun innan menntunar. Tryggja þarf að þessi færni sé byggð upp allt frá fyrstu skólastigum og að nægileg tækifæri séu til símenntunar alla ævi. (OECD)
Nauðsynlegt er að efla stafræna færni Íslendinga almennt. Menntakerfið okkar gegnir þar lykilhlutverki en verulega vantar upp á að nægilega mikið sé að gert.
Jafn aðgangur allra að stafrænu umhverfi er jafnréttismál og því mikilvægt að öll skólastig efli stafræna færni en ekki síður sí- og endurmenntun. Enn frekar þarf að þróa bæði einstaka áfanga auk námsbrauta fyrir framhaldsskóla. Ráðast þarf í þróunarverkefni þar sem stafræn færni er innlimuð í allt nám á grunnskólastigi. Tæknilæsi og stafræn færni grunnskólakennara þarf að efla með markvissum aðgerðum.
Í aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna er lögð áhersla á að háskólar séu lykilstofnanir þegar komi að þekkingarsköpun og færniuppbyggingu til að takast á við stafræna þróun. Mikilvægt sé að háskólanám sé í samræmi við breytingar í samfélaginu og á vinnumarkaði og að nemendur komi vel undirbúnir þaðan út, auk þess sem þeir gegni mikilvægu hlutverki við símenntun fagfólks.
Gagnrýna skýrsluhöfundar háskólasamfélagið fyrir að gera kennslu og miðlun til sam-félagsins ekki nægilega hátt undir höfði í starfi akademískra starfsmanna og vilja sjá fjarkennslu og aukið framboð af námskeiðum á netinu til að bæta námsumhverfi nemenda, auk þess sem fram koma hugmyndir um þróun og nýtingu raunfærnimats til að meta reynslu af vinnumarkaði til styttingar náms.
Til að gera menntun og þjálfun eins áhrifaríka og mögulegt er liggja miklir möguleikar í betri nýtingu stafrænnar tækni í kennslu og lærdómi. Til að nýta þessar leiðir er hinsvegar færni, hvati og afstaða kennara lykilatriði ef ná á árangri og því er gríðarlega mikilvægt að stafræn færni sé samofin menntun þeirra og þjálfun, hvort sem um ræðir grunnnám eða sí- og endurmenntun. (OECD)
- WEF
Ör breyting starfa með innleiðingu nýrra starfa er eitt af þeim þremur megin-viðfangsefnum í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar og kallar á aukna þörf fyrir sí- og endurmenntun.*
Virk símenntun er lykill að aukinni verðmætasköpun og fjölgun starfa á vinnumarkaði og grundvöllur þess að fólk efli færni sína til að „ná fótfestu í breyttu atvinnulífi."*
*Aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna
Fólk á lægri launum skortir færni og annað sem þarf til að aðlaga sig að heimi sem verður sífellt stafrænni auk þess sem sífellt fleiri af störfum þessa hóps hverfa vegna sjálfvirknivæðingar. Þetta gerir þjálfun þeirra enn meira áríðandi. Flest fyrirtæki þurfa að auka færni starfsfólks sinna á hraðan og áhrifaríkan hátt til að undirbúa enn frekara samstarf manns og tækni. (OECD, WEF)
Ekki síst þarf að tryggja að hvati sé til símenntunar meðal þeirra sem minnsta færnina hafa og að rutt sé í burt hindrunum í fullorðinsfræðslu, s.s. með því að styðja við upplýsingagjöf um námsmöguleika, nýtingu tækni á borð við fjarkennslu, bættri markaðssetningu fullorðinsfræðslu, raunfærnimati og stuðningi við fjármögnun (OECD).
Í aðgerðaáætlun um fjórðu inðbyltinguna er kallað er eftir breytingum á núverandi kerfi náms fullorðinna og úrbótum á stoðþjónustu á borð við upplýsingar um námstækifæri og störf hérlendis. Mikilvægt sé að efla framboð símenntunar á háskólastigi og áhersla lögð á að það þurfi að vera samstarfi við atvinnulíf og aðrar menntastofnanir. Er tillaga um Stafrænt hæfnissetur innlegg í þá vinnu.
WEF og McKinsey mæla með því að treysta ekki eingöngu á núverandi menntakerfi heldur að nýta stafræna tækni til að ná skalanleika í sí- og endurmenntun.
Stjórnvöld eigi að hvetja einkafyrirtæki til að þróa símenntunarnám fyrir núverandi starfsfólk sem gefi fyrirtækjunum aðgang að færni framtíðarinnar. Fyrirtæki ættu einnig að byggja upp starfsnám sem nýtir fjarmenntunartækifæri og aðferðir á borð við leikjafræði, í samvinnu við háskólasamfélagið og nýsköpunafyrirtæki, og byggja menningu þar sem hvatt er til lærdóms og aukinnar færni og hvoru tveggja viðurkennt. Nauðsynlegt er að upplýsa starfsfólk um þær breytingar sem í vændum eru og þörfina á endurmenntun, til að styðja við hraðari umbreytingar. (WEF & McKinsey)
Öflug samræming milli mennta- og fræðslustofnana, vinnuveitenda og annarra í samfélaginu er nauðsynleg til að tryggja að fræðsla og menntun sé sífellt að aðlagast breyttum þörfum og til að tryggja að þau öðlist hana sem mest þurfa á henni að halda (OECD).
Nauðsynlegt er að til staðar séu góðar sjálfstæðar leiðir fyrir fólk að kynna sér hvað er í boði og aðgengileg símenntunarráðgjöf fyrir allt starfsfólk á vinnumarkaði, hvort sem það er með atvinnu eða án. Nauðsynlegt er að samræma fræðslu og nám við þarfir atvinnulífsins með því að tryggja að áreiðanleg gögn liggi til grundvallar þróunar á framboði náms og fræðslu. (OECD)
Nýta má Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og starfsmenntasjóðina mun betur í þessu samhengi til að efla stafræna færni á vinnumarkaði. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur þegar lýst yfir samstarfsvilja með Stafrænu hæfnisetri, auk Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks.
Til að geta sem best nýtt tæknina sér í hag þurfa fyrirtæki að hafa yfir að búa bæði starfsfólki og stjórnendum með stafræna þekkingu og færni.
Rannsóknir SVÞ og VR benda til að sú þekking og færni sé enn sem komið er af skornum skammti á íslenskum markaði. Framboð á menntun á þessu sviði er lítil, og mennta-kerfið hefur ekki brugðist jafn hratt við breyttum aðstæðum og framtíðarhorfum og æskilegt væri. Ekki er fyrirsjáanlegt að menntaþróunin verði nógu hröð nema gripið verði til róttækra aðgerða.