COVID-19
Vegna kórónufaraldursins glatast fjölmörg störf. Þetta eykur enn frekar þörfina á því að skapa störf og tryggja að fólk á vinnumarkaði hafi þá færni sem þörf er á í sífellt meira stafrænt væddum störfum.
Faraldurinn hefur ekki síður gjörbreytt afstöðu stjórnenda fyrirtækja og einstaklinga til stafrænnar tækni og skapað nýja sýn á þá möguleika sem búa í stafrænni tækni nú þegar mun fleiri en áður hafa nýtt hana til fjarvinnu og fólki hefur verið ýtt út í að tileinka sér nýja stafræna færni til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi (Aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna).
Bilið milli þeirra sem kunna og kunna ekki þegar kemur að stafrænni hæfni fer sífellt stækkandi vegna heimsfaraldursins, hvort sem um er að ræða þjóðir, fyrirtæki eða einstaklinga (OECD, UNCTAD). Markvissar aðgerðir til aukningar stafrænnar hæfni, á borð við Stafrænt hæfnisetur, eru því lykilatriði til að tryggja samkeppnishæfni bæði íslensks efnahags, fyrirtækja og fólks á vinnumarkaði.
- WEF
Lítil og meðalstór fyrirtæki standa verr að vígi í stafrænni þróun en stærri fyrirtæki og til að þau nái að njóta ávinnings hennar þurfa þau aðstoð við að komast yfir hindranir sem standa í vegi fyrir áhrifaríkri notkun stafrænnar tækni (OECD).
Yfirstandandi heimsfaraldur hefur einnig hraðað stafrænni þróun gríðarlega. Ekki sér fyrir endann á þeim breytingum sem faraldurinn mun hafa á atvinnulíf og samfélög.