Í skýrslu Capacent og Microsoft frá árinu 2018, um stöðu íslenskra fyrirtækja í stafrænum umskiptum, kemur fram að stjórnendur segja stjórnvöld verða að átta sig á „að ekki sé nóg að byggja upp tæknilega innviði heldur verði einnig að huga að því að byggja upp þá þekkingu og hæfni sem til þarf í stafrænu samfélagi,” og að þar verði að horfa m.a. til menntunar. Í skýrslunni er jafnframt dregin sú ályktun að fyrir mörg íslensk fyrirtæki sem vilji taka þátt í stafrænum umskiptum sé þekking og reynsla á þeirri vegferð yfirleitt ekki til staðar. Einnig kemur fram að íslensk fyrirtæki séu almennt mjög skammt á veg komin á sviði gagnagreininga.
Helmingur fyrirtækjanna sem tóku þátt í rannsókninni eru að mati skýrsluhöfunda á byrjunarreit eða skammt á veg komin þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Fyrirstaða breytinga er sögð töluverð í mörgum fyrirtækjum og vísbendingar um að stjórnendur telji oft fyrirtæki sín vera lengra á veg komið en raunin er.
Skýrsluhöfundar telja áberandi að stafræn umskipti séu ekki brýnt viðfangsefni hjá fyrirtækjunum þó að þau séu mikilvæg til framtíðar og að oft sé litið á stafræn umskipti sem „afmörkuð verkefni sem ráðast þarf í frekar en eitt verkefni sem krefjist þess að hugsa verði reksturinn og viðskiptalíkan frá grunni”. Þetta er grundvallar misskilningur þar sem stafræn umbreyting snýst um heildræna breytingu á nálgun við viðskiptavininn og stöðugt umbreytingaferli (NRI). Klykkt er út með þeim orðum að störf muni hverfa og ný koma í staðinn en ef þau störf eigi að vera á Íslandi sé verk að vinna og hvernig til takist muni ráða úrslitum um samkeppnishæfni Íslands.
Smelltu til að lesa skýrsluna í heild sinni
Íslensk fyrirtæki standa sig vel hvað varðar að vera með vefsíðu, en þegar kemur að notkun viðskiptakerfa til að skipuleggja starfsemi fyrirtækjanna (e. Enterprise resource planning eða ERP) standa íslensk fyrirtæki mjög illa að vígi þar sem árið 2017 eingöngu 14% íslenskra fyrirtækja nýttu slík kerfi en til samanburðar má nefna að 40% danskra fyrirtækja nýttu þau. Hið sama má segja um notkun á öðrum tæknilausnum fyrir fyrirtæki:
Jafnframt er upptaka netverslunar á Íslandi lág í samanburði og notendaupplifun af íslenskum netverslunum slæm.
Eurostat: Enterprises adopting technologies for e-business, 2014 and 2017
Í úttekt IMD viðskiptaháskólans á stafrænni samkeppnishæfni ríkja árið 2020, er Ísland í 23. sæti af 63. ríkjum úr 27. sæti árinu áður. Til samanburðar má nefna að Danmörk er í 3. sæti á listanum, Svíþjóð í 4., Noregur í 9. og Finnland í 10.
Af greiningunni er ljóst að þeir þættir sem draga okkur verulega niður eru þjálfun og menntun, reglugerðarrammi (þar sem einkunnin hefur lækkað síðustu ár), tæknilegir innviðir og geta viðskiptalífsins til að aðlagast og hreyfa sig hratt. Einnig lækkar einkunn okkar þegar kemur að hæfu starfsfólki (e. talent).
Ljóst er að við erum verulegir eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur helst saman við, s.s. hin Norðurlöndin.
Smelltu til að spila myndbandið
The Network Readiness Index (NRI) metur áhrif fjarskipta-og upplýsingatækni (e. Information and communications technology, eða ICT) á samfélög og þróun ríkja. Í nýjustu niðurstöðum NRI frá október 2020, má glögglega sjá að Ísland stendur töluvert verr en hin Norðurlöndin. Svíþjóð fær hæstu einkunn, Danmörk er í 2. sæti, Finnland í því 6. og Noregur í 7. Ísland er í 21. sæti. Meðal þátta sem draga Ísland niður er hvernig við stöndum okkur hvað varðar fjárfestingu í hugbúnaði, nýtingu fyrirtækja á stafrænni tækni, eflingu stjórnvalda á fjárfestingu í nýrri tækni og aðlögun laga og reglugerða að stafrænni tækni og starfrænum viðskiptum.
Í skýrslu forsætisráðuneytisins um fjórðu iðnbyltinguna kemur jafnframt fram að staða Íslands í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar hvað varðar færni atvinnulífsins til að tileinka sér nýja tækni er slök og að stjórnvöld hafi sett sér markmið um um að bæta sig á þeim sviðum.
Stafrænt hæfnisetur er meðal þeirra aðgerða sem lagðar eru til svo varpa megi skýrara ljósi á stöðu íslenskra fyrirtækja í stafrænni umbreytingu og til að efla þau í nýtingu stafrænnar tækni.
Störf munu hverfa, önnur breytast og enn önnur verða til, sem jafnvel kunna að vera betri, og auka lífsgæði á mörgum sviðum samfélagsins með því að bæta frammistöðu starfsfólks. En til þess að svo megi verða þarf að undirbúa samfélagið undir þær breytingar sem í vændum eru. (Ísland og fjórða iðnbyltingin)
Stafræn þróun stuðlar einnig að óbeinni sköpun starfa með því að stuðla að aukinni framleiðni, verðlækkunum og nýjum vörum sem leiða til aukinnar eftirspurnar og þar með enn frekari starfasköpun. Lykillinn er menntun og þjálfun í stafrænni færni. (OECD)
- OECD
Byggt á greiningu OECD, mun 28% íslensks vinnumarkaðar verða fyrir verulegum breytingum eða störf hverfa alveg og 58% starfa mun taka talsverðum breytingum.
Til að gera fólki á vinnumarkaði kleift að mæta þessum breytingum þarf að grípa til markvissra aðgerða og nýr stuðningur við færni í grunntækni fjórðu iðnbyltingarinnar er nauðsynlegur. (Ísland og fjórða iðnbyltingin)
Glötun starfa vegna kórónufaraldursins eykur enn frekar þörfina á því að skapa störf og tryggja að fólk á vinnumarkaði hafi þá færni sem þörf er á í sífellt meira stafrænt væddum störfum.
Með stafrænni tækni má enn frekar auka atvinnutækifæri, jafnvel óháð staðsetningu, með sveigjanlegri vinnu, þ.á.m. fjarvinnu, og menntun og stuðningi við fólk á vinnumarkaði. (WEF)
Fólk þarf rétta samsetningu hæfni til að nota stafræna tækni á áhrifaríkan hátt í einkalífi og starfsfólk og stjórnendur fyrirtækja þurfa enn meiri færni til að nýta hana sér til framdráttar (OECD).
- WEF & McKinsey
- WEF
Af 2.000 svarendum telja tæplega 38% frekar litlar breytingar og 15% mjög litlar breytingar verði á sínu starfi á næstu þremur árum vegna tæknibreytinga og/eða stafrænnar þróunar. Flestir telja sig vita hvernig störfin munu þróast, en aðeins 16% svarenda hafa áhyggjur af breytingum á störfum.
Niðurstöður könnunar VR benda einnig til þess að þeir sem hafa lokið menntun á háskólastigi séu þegar farnir að sækja sér aukna þekkingu sem tengist breytingum á störfum þeirra. Mikill munur er á svörum þeirra sem eru með hærra menntunarstig og hinum sem ekki hafa lokið formlegri menntun hvað þetta varðar sem er í samræmi við niðurstöður OECD.
Báðir hópar eru hins vegar sammála um mikilvægi þess að sækja sér menntun/aukna þekkingu í ljósi stafrænnar þróunar á vinnumarkaði.
Sterkt ákall er um bætta færnigreiningu á íslenskum vinnumarkaði, m.a. frá stjórnarráðinu, Vísinda- og tækniráði, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands.
Þörf er á reglubundnum rannsóknum á störfum og þróun þeirra í íslensku atvinnulífi. Með slíkum rannsóknum væri hægt að kortleggja betur þá hæfni sem er til staðar og hvar þörfin fyrir nýja hæfni í fyrirtækjum liggur. Þá gætu fræðsluaðilar og menntastofnanir einnig mótað námsframboð sitt með tilliti til þess.